Fann styrk í reynslusögum annarra kvenna

Júlí Ósk Antonsdóttir hefur misst fóstur þrisvar sinnum.
Júlí Ósk Antonsdóttir hefur misst fóstur þrisvar sinnum. Ljósmynd/Aðsend

Lögmaðurinn Júlí Ósk Antonsdóttir, hjúkrunarfræðingurinn Sigríður Halldórsdóttir og hjúkrunarfræðingurinn og ljósmóðirin Sigfríður Inga Karlsdóttir sendu frá sér bók um fósturmissi á síðasta ári. Bókin fjallar um allt það sem viðkemur fósturmissi og einnig reynslusögur kvenna af fósturmissi. 

Júlí fór af stað með verkefnið eftir að hún hafði misst fóstur þrisvar sinnum þar sem hún fann fyrir miklum skorti á fræðslu. Hún fann líka hversu mikið reynslusögur annarra hjálpuðu henni mikið. 

„Ég ákvað því að safna saman öllum þessum upplýsingum og skrifa bók sem innihéldi fræðslu og reynslusögur um fósturmissi. Ég endurskoðaði að svo og hugsaði að betra væri að fá sérfræðing á þessu sviði með mér í lið og þar voru hæg heimatökin, þar sem ég kenni við Háskólann á Akureyri og þar eru fjölmargir sérfræðingar og leitaði ég þá til þeirra Sigríðar og Sigfríðar Ingu sem tóku mjög vel í að vinna að þessu með mér,“ segir Júlí. 

Í bókinni er fræðsla um fósturmissi, allt frá því hvað veldur fósturmissi, mismunandi tegundum fósturmissis og hvernig ferlið gengur fyrir sig. Hún fjallar þó ekki bara um það líffræðilega heldur einnig það andlega. Bókin er í raun góð handbók fyrir þá sem ganga í gegnum fósturmissi, en einnig alla í kring, s.s. fjölskyldur, vini og heilbrigðisstarfsfólk eða aðra sem koma að umönnun eða samskiptum við þá sem ganga í gegnum missi.

Þegar Júlí upplifði sína missa fann hún að það vantaði einmitt upplýsingar um tilfinningalega ferlið. „Það voru þó meiri upplýsingar um líkamlega ferlið en það tilfinningalega og fannst mér mikið af því heilbrigðisstarfsfólki sem ég var í samskiptum við gera mjög lítið úr þeim missi sem ég var að ganga í gegnum og það fannst mér erfitt. Það bjargaði mér alveg að komast í samband við aðrar konur í sömu sporum og við miðluðum mikið af upplýsingum okkar á milli og það var ómetanlegt að hafa þennan hóp með sér,“ segir Júlí.

Reynslusögurnar eru í eðli sínu mjög persónulegar og segir Júlí að það hafi verið erfiðara en hana grunaði að fá fólk til að deila reynslu sinni. Þær óskuðu eftir reynslusögum frá öllum, en fengu bara sögur frá mæðrum en ekki feðrum. 

Það voru þó mun fleiri sem ætluðu að senda okkur sögur en hættu við því það var þeim of erfitt að rifja upp þessa erfiðu reynslu til að koma henni niður á blað,“ segir Júlí.

„Einn faðir ætlaði að senda sögu, en varð frá að hverfa því það varð honum of erfitt, en við fengum svo eina sögu frá föður. Við vorum svo mjög heppnar með sögur, en þær eru mjög fjölbreyttar, en þær eru næstum eins og eftir pöntun. Því við vorum búnar að tala um að við þyrftum að fá sögur um hótandi fósturlát, snemmbúið fósturlát, síðbúið fósturlát og dulið fósturlát og sögu um utanlegsfóstur og fleira og fleira.“

Það er því að finna mjög fjölbreyttar sögur í bókinni. Þær Júlí, Sigríður og Sigfríður Inga segja alla sína sögu í bókinni. Júlí segir það mjög mikilvægt að fólk geti nálgast upplýsingar um fósturmissi þar sem upplifunin er mjög einmana og missirinn sár.

„Það er í raun ótrúlegt að þetta sé jafn mikið launungarmál og raun ber vitni, því það er áætlað að ein af hverjum þremur konum missi fóstur á frjósemisskeiði sínu og að ein af hverjum fimm þungunum endi með fósturmissi. Það er því ljóst að þetta snertir ansi stóran hluta þjóðarinnar,“ segir Júlí.

Við gerð bókarinnar heyrði Júlí sögur margra kvenna og heyrði af mörgum konum sem höfðu upplifað fósturmissi. „Ein sem missti fyrir áratugum síðan sagðist hafa tekið sorgina og pakkað henni vel niður og lokað á hana, en sorgin kraumaði alltaf undir yfirborðinu og hún gat ekki rætt missinn án þess að gráta og talaði um hvað það munaði á okkur því ég var svo dugleg að tala um minn missi og hefði greinilega náð vel að vinna úr reynslunni á meðan hún átti enn erfitt með að ræða sinni missi,“ segir Júlí. 

Hún segir að útgáfa bókarinnar hafi sýnt þeim að það sé mikil þörf fyrir því að opna umræðuna um þessi mál og bæta aðgengi að upplýsingum um fósturmissi. Þær eru hvergi nærri hættar og stefna á málþing um fósturmissi þegar fjöldatakmarkanir heimila slíkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert