Veðbankar komnir á fullt

Meghan hertogaynja og Harry Bretaprins eiga von á sínu öðru …
Meghan hertogaynja og Harry Bretaprins eiga von á sínu öðru barni. AFP

Veðbankar eru strax komnir á fullt rúmum sólarhring eftir að Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja greindu frá því að þau ættu von á öðru barni. Margir telja að Harry muni vilja heiðra móður sína með því að nefna barnið Díönu eftir henni, ef það verður stúlka. 

Þá eru líka góðar líkur á nafninu Spencer, ef barnið verður drengur, en eftirnafn Díönu var Spencer. 

„Áhugafólk um konungsfjölskylduna virðist vera algjörlega visst um að annað barn Harrys og Meghan muni heita eftir móður hans, sama hvort það verður stúlka eða drengur, þar sem Díana og Spencer eru vinsælustu nöfnin í veðbönkum um þessar mundir,“ sagði Alex Apati hjá Ladbrokes. 

Á eftir Díönu og Spencer hefur fólk veðjað á nöfnin Aldie og Alexandra sem og Arthur, Thomas og Isabella. Þá virðast einhverjir telja að þau vilji nefna eftir móður Meghan, en nafnið Doria er líka ofarlega á listum. Einnig Emily, Sebastian, Marina og Willow. 

People

mbl.is