Sársaukinn við að missa var gríðarlegur

Margrét Vignisdóttir með soninn Birni Inga.
Margrét Vignisdóttir með soninn Birni Inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margrét Vignisdóttir og Gústaf Þór Másson eignuðust frumburðinn Birni Inga í lok nóvember. Margrét missti fóstur tvisvar sinnum á stuttum tíma og þegar hún varð ólétt í þriðja skiptið bjóst hún ekki við öðru en að missa fóstur aftur. Hún segir tilfinninguna ólýsanlega að fá barnið í fangið eftir erfitt ferli. 

„Leiðin að móðurhlutverkinu gekk brösuglega fyrir sig í byrjun. Við ákváðum að hætta nota verjur í mars 2019. Stuttu seinna eða í júní varð ég síðan ólétt í fyrsta skiptið. Það var mikil gleði og við hugsuðum strax að þetta hefði nú ekki tekið langan tíma. Í byrjun ágúst missti ég því miður fóstrið komin átta vikur á leið. Það var mjög erfitt en ég hugsaði að ég væri tilbúin að reyna að verða ólétt strax aftur. Leiðin að draumnum hélt því áfram og ég varð aftur ólétt í október. Það gekk heldur ekki upp og á 12. viku byrjaði að blæða og þá kom í ljós að fóstrið væri látið. Þarna brotnaði ég algjörlega niður og missti vonina,“ segir Margrét um leiðina að móðurhlutverkinu. 

Byrjaði að blæða á Þorláksmessu

Margrét segir að hún hafi ekki verið meðvituð um hversu algeng fósturlát eru og það kom henni mikið á óvart þegar það byrjaði að blæða hjá henni á fyrstu meðgöngunni. Hún var stödd á Spáni með fjölskyldu sinni þegar fyrsta fósturlátið átti sér stað. 

„Ég, mamma og systur mínar vorum staddar í verslunarmiðstöðinni þegar mér byrjaði að líða mjög illa og það byrjaði að blæða. Ég bað kærastann minn að koma að sækja mig og um leið og ég settist upp í bílinn hjá honum sagði ég við hann að það væri eitthvað mikið að og ég brotnaði niður. Við keyrðum á tvo mismunandi spítala og að lokum hitti ég tvo yndislega kvensjúkdómalækna. Kærastinn minn fékk ekki að koma með mér inn en þær skoðuðu mig og tilkynntu mér að það væru miklar líkur á því að ég væri að missa fóstur en ætti að fara upp á spítala á Íslandi þegar ég kæmi heim,“ segir Margrét um fyrsta fósturlátið. Þegar til Íslands var komið tók hún pillur sem losuðu legið. Hún segir fósturlátið hafa verið áfall en hún var þó enn mjög jákvæð og handviss um að þetta myndi ganga upp næst. 

Allt gekk upp þegar Margrét varð ólétt í þriðja sinn.
Allt gekk upp þegar Margrét varð ólétt í þriðja sinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveimur mánuðum eftir fyrsta fósturlátið varð Margrét aftur ólétt og enn aftur mjög ánægð þó svo að smá hræðsla gerði vart við sig. 

„Það var svo á Þorláksmessu 2019, þá komin 12 vikur, sem það byrjaði að blæða hjá mér. Ég hringdi í kærastann minn og hann kom heim. Ég ákvað svo að hringja í heilsugæsluna og fá samband við ljósmóður. Hún tilkynnti mér að það geti verið eðlilegt að það blæddi smá svona í byrjun. Ég heyrði svo í mömmu minni og hún vildi að ég færi tafarlaust niður á spítala. Ég var svo lítil í mér og þorði ekki að hringja sjálf af því ég hafði ekki fengið nægilega góðar móttökur þegar ég kom í fyrra skiptið. Mamma hringdi því fyrir mig og ég fékk að koma niður eftir til þeirra. Skrítið að vera 26 ára gömul og mamma hringir fyrir mann en ég var bara svo lítil í mér að ég gat ekki hringt. Þar var staðfest að það væri enginn hjartsláttur og fóstrið því látið.

Læknirinn sem skoðaði mig sagði að ég gæti annaðhvort fengið töflurnar og blætt út hjá þeim eða farið í aðgerð. Ég sagði strax að ég vildi fara í aðgerð þar sem þetta var orðið mun stærra fóstur og ég treysti mér ekki í fleiri töflur. Hún tilkynnti mér að það væru engar aðgerðir gerðar yfir jólin nema þær sem væru alveg nauðsynlegar. Svo ég var send heim og sagt að taka verkjalyf og fékk tíma í aðgerð 27. desember. Aðfangadagur var því mjög skrítinn og man ég að ég lá í sófanum, búin að klæða mig í kjól og var að reyna að taka þátt í jólunum. Það var þó mjög erfitt og grét ég hálfpartinn allan aðfangadag í sófanum. Mjög svo skrítin upplifun að vera með látið fóstur inni í sér og vera bara að bíða eftir tíma í aðgerð,“ segir Margrét. 

Á jóladag voru verkirnir orðnir svo slæmir að verkjalyf virkuðu ekki lengur. Margrét endaði á að fara niður á spítala. Þar kom í ljós að fóstrið var komið svo neðarlega í leghálsinn að það eina í stöðunni væri að taka töflur og flýta fyrir ferlinu. 

„Ég var því lögð inn hjá þeim og gisti þar eina nótt. Verkirnir sem fylgdu voru mjög slæmir og voru konurnar á deildinni alveg yndislegar og gáfu mér nóg af verkjalyfjum og sögðu að ég ætti ekki að þjást í þessu ferli. Við fórum heim annan í jólum og pantaði ég mér strax tíma hjá kvensjúkdómalækninum mínum. Hún vildi að ég kæmi til sín strax þarna 30. desember til þess að skoða hvort allt hefði skilað sér. Þar kom í ljós að svo var ekki, þannig að ég þurfti aftur að fá töflur sem búa til samdrætti til þess að losa restina og fór gamlársdagur í það.

Þetta ferli tók mikið á andlega og var ég pirruð út í allt og alla. Ég fór að reyna að finna allar ástæður fyrir því að þetta hefði gerst í tvígang og kenna mér um. Í framhaldinu fór ég að gúgla allan fjandann og komst að því að það væru meiri líkur á að þetta kæmi fyrir mig aftur en venjulega manneskju. Ég tilkynnti kærastanum mínum að ég héldi að það væri best að við yrðum bara alltaf tvö af því ég gæti ekki hugsað mér að ganga í gegnum þetta aftur.“ 

Margrét fann ekki bara slæmar sögur á vafri sínu á netinu. Hún komst meðal annars að því að hjartamagnýl hefði hjálpað konum sem höfðu misst fóstur endurtekið. Án þess að ráðfæra sig við lækna ákvað hún að prófa að taka hjartamagnýl næst, það sakaði ekki að prófa. 

Birnir Ingi er algjör draumabarn.
Birnir Ingi er algjör draumabarn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjó sig undir að missa fóstur í þriðja sinn

Fljótlega eftir að Margrét missti fóstur í annað sinn varð hún ólétt í þriðja sinn. Í þetta skipti vottaði fyrir meiri kvíða og minni spennu en í hin skiptin. 

„Eftir þessa tvo fósturmissa ákváðum við að halda áfram að vera verjulaus en ég fann að ég var mjög stressuð fyrir því að ég yrði aftur ólétt. Í febrúar 2020 verð ég svo aftur ólétt og þegar ég pissaði á prikið varð ég ekkert spennt, hin bæði skiptin varð ég svo glöð en þarna hugsaði ég samstundis að þetta myndi enda eins og hin tvö skiptin og fór ég að undirbúa mig andlega undir sama ferli. Það sem hvatti mig áfram var að ef þetta myndi gerast í þriðja skiptið þá yrði þetta rannsakað. Við sögðum nánustu fjölskyldu frá mjög snemma eða bara þegar ég var komin fimm vikur en það var aðallega gert svo ég gæti þá fengið stuðning ef þetta myndi gerast aftur. Ég sagði líka við alla að ég væri nú bara að búa mig undir að ganga í gegnum fósturmissi aftur.

Ég var alveg heltekin af því hvað ég hefði verið að gera rétt áður og á sama tíma og ég missti hin fóstrin og var eitt af því að í bæði skiptin hefði ég verið í flugvél. Þannig að ég gat bara ekki hugsað mér að fara í flugvél. Sem betur fer kom Covid og gat ég því ekki ferðast neitt. En ég fann að ég hefði ekki getað stigið upp í flugvél þótt lífið lægi við. Ég er einnig svolítið hjátrúarfull og átti svona óskastein sem systir mín hafði gefið mér og nuddaði steininn á hverju kvöldi. Ég gat ekki sofnað nema ég væri búin að því.

Í hvert skipti sem ég fór á klósettið og skeindi mig var ég með í maganum yfir því að það væri blóð í pappírnum. Þannig að já, það mætti segja að ég hefði algjörlega fengið þetta á heilann. Ég gerði líka playlista í símanum mínum og þegar ég fann að ég var að stressast upp og hugsa um að þetta gæti gerst aftur spilaði ég hann og andaði djúpt inn og út þar sem ég hafði heyrt að stress gæti haft mikil áhrif.

Ég var með tvo yndislega kvensjúkdómalækna sem buðu mér að koma vikulega í skoðun. Mér fannst það hjálpa mér gríðarlega mikið og hélt því áfram alveg fram á 12. viku. En þá sögðu þær að núna ætti ég bara að fara að anda léttar og reyna að njóta. Læknirinn sagði mér að hætta að taka hjartamagnýltöflurnar á þessum tímapunkti en ég þorði það alls ekki. Ég hætti ekki að taka þær fyrr en ég var komin 20 vikur, var svo hrædd um að þá myndi allt fara í vaskinn.“

Fannst eins og fólk teldi fósturlát minna mál en ófrjósemi

Foreldrar Margrétar studdu vel við bakið á henni sem og systur hennar þrjár. Kærasti hennar var stoð hennar og stytta og segir Margrét að hún hefði ekki getað komist í gegnum allt þetta án hans. 

„Systur mínar fóru að hafa smá áhyggjur af mér þegar ég tilkynnti þeim að ég gæti ekki sofnað nema nudda steininn góða svo ég pantaði mér einn sálfræðitíma. Ég fór í þann tíma eftir annan fósturmissinn. Mér fannst þessi eini tími vera bara nóg og kenndi hún mér nokkrar aðferðir til þess að útiloka slæmar hugsanir. En ég hélt þó áfram að nudda steininn, ætlaði ekki að fara að hætta því neitt. Ég á einnig stóran vinkonuhóp og yndislega tengdafjölskyldu sem studdu við bakið á okkur. Þegar ég varð svo ólétt í þriðja skiptið fannst mér stuðningurinn frá kvensjúkdómalæknunum vera bestur; fá að koma einu sinni í viku til þeirra til að sjá að allt væri í lagi. Þær gátu róað mig mikið og veitt mér stuðning.“

Fékkst þú einhverja skýringu eða var þetta bara óheppni?

„Nei, því miður. Mér var alltaf sagt að þetta væri mjög algengt og það væri ekki byrjað að rannsaka hver ástæðan gæti verið fyrr en þetta hefði gerst þrisvar í röð. Þannig að ég hugsaði í upphafi meðgöngunnar að ef þetta gerðist aftur gæti ég mögulega fengið svör og það yrðu gerðar rannsóknir. Ég fann þó svolítið fyrir því að þar sem ég varð ólétt frekar auðveldlega og það leið stutt á milli í öll skiptin var eins og þetta væri ekki jafn mikið mál og til dæmis ófrjósemi og heyrði ég oft: „Þú getur allavega orðið ólétt, það eru ekki allir eins heppnir með það.“ Ég áttaði mig alveg á því að ég væri heppin að geta auðveldlega orðið ólétt en sársaukinn við það að missa var líka gríðarlegur og upplifði ég mikla sorg. Ég er alls ekki að gera lítið úr ófrjósemi og get ekki ímyndað mér hversu erfitt það er, en sem betur fer er tæknin orðin góð til þess að hjálpa pörum.“

Tilfinningin var ólýsanleg að fá Birni Inga í fangið.
Tilfinningin var ólýsanleg að fá Birni Inga í fangið. Eggert Jóhannesson


Var einhver tímapunktur á síðustu meðgöngu þar sem þú gast farið að anda léttar?

„Já ég myndi segja að ég hefði getað farið að anda léttar og ég reyndi að byrja að njóta þess að vera ólétt þegar ég var komin svona 20 vikur á leið. Meðgangan gekk vel og ég naut þess að vera með kúlu og bíða eftir litla kraftaverkinu okkar.“

Sonurinn er algjör draumur

Hvernig var svo tilfinningin að eignast barnið langþráða?

„Tilfinningin er ólýsanleg. Loksins fékk ég og auðvitað makinn minn drauminn uppfylltan. Við vorum svo hamingjusöm og okkur langar í þúsund börn í viðbót. Hjartað stækkar margfalt og maður trúir því ekki að það sé einhver manneskja sem þú getur elskað svona mikið.“

Hvernig hafa fyrstu vikurnar í móðurhlutverkinu verið?

„Þær hafa verið dásamlegar. Birnir er algjör draumur og ekkert vesen á honum. Ég hefði nú samt viljað að einhver hefði varað mig við því hversu erfið brjóstagjöfin getur verið. Bjóst alls ekki við því og sá fyrir mér að þetta yrði bara yndislegt strax frá upphafi. Brjóstagjöfin hefur gengið svolítið brösuglega hjá okkur, hef verið að fá stíflur og sýkingu en við erum að komast á gott ról núna. Núna ætla ég að vara allar óléttar vinkonur mínar við því að búa sig undir það að brjóstagjöfin er ekki bara dans á rósum. Við fórum einmitt á brjóstagjafarnámskeið til þess að undirbúa okkur en þar var aldrei talað um hvað maður ætti að gera ef maður fengi stíflu og sýkingu sem mér finnst mjög nauðsynleg umræða. Þar var einungis talað um hversu dásamlegt þetta væri en aldrei talað um nein vandamál sem gætu komið upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert