„Hörður var heppinn að hafa náð að vera viðstaddur“

Móeiður Lárusdóttir er búsett í Grikklandi ásamt fjölskyldu sinni.
Móeiður Lárusdóttir er búsett í Grikklandi ásamt fjölskyldu sinni. Samsett mynd

Móeiður Lárusdóttir kynntist kærasta sínum, knattspyrnumanninum Herði Björgvini Magnússyni, sumarið 2012 í gegnum vinkonu sína á skemmtistaðnum b5 sem var til húsa í Bankastræti. Síðan þá hafa þau búið víðsvegar um heiminn og eiga í dag saman tvær dætur, Matteu Móu sem er fjögurra ára og Mörlu Ósk sem verður tveggja ára í júní. 

Þegar Móeiður og Hörður kynntust var Hörður búsettur á Ítalíu þar sem hann spilaði með knattspyrnuliðinu Juventus. „Ég ákvað, 21 árs, að flytja út til hans eftir að við höfðum þekkst í hálft ár. Við bjuggum saman á Ítalíu í tvö ár og þaðan fluttum við til Bristol í Englandi þar sem við bjuggum í tvö ár. Frá Bristol fluttum við svo til Moskvu í Rússlandi þar sem við vorum búsett í fjögur ár,“ segir Móeiður, en í dag er fjölskyldan búsett í Grikklandi og hefur verið þar í tvö ár. 

Móeiður er 31 árs gömul og er frá Skaganum.
Móeiður er 31 árs gömul og er frá Skaganum.

Aðspurð segir Móeiður alla staðina sem þau hafa búið á hafa sína kosti og galla. „Mér hefur fundist allir þessir staðir æðislegir á sinn hátt og hefur gengið vel að aðlagast á hverjum stað. Ég held að hugarfarið okkar hjálpi til, en við höfum alltaf verið opin fyrir því að prófa nýja staði, en það er auðvitað flóknara eftir að maður eignast börn varðandi leikskólamál og slíkt,“ segir hún. 

Móeiður og Hörður hafa búið víða frá því þau kynntust.
Móeiður og Hörður hafa búið víða frá því þau kynntust.

„Þetta er fullkominn staður til þess að ala upp börn“

Fjölskyldan kann afar vel við sig í Grikklandi en Hörður spilar með knattspyrnuliðinu Panathinaikos í Aþenu. „Við búum í miðbæ Glyfada, sem er í 25 til 30 mínútna akstursfjarlægð frá Aþenu, við ströndina – betra gerist það ekki,“ segir Móeiður.

Hörður spilar með knattspyrnuliðinu Panathinaikos í Aþenu.
Hörður spilar með knattspyrnuliðinu Panathinaikos í Aþenu.

 „Við elskum að búa hér, allt við þennan stað er frábært. Við erum mjög þakklát að fá að búa á þessum fallega stað – Grikkland er klárlega uppáhaldsstaðurinn minn hingað til,“ bætir hún við.

Móeiði segir Glyfada vera frábæran stað fyrir alla fjölskylduna. „Stelpurnar eru í æðislegum leikskóla hérna og þetta er fullkominn staður til þess að ala upp börn. Það eru leikvellir útum allt og gott veður stærstan hluta ársins fyrir útivist með börnunum,“ segir hún. 

Fjölskyldan býr við ströndina í bænum Glyfada.
Fjölskyldan býr við ströndina í bænum Glyfada.

„Seinni fæðingin var enn sneggri“

Aðspurð segir Móeiður að því hafi fylgt mikil gleði þegar hún komast að því að hún væri ófrísk að eldri stelpunni sinni. „Okkur hafði langað til að eignast barn í smá tíma áður en ég varð ólétt, þannig við vorum mjög spennt. Það sama á við um seinna skiptið, en okkur langaði að hafa stutt á milli barnanna,“ útskýrir hún. 

Hörður ásamt dætrum sínum tveimur.
Hörður ásamt dætrum sínum tveimur.

Móeiður segir meðgöngurnar hafa verið mjög svipaðar, en hún upplifði mikla ógleði á fyrstu vikunum en leið annars vel. „Ég náði náttúrulega ekki alveg jafn mikilli hvíld á seinni meðgöngunni þar sem ég var að hlaupa á eftir einni eins og hálfs árs,“ segir hún. 

Móeiður segir báðar meðgöngurnar hafa verið svipaðar.
Móeiður segir báðar meðgöngurnar hafa verið svipaðar.

Fæðingarnar voru einnig svipaðar og gengu mjög hratt fyrir sig að sögn Móeiðar. „Ég missti vatnið með eldri stelpuna mína þegar ég var gengin 34. vikur á leið og átti hana mjög fljótt eftir það. Hörður var heppinn að hafa náð að vera viðstaddur,“ segir Móeiður.

„Seinni fæðingin var enn sneggri, sem ég hélt að væri ekki hægt, en ég mætti upp á spítala og dreif ekki upp í sjúkrarúmið og átti hana því standandi á gólfinu,“ bætir hún við. 

Fæðingarnar gengu báðar hratt fyrir sig að sögn Móeiðar.
Fæðingarnar gengu báðar hratt fyrir sig að sögn Móeiðar.

„Að vera mamma er það besta“

Móeiður segir lífið hafa breyst á margan hátt eftir að hún varð móðir og nefnir meðal annars það að þurfa að taka ábyrgð á öðrum en sjálfum sér. „Að vera mamma er það besta og ég er þakklát fyrir þetta hlutverk. Fyrir mig persónulega, til þess að verða besta mamman fyrir stelpurnar mínar, þá hugsa ég vel um sjálfa mig og tek frá tíma fyrir mig, hitta vini, hreyfingu og þess háttar,“ segir hún.

„Það sem kom mér kannski mest á óvart varðandi móðurhlutverkið er hversu yndislegt og krefjandi það er á sama tíma,“ bætir hún við. 

Móeiður er afar þakklát fyrir móðurhlutverkið.
Móeiður er afar þakklát fyrir móðurhlutverkið.

Ertu með einhver góð ráð þegar kemur að því að ferðast með börn?

„Nei í rauninni ekki, ég hef alltaf búist við því versta bara. Annars er það þetta klassíska – iPad og nóg af snakki. Ég prófaði reyndar um daginn að kaupa límmiða sem má líma á gler og það sló alveg í gegn.“

Móeiður ásamt dætrum sínum tveimur.
Móeiður ásamt dætrum sínum tveimur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert