Garðvinna eykur umhverfisvitund barna

Börn geta fræðst mikið um umhverfið í gegnum garðrækt með …
Börn geta fræðst mikið um umhverfið í gegnum garðrækt með foreldrum sínum. mbl.is/Colourbox

Sumarið er tíminn þegar við hugum að umhverfinu í kringum okkur utandyra. Hvort sem þú átt lítinn garð í kringum húsið eða svalir er alltaf hægt að rækta eitthvað fallegt og vinna í að setja blóm og annað fallegt í kringum okkur. 

Garðvinna er ekki einungis holl fyrir okkur fullorðna fólkið heldur einnig fyrir börnin okkar. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því að garðrækt ætti að vera hluti af uppeldi barna okkar:

Garðvinna hefur áhrif á námsárangur barna

Rannsóknir hafa sýnt að það mælist fylgni á milli þess að börn fá þjálfun við að vinna í garðinum heima hjá sér og að þau sýni betri námsárangur í skóla. Lykilatriðið er að leyfa börnunum að fara í gegnum þá reynslu að stjórna hluta af því sem þau gera í garðinum. Leyfa þeim að finna út hvernig hlutirnir virka, hversu langan tíma það tekur að rækta blóm og/eða annan gróður í garðinum, hvað þurfi að gera til að gróðursetja og hvað þurfi að gera til að halda gróðrinum við. Með þessu móti læra börnin nýja hluti án þess að þurfa að sitja inn í skólastofu til þess. 

Garðvinna eykur umhverfisvitund barna

Þeir sem fylgjast með umhverfismálum vita hverjar áskoranir okkar eru í þeim efnum. Af þessum sökum er nú mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kenna börnum okkar hvaða áhrif hegðun okkar hefur á umhverfið. Úti í náttúrunni læra börn þessa tengingu á milli fólks og náttúrunnar af eigin reynslu. 

Þegar börn læra á fæðukeðjuna, vatn, orku og hvað má rækta í náttúrunni þá finna þau fyrir tengingu við náttúrunnar þannig að þau eiga auðveldara með að skilja verðmæti gróðurs og þess sem hægt er að rækta í garðinum. 

Garðvinna vekur upp löngun í grænmeti

Það muna margir eftir því að hafa verið í skólagörðum hér á árum áður og hversu spennandi það var að prófa að borða það sem ræktað var yfir sumarið. Það getur auk þess verið áhugavert að leyfa börnum að rækta fleira en eina tegund sem hægt er að borða, svo þau geta þróað sinn eigin smekk á grænmeti og því sem er ætilegt úr garðinum. 

Þannig er hægt að setja á diskinn eitthvað sem þau hafa ræktað sjálf sem gerir málsverðinn girnilegan og innihaldsríkan. Hægt er að leyfa þeim að gera te - úr myntulaufum og fleira sem getur látið þeim líða betur á kvöldin áður en þau fara að sofa svo dæmi séu tekin. 

Þar sem Íslendingar munu vafalaust ferðast meira um landið en áður, þá er mælt með því að fara með börnin í ævintýraferðir í gróðurstöðvar og kynna þeim fyrir náttúrulegri íslenskri ræktun sem er að sjálfsögðu á heimsmælikvarða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert