Faraldurinn frábær fyrir Harry og Meghan

Meghan og Harry hafa nýtt tímann í kórónuveirufaraldrinum með syni …
Meghan og Harry hafa nýtt tímann í kórónuveirufaraldrinum með syni sínum Archie. AFP

Hertogahjónin Harry og Meghan hafa verið mikið heima í kórónuveirufaraldrinum. Hjónin hafa fengið góðan tíma með syni sínum og hafa fylgst með honum þroskast. Archie varð eins árs í vor og því margt sem hann hefur gert í fyrsta skipti í heimsfaraldrinum.

Hjónin ræddu við baráttukonuna Malölu Yousafazi á netinu í tilefni af alþjóðlegum degi stúlkna. Malala spurði hjónin hvað þau væru búin að gera í heimsfaraldrinum. Harry sagði þau væru búin að vera á Zoom en Meghan sagði að fyrir utan netheima væru þau með litla stráknum sínum. 

„Við vorum bæði viðstödd þegar hann tók fyrstu skrefin sín, hljóp í fyrsta sinn, datt í fyrsta sinn, gerði allt í fyrsta sinn,“ sagði Harry. 

„Það er bara frábært af því að vissu leyti erum við heppin að fá þennan tíma og horfa á hann þroskast. Ef COVID væri ekki værum við að ferðast og vinna meira utan heimilisins og hefðum misst af þessum stundum,“ sagði Meghan. 

mbl.is