„Orð okkar hafa áhrif“

Herdís Ósk passar að tala fallega um líkama sinn og …
Herdís Ósk passar að tala fallega um líkama sinn og barna sinn í uppeldinu. Ljósmynd/Aðsend

Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir laganemi við Háskólann í Reykjavík og tveggja barna móðir leggur mikla áherslu á að kenna börnum sínum að koma vel fram við aðra og að allir líkamar séu fallegir. Herdís sem varð sjálf fyrir stríðni sem barn segir fullorðna fólkið vera fyrirmyndir. Þeirra hegðun og orðræða skiptir miklu máli.

„Ég var granna barnið, ég fékk oft að heyra um það hversu mjó ég væri. Var spurð hvort ég væri ekki örugglega að borða. Ég man þó einnig eftir því að vera hrósað fyrir það að vera grönn. Ég varð þó fyrir stríðni fyrir það að vera „öðruvísi“ en ég er ekki með nafla. Ég fæddist með fæðingargalla sem heitir „Gastroschisis“. Það þýðir að ég fæddist með gat á kviði og garnirnar voru úti. Það þurfti að laga það með því að sauma fyrir, er ég því með stórt ör á kviði,“ segir Herdís um stríðnina sem hún varð fyrir.

Fannst hún verða öðruvísi

„Ég man hvað mest eftir því þegar strákur í skólanum, sem var ári yngri en ég, sagði við mig að hann myndi aldrei vera með stelpu sem væri ekki með nafla. Ég fékk oft að heyra: „Oj, hvað er að þér? hvernig ertu ekki með nafla?“ Þetta hafði slæm áhrif á sálarlíf mitt sem barn. Ég ætlaði mér í aðgerð að láta laga þetta þegar ég væri orðin eldri þrátt fyrir hættuna sem fylgir því, en það er illkynja háhiti í ættinni minni. Við megum þess vegna ekki fá hefðbundin svefnlyf, það getur verið lífshættulegt. En mér var alveg sama, ég vildi bara ekki vera „öðruvísi“.“

Herdís var lengi órörugg vegna eineltisins/stríðninnar sem hún varð fyrir og brást illa við þegar hún var spurð út í magann.

„Blessunarlega þá lærði ég á eldri árum að elska örið mitt en fyrir mér er þetta merki um líf mitt. Ég varð nefnilega fyrir því stuttu eftir fæðingu að deyja en læknar náðu mér til baka. Fyrir mér er þetta ör því kraftaverk. Auk þess var ég heppin að hafa foreldra sem minntu mig á það að örið er fallegt og merki um líf mitt. Ég þakka þeim fyrir það daglega,“ segir Herdís.

Allir mega vera eins og þeir vilja

Rétt eins og foreldrar Herdísar kenndu henni að líta á sérkenni hennar sem eitthvað fallegt reynir Herdís að hafa það sama hugfast í uppeldinu nú þegar hún er orðin móðir.

„Ég kenni þeim að við eigum einn líkama og við eigum að elska hann eins og hann er. Það eina sem skiptir máli er að við hugsum vel um líkama okkar, borðum góðan og hollan mat og finnum hreyfingu sem okkur þykir skemmtileg. Einnig kenni ég þeim að líkamar eru allskonar og allir séu fallegir á sinn hátt, sama hvernig þau líta út.

Ég segi mínum börnum að við þurfum að passa okkur að koma vel fram við alla. Bera virðingu fyrir öðrum og muna að allir mega vera nákvæmlega eins og þeir vilja vera. Það má ekki gera grín að öðrum fyrir útlit þeirra eða nokkuð annað. Ef einhver er vondur við okkur eða ef við sjáum einhvern vera vondan við aðra krakka þá skiptir miklu máli að láta fullorðið fólk vita. Þá er hægt að tala við kennara, annað starfsfólk í skólanum, þjálfara á æfingum eða foreldra.

Ég reyni mitt allra besta að leiðrétta slæmar hugsanir hjá mínum börnum. Reyni að hjálpa þeim að leiðrétta það ljóta sem um þau hefur verið sagt og það ljóta sem þau segja um sjálfan sig. Við kennum börnunum okkar og þykir mér því mikilvægt að við kennum þeim að leiðrétta neikvæðar hugsanir. Það að við segjum þeim að þau séu falleg eins og þau eru skilar sér takmarkað til þeirra. Það að þau læri að tala fallega til sín mun líklega ná lengra til þeirra og líklegra að þau geti í framtíðinni náð að leiðrétta það neikvæða og ljóta sem um þau er sagt eða þær hugsanir sem þau fá. Eða ég vil allavega trúa því.

Undanfarið hef ég tekið upp á því þegar við börnin mín vöknum á morgnana, að standa saman fyrir framan spegilinn og segja eitthvað fallegt um okkur sjálf. Þannig tökum við þau fallegu orð sem við segjum um okkur sjálf með út í daginn. Það á ekki að skipta máli hvernig við lítum út, við eigum að læra að elska líkama okkar og í leiðinni kenna börnunum okkar að elska sinn.“

Orð hafa áhrif

„Ég hugsa að það hefði klárlega verið hægt að koma í veg fyrir stríðni og þá óheilbrigðan hugsunarhátt sem ég fékk á unglingsárum um líkama minn. Foreldrar og fullorðið fólk yfir höfuð, hefðu mátt vera meira vakandi yfir því hvernig þau töluðu um líkama sinn og annarra í návist barna. Við nefnilega gerum okkur kannski ekki grein fyrir því að orð okkar hafa áhrif og smita út í samfélagið í gegnum börnin okkar. Einnig tel ég að ef fræðsla um líkamsímynd, sjálfsvirðing og framkoma við hvort annað í leikskólum og skólum hefðu mögulega getað hjálpað til.“

Það hefur verið mikil vitundarvakning um fjölbreytileika fólks síðustu ár. Er það þín upplifun sem foreldri að það sé að skila sér?

„Að mörgu leyti já, en það er þó alltaf hægt að gera betur. Alltof mörg börn verða fyrir einelti eða einhverri stríðni í grunnskóla fyrir holdafar sitt, útlit, þjóðerni, kyn eða fyrir það að vera „öðruvísi“ á einhvern hátt. Það væri því sniðugt ef skólar og leikskólar tækju þátt í fræðslu fyrir börn á öllum aldri hvað varðar þessa þætti.

Börn átta sig ekkert alltaf á að þau séu að særa með því að gera athugasemd um holdafar eða útliti annars barns, sérstaklega ekki þau yngstu. Þess vegna þarf að finna góða leið til að hjálpa börnunum að spegla sig í þessum börnum. Mér þætti eðlilegt og eiginlega bara mikilvægt að fræðsla um líkamsímynd og bara fjölbreytileikann vera mikilvæg á öllum stigum grunnskólans og jafnvel í leikskóla.”

„Æfum okkur að tala fallega um okkur sjálf“

Hvað geta foreldrar og forráðamenn gert í dag til þess að leiðindi eins og þessi endurtaki sig ekki?

„Fyrst og fremst að horfa inn á við, spyrja sig: „Hef ég meðvitað eða ómeðvitað sagt eitthvað slæmt um líkama minn eða annarra í návist barna minna eða annarra barna?“ 

Pössum okkur hvernig við tölum. Æfum okkur að tala fallega um okkur sjálf. Hættum að tala um að vilja grennast eða ætla fara í megrun. Í staðinn fyrir að hrósa holdafari er hægt að hrósa fyrir dugnað á heilbrigðum lífstíl með orðum eins og: „Mikið eru dugleg/ur að hreyfa þig, liður þér ekki vel í líkama og sál eftir það?“

Það þarf að aftengja samhengið við það að borða hollt og hreyfa sig sé til þess eins að grennast. Það væri heilbrigðara að tala um hreyfingu og hollt mataræði í samhengi við það að líða vel. En það þarf líka að kenna börnum sem eru farin að borða sætindi að það sé í lagi, í hófi. Það þurfi þó að hugsa vel um tennurnar líka og ef við borðum sætindi þá sé mikilvægt að tannbursta tennurnar mjög vel. Að við viljum hugsa vel um líkama okkar, tennurnar okkar og sálina, því þannig líður okkur vel.

Það þarf bara að tengja heilbrigt líferni við það að líða vel á líkama og sál. Í stað þess að segja: „Ég ætla í ræktina vegna þess að mig langar að grennast.“ Segið þá frekar: „Ég ætla í ræktina til að vera sterk og líða vel.“ Börn þurfa ekki að alast upp við þessar öfgar sem eru svo algengir, það er ekki heilbrigt.

Einnig þykir mér fræðsla til barnanna um allskonar líkama mikilvæg. Minna þau á að það sé ekki í boði að gera grín af öðrum, þótt okkur þykir eitthvað skrítið. Það sé þá frekar hægt að koma heim og spyrja foreldra sína af hverju einhver sé með svona nafla eða annað. Kenna þeim að við eigum að elska líkama okkar eins og hann er. Að allir líkamar séu fallegir á sinn hátt, óháð útliti. Við eigum að hætta að tengja heilbrigt líferni við það að grennast, það hefur slæm áhrif á börnin okkar og sjálfsmynd þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert