Átti erfitt með gang í sex vikur

Rio og Kate Ferdinand þegar Kate Ferdinand var ólétt.
Rio og Kate Ferdinand þegar Kate Ferdinand var ólétt. Skjáskot/Instagram

Knattspyrnustjarnan Rio Ferdinand og eiginkona hans, raunveruleikaþáttastjarnan Kate Ferdinand, eignuðust sitt fyrsta barn saman í desember. Frú Ferdinand fór í keisaraskurð sem tók hana langan tíma að jafna sig á. 

Kate Ferdinand, áður þekkt sem Kate Wright, var vön að birta æfingamyndbönd af sér á Instagram en þurfti að hætta því og fara mjög varlega eftir að sonurinn Cree kom í heiminn.

„Ég fór í bráðakeisara, sem er risastór magaskurðaðgerð, svo þú verður að fara mjög rólega af stað og hlusta á hvað læknirinn segir,“ sagði nýbakaða móðirin í viðtali við Mirror. „Ég held að ég hafi ekki getað æft í sex vikur, ég held að ég hafi eiginlega ekki gengið í sex vikur og þá þurfti ég að byggja mig smám saman upp,“ sagði hún. 

„Ég átti mjög erfitt. Ég held að ég hafi orðið fyrir miklu áfalli því ég bjóst ekki við keisaraskurði og ég átti erfitt með þá staðreynd að ég gat ekki gert ýmislegt með Cree og stóru krökkunum og það voru jól,“ sagði frú Ferdinand sem komst ekki út úr svefnherberginu. Útgöngubann hafði heldur ekki góð áhrif þar sem fólk komst ekki í heimsókn til hennar. 

Frú Ferdinand segist hlusta vel á líkama sinn þegar hún hreyfir sig og viðurkennir að hafa verið algjört vélmenni áður en hún eignaðist barn. „Ég geri eins mikið og ég get en ef mér líður ekki vel í skurðinum tek ég það rólega.“

Rio Fer­d­inand átti þrjú börn áður en hann kynntist núverandi eiginkonu sinni. Eiginkona hans og barnsmóðir, Rebecca Ellison, lést árið 2015 eftir erfiða krabbameinsbaráttu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert