Þarf leyfi frá dómara til að vera viðstaddur fæðinguna

Eiginmaður Nicki Minaj þarf að sækja um leyfi til þess …
Eiginmaður Nicki Minaj þarf að sækja um leyfi til þess að fá að vera viðstaddur fæðinguna. AFP

Kenneth Petty, eiginmaður tónlistarkonunnar Nicki Minaj, þarf að óska eftir leyfi til að fá að vera viðstaddur fæðinguna. Petty og Minaj eiga nú von á sínu fyrsta barni. 

Ástæðan fyrir því að Petty þarf að sækja um heimild frá dómara til að vera viðstaddur fæðinguna er að hann er dæmdur kynferðisbrotamaður og sætir því öðrum reglum þegar kemur að daglegu lífi. 

Samkvæmt skjölum sem TMZ hefur undir höndum hefur Petty sótt um að ákvæðum í dómsúrskurði hans verði breytt svo hann geti ferðast með eiginkonu sinni í vinnuferðum og svo hann geti verið viðstaddur fæðingu frumburðar síns. 

Petty og Minaj gengu í það heilaga á síðasta ári. Þau voru kærustupar þegar þau voru unglingar en fóru hvort í sína áttina. Þau fundu hvort annað aftur á síðasta ári. 

Petty var dæmdur fyrir 1. stigs nauðgun árið 1995 þegar hann var 16 ára gamall. Lög um kynferðisbrotamenn í Bandaríkjunum eru ströng og þurfa dæmdir kynferðisbrotamenn að skrá sig sem slíka í hvert skipti sem þeir flytja. Petty var dæmdur í New York-ríki en flutti á síðasta ári til Kaliforníu. 

Þegar Petty flutti láðist honum að skrá sig sem kynferðisbrotamann og hlaut viðurlög vegna þess. Nú þarf hann því að sækja um heimild til að gera það sem öðrum mönnum er alla jafna frjálst að gera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert