Ætlar ekki að halda í nafnahefðina

Michael B. Jordan.
Michael B. Jordan. AFP

Leikarinn Michael B. Jordan ætlar ekki að halda í nafnahefð fjölskyldunnar ef hann verður svo heppinn að eignast son í framtíðinni. Jordan heitir eftir föður sínum, Michael A. Jordan, og ætti þá hefðinni samkvæmt að skíra son sinn Michael C. Jordan. 

„Ég ætla að rjúfa hringinn strax. Það er of mikið. Pressan sem ég upplifði að þurfa að bera nafn föður míns, ég ætla ekki að leggja það á barnið mitt,“ sagði Jordan í viðtali við Ellen DeGeneres. 

Jordan er í sambandi með Lori Harvey en þau opinberuðu samband sitt í janúar á þessu ári. Þau eiga ekki von á barni þótt sambandið sé orðið alvarlegt.

mbl.is