Fimm uppeldisráð Sverris Norlands

Sverrir ásamt dóttur sinni Ölmu.
Sverrir ásamt dóttur sinni Ölmu. Ljósmynd/Aðsend
Sverrir Norland er rithöfundur, bókaútgefandi og tveggja barna faðir. Hann leggur mikla áherslu á að leyfa börnunum að vera þátttakendur í lífi sínu og að forðast að tala við þau á smábarnamáli, þau skilji mannamál. Sverrir og eiginkona hans Cerise Fontaine eru miklir bókaunnendur og stofnuðu Am-bókaforlagið til þess að auka aðgengi barna að klassískum barnabókum. Hér eru fimm uppeldisráð Sverris.
„Ég gef mig nú ekki út fyrir að vera neinn sérfræðingur í barnauppeldi. En þegar þetta er skrifað eru hér á heimilinu tvö lítil börn – þriggja og hálfs árs stúlka, Alma, og eins mánaðar gamall drengur – og þau eru á lífi, virka ekkert óeðlilega föl, raunar bara frekar hraust og fín, og því verð ég að gefa mér að við foreldrarnir séum að gera eitthvað rétt,“ segir Sverrir. 
„Ég var heimavinnandi fyrsta árið hennar Ölmu en mamman starfaði á safni í New York og því varði ég meiri tíma en hún með þeirri litlu. Það var vissulega oft krefjandi en um leið ein mest gefandi reynsla lífs míns – og kannski fannst mér ég ekki fyllilega fullorðnast fyrr en ég hafði gengið í gegnum það tímabil.“ 
Fjölskyldan.
Fjölskyldan. Ljósmynd/Aðsend

1. Fylgdu lögmálinu um lágmarksfyrirhöfn

Í barnauppeldi geng ég út frá sömu meginreglu og á öllum öðrum sviðum lífsins: lögmálinu um lágmarksfyrirhöfn

Hvað á ég við? Jú: ef það krefðist ógnarlegra hæfileika að vera foreldri væri mannkynið útdautt. Lítil börn eru furðulega sterkbyggð og harðgerð. Það helsta sem þau þurfa er næring, svefn og ástríki. Ef þú ert svo heppin/n að barnið þitt er heilbrigt þá geturðu þetta. Treystu þinni dómgreind frekar en ráðleggingum á netinu eða bókum eftir ókunnugt fólk. Leitaðu ráða hjá fólki sem þú þekkir og treystir ef þú lendir í vandræðum. 
En fyrst og fremst: Slappaðu af! Njóttu þess að vera foreldri! Þá líður barninu best.

2. Vertu nógu hugrakkur til að viðurkenna fyrir umheiminum að barnið þitt skipti þig meira máli en vinnan þín 

Kannski beinist þessi ráðlegging sérstaklega að pöbbum? Mér finnst að það ætti að vera skilyrði hjá fólki í stjórnunarstöðum að það hefði varið löngu tímabili við umönnun barna, sinna eigin eða annarra. Ef slík reynsla væri útbreiddari væri heimurinn einfaldlega betri og fallegri staður – og fyrirtækin í heiminum til dæmis betur rekin. Og fólkið fullorðinslegra. 
Kynnstu barninu þínu. Leyfðu barninu þínu að kynnast þér. Slíkt tekur tíma. Gefðu þér þann tíma. Vertu forvitinn um þessa nýja veru sem þú hefur búið til.

3. Gefðu barninu alvörufæðu (bæði fyrir maga og heila)

Aldrei gefa barninu þínu einhvern sérstakan barnamat út úr búð. Börn eru manneskjur. Þau geta borðað mannamat. Og eins ættum við ekki að tala við börnin okkar á einhverju smábarnamáli. Þau skilja mannamál – og ef þau rekast á orð sem þau kunna ekki er það gott. Eða hvernig ættu þau annars að læra ný orð?
Sverrir að lesa fyrir nýfætt barnið.
Sverrir að lesa fyrir nýfætt barnið. Ljósmynd/Aðsend

4. Hleyptu barninu inn í heiminn þinn

Ég er rithöfundur. Ég skrifa sögur. Ég les bækur. Ég teikna. Mér finnst gaman að vera skapandi og lít á heiminn sem dótakassa. Leyfðu barninu þínu að róta með þér í þessum dótakassa tilveru þinnar.
Til að mynda hef ég verið að spinna upp sögur fyrir Ölmu frá því að hún var pinkulítil – og nýverið heyrði ég frá leikskólakennurunum hennar að hún sé alltaf að búa til og segja þeim og hinum krökkunum sögur. Hún lítur á það sem sjálfsagðan hlut. Það er líka allt úti í bókum hér heima. Og Alma dýrkar bækur. 
Sama gildir um eldhúsið. Hún eldar með okkur, hefur gaman af því og finnst það sjálfsagt. Sem sagt: frekar en að sníða einhverja sérstaka dagskrá í kringum barnið er oft gott að leyfa því frekar að taka þátt í verkefnum heimilisins og þínum áhugamálum.

5. Elskaðu barnið þitt

Lokareglan er einföld: ást. Ef þú elskar barnið þitt fær það besta veganesti sem nokkur manneskja getur haft með sér út í lífið.
Sverrir, Cerise og barn þeirra.
Sverrir, Cerise og barn þeirra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is