Foreldrar fyrirmyndir barna sinna

Gunnar Helgason.
Gunnar Helgason. Ljósmynd/Aðsend

Rithöfundurinn Gunnar Helgason var að gefa út barnabókina Palli Playstation en bókin er framhald af Stellubókunum vinsælu einnig eru hlaðvarpsþættir um Stellubækurnar að koma út í dag. Palli er mikið í tölvunni en Gunnar segir þó bókina ekki vera ádeilu á tölvur. Besta ráð hans til foreldra er að lesa líka enda foreldrar fyrirmyndir barna sinna.

„Það á að fara skíra litlu tvíburana sem fæddust í lok síðustu bókar,“ segir Gunnar um nýju bókina en öllum bókunum lýkur með merkisviðburði. Núna er það skírn tvíburanna. Undirbúningurinn gengur hins vegar ekki auðveldlega fyrir sig. „Þá gerist svolítið hræðilegt í fjölskyldunni fyrir hann Palla og Stella ákveður að reyna bjarga málunum fyrir hann þó hann sé ekki að biðja um það. Á sama tíma er hún í miklum vandræðum sjálf án þess að átta sig á því fyrr en alveg í blálokin. Það sjá það allir í kringum hana,“ segir Gunnar sem þorir ekki að segja meira.

Palli er stóri bróðir söguhetjunnar Stellu, elsta systkinið í hópnum og er mikið í tölvunni. „Eins og flestir fullorðnir geta getið sér til um þá er hann að spila frá sér lífið. Sem er eitthvað sem flestir foreldrar unglingsdrengja þekkja. Þetta getur verið mjög erfið barátta,“ segir Gunnar og bölvar leikjatölvunni. Gunnari fannst skemmtilegt að spila með sonum sínum á sínum tíma og eiga gæða stundir með þeim þegar þeir voru yngri. 

Gunnar Helgason í útgáfuhófi nýjustu bókar sinnar.
Gunnar Helgason í útgáfuhófi nýjustu bókar sinnar. Ljósmynd/Aðsend

Það er ekkert nýtt að Palli spili tölvuleiki. „Í gegnum allar bækurnar er hann að spila mikið. Það byrjar strax í Mömmu Klikk. Hann er mikið inni í herbergi og reynir sem minnst að taka þátt í ruglinu í þessari fjölskyldu og tilfinningasveiflum systur sinnar og mömmu sinnar þegar hún er ólétt. Hann reynir alltaf að sigla lygnan sjó en núna loksins lendir hann í ólgusjó. Það er svolítið út af forgangsröð hans í lífinu,“ segir Gunnar sem segir bókina þó ekki ádeilubók. Margir foreldrar þekkja það hins vegar þegar börnin eru of mikið í tölvunni.

Þekkir þú þetta líka sem foreldri?

„Já, já, það breytir því ekki að ég gef þetta í jólagjafir eins og hálfviti,“ segir Gunnar og viðurkennir að hann hafi enga stjórn á tölvuleikjanotkun barna sinna og lýsir því yfir að hann sé algjörlega vanhæft foreldri þegar kemur að þessum málum. Synir hans eru reyndar orðnir fullorðnir og hann hættur að skipta sér af tölvuleikjanotkun þeirra. 

Hvað geta foreldrar gert til þess að fá börn til þess að lesa meira?

„Þetta er það sem allir vilja vita. Það eru haldnar heilu ráðstefnurnar um þetta. Ég er ekki með neitt svar en á sama tíma held ég að ég sé með eitt svar. Að lesa sjálf og láta þau sjá það. Þau gera bara það sem við gerum. Foreldrar eru ekki kallaðir fyrirmyndir fyrir ekki neitt. Ef þau sjá okkur upp í sófa með bók vilja þau náttúrulega líka gera það. Ef þau sjá okkur bara upp horfa á Netflix og vera á Facebook þá gera þau það líka. Er það ekki?“

Það verður einnig að finna skemmtilegt lesefni fyrir börnin og Gunnar segir nóg af skemmtilegum bókum. Met var sett í útgáfu íslenskra barnabóka í fyrra. Gunnar las útgáfu síðasta árs í vetur og datt ekki niður á leiðinlega bók. Hann les helst bara barnabækur og er Guðrún Helgadóttir í miklu uppáhaldi.

Pally Playstation heitir nýjasta bók Gunnars Helgasonar.
Pally Playstation heitir nýjasta bók Gunnars Helgasonar. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar er tvíburi en hann segir tvíburana sem fæddust í síðustu bók ekkert hafa með hann að gera.

„Þetta var hálfgerð ákvarðanafælni. Ég gat ekki ákveðið hvort þetta ætti að vera strákur eða stelpa. Þeir fæðast í lokin á Sigga sítrónu-bókinni í miðri giftingarathöfn. Það var svo gott að geta haft tvö börn en ekki eitt, það stækkaði þetta vesen og rugl að láta mömmuna fæða akkúrat þegar hún átti að segja já.“

Honum finnst ólíklegt að tvíburarnir fái sína bók. „Ég sagði í lokin á Sigga sítrónu að þetta væri síðasta bókin. Svo kemur þessi og ég byrja hana á að lofa að þetta sé síðasta bókin,“ segir Gunnar. Hann er reyndar komin með hugmynd að einni bók í viðbót en ætlar að sjá til hvort að hann svíkur loforðið aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert