Barn bjargar lemúrum frá einsemd

Einmana lemúr dolfalinn yfir laglegum hljómborðsleik barnsins.
Einmana lemúr dolfalinn yfir laglegum hljómborðsleik barnsins. Ljósmynd/Amy Reed

Í hverri viku fer hin 11 ára gamla Seenlada Supat með hljómborðið sitt í dýragarð rétt fyrir utan Bangkok til að halda tónleika. Líkt og alvörutónlistarmaður undirbýr hún sig vel.

Hún klæðir sig upp í tónleikaföt í anda Of Montreal eða Bjarkar. Glæsilegu tónleikafötin hennar eru nefnilega grænn krókódílabúningur sem verður að teljast afar viðeigandi þar sem einu tónleikagestirnir eru íbúar dýragarðsins, sjálf dýrin.

Skjáskot/Youtube

Seenlödu Supat fannst sorglegt að sjá hversu einmana dýrin eru en heimsóknum í dýragarðinn hefur fækkað um 70% frá því faraldurinn hófst. Til þess að gleðja dýrin ákvað Supat að halda vikulega tónleika þar sem hún sérhæfir sig í „easy listening“ en Supat fær sérstaklega mikla athygli frá lemúrunum.

„Ég spila rólega tóna á hljómborðið mitt svo dýrunum líði vel,“ segir Seenlada Supat sem er hrædd um sálræn áhrif faraldursins og vonast til þess að dýrin fái viðeigandi aðstoð frá stjórnvöldum dýragarðsins.

Samkvæmt heimildum þá eru íbúar dýragarðsins ánægðir með vikulega viðburði Supatar og sérstaklega lemúrarnir sem hópast í kringum hana af forvitni þegar hún byrjar að spila á hljómborðið.


 

mbl.is