Var stressuð að eignast fyrsta barn ársins

Unnur Eir Björnsdóttir hélt bæði upp á jól og áramót …
Unnur Eir Björnsdóttir hélt bæði upp á jól og áramót heima hjá sér á meðan hún beið eftir þriðja barni sínu. Ljósmynd/Aðsend

Unn­ur Eir Björns­dótt­ir gull­smíðameist­ari í Meba á þrjú börn með eiginmanni sínum Kristni Pálmasyni. Fyrir tveimur árum beið Unnur Eir alla jólahátíðina eftir yngsta barni sínu en settur dagur var 24. desember. Stúlkan kom ekki í heiminn fyrr en 2. janúar. 

„Ég var nú ekki búin að reikna með að vera með óléttukúluna meðan við græjuðum jólamatinn. Við buðum foreldrum mínum í mat og var það yndislegt. Það var líka góð tilfinning að ef við þyrftum að hlaupa frá í miðjum matnum yrðu pakkarnir opnaðir á réttum tíma fyrir eldri börnin,“ segir Unnur Eir en svo fór að foreldrarnir þurftu ekki að hlaupa frá börnum sínum á aðfangadagskvöld. 

Árið 2018 var senn á enda og ekkert bólaði á barninu. 

„Áramótin voru með sama sniði og vanalega, kannski aðeins rólegri stemning en hún var góð. Foreldrar mínir komu aftur til okkar í mat, tilbúin ef eitthvað skyldi gerast. Samt ekkert að gerast og ég hin hressasta. Má kannski segja að ég hafi verið pínu stressuð ef svo færi að ég myndi eignast fyrsta barn ársins. Veit ekki af hverju en ég var ekki alveg tilbúin í það.“

Stúlkan leyfði nýársdegi að líða áður en hún bankaði á dyrnar. 

„Þetta var í raun algjör draumafæðing, vissi það ekki fyrr en ég vaknaði morguninn 2. janúar. Þá var ég alveg handviss um að nú væri þetta að gerast! Engir platverkir sem færu svo innan skamms. Hún var svo fædd um klukkan 16. Það er mikill munur að fara í fæðingu útsofinn en um miðja nótt,“ segir Unnur Eir. Þetta var þriðja fæðing hennar og segir hún fæðinguna alveg jafn vonda og þegar eldri börnin komu í heiminn. „Ég átti þessa í baði og var það mögnuð upplifun, það er svona það sem var öðruvísi. Er heppin að hafa verið heilsuhraust allar mínar meðgöngur.“

Börnin þrjú á jólunum árið 2019.
Börnin þrjú á jólunum árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Lengd meðgöngunnar kom Unni Eir á óvart. Hún segist ekki hafa „reynt að halda í sér“ fram yfir áramót.

„Nei, alls ekki, og var ég mest hissa sjálf að daman léti bíða eftir sér, mín lengsta meðganga. Kvaddi samstarfsfólk mitt allan desember: „Sjáumst kannski á morgun, er með einhverja verki. Hef alveg trú á því að hún komi í nótt.“ Það var mjög skrítið að standa vaktina á Þorláksmessu.“

Hafa hefðir um hátíðirnar eitthvað breyst eftir að það bættist einn afmælisdagur við rétt eftir áramót? 

„Nei, ekkert hefur breyst. Pakkar eru ekki sameinaðir og ekki pakkað inn í jólapappír, kannski eitt að maður er óvenju snemma í því að kaupa afmælisgjöfina. Hingað til hef ég keypt hana fyrir jól þegar úrvalið er betra en milli jóla og nýárs. Ég reyni nú að halda afmælin alltaf á daginn sjálfan þar sem þau eiga sinn dag, en sjálf er ég fædd á hlaupársdag.“

mbl.is