Dagskrá 17. júní víða um landið

Árlega ríkir mikil spenna og leynd yfir því hver verður …
Árlega ríkir mikil spenna og leynd yfir því hver verður fjallkonan á Austurvelli á Þjóðhátíðardaginn 17. júní. mbl.is/Ragnar Th Sigurðsson

Þótt þjóðhátíðardagur Íslendinga verði kannski ekki með hefðbundnu sniði í dag er mikilvægt að hafa í huga að ýmislegt er hægt að gera með fjölskyldunni þrátt fyrir samkomutakmarkanir. 

Borgarbúar í Reykjavík eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og öðru í fánalitum. 

Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin verður með sama sniði og vanalega þar sem forsætisráðherra ávarpar áhorfendur og síðan frumflytur fjallkonan sérsamið ljóð í tilefni dagsins. 

Fyrir þá sem vilja bregða sér út úr húsi inn í miðborgina þá verður boðið upp á létta stemningu á milli klukkan 13.00 og 18.00 í Hljómskólagarði og á Klambratúni. Gestir geta þá gætt sér á veitingum úr matarvögnum og sirkuslistamenn sýna listir sínar. Ýmsar óvæntar uppákomur verða víða um miðborgina. Nánari upplýsingar um dagskrá Reykjavíkurborgar má sjá hér

Þær fjölskyldur sem vilja fara í sund á 17. júní geta gert það, en flestar sundlaugar eru með hefðbundinn helgarþjónustutíma á þjóðhátíðardag. 

Á Ísafirði verða hátíðahöld mun minni í sniðum en vanalega. Það verður hátíðarmessa í Ísafjarðakirkju klukkan 11.00. Ratleikur verður í boði körfuknattleiksdeildar Vestra á milli klukkan 13.00 og 15.00. Hátíðardagskrá á Silfurtorgi verður klukkan 14.00 þar sem lúðrasveit leikur fyrir gesti og fjallkonan ávarpar áhorfendur. Sjá nánar um dagskrána hér

Á Akureyri má búast við gleði og glaum þótt hátíðahöldin verði með öðru sniði en áætlað var. Fjölskylduskemmtuninni á MA-túninu vestan Lystigarðsins verður aflýst en á móti kemur að dagskráin í Lystigarðinum lengist nokkuð með fleiri uppákomum. 

Í fyrra var sú hefð að blómabíll keyri um bæinn endurvakin og hann verður á ferðinni undir hádegi með þjóðhátíðarkveðjum til bæjarbúa. Klukkan 12.45 leggur skrúðganga Lúðrasveitar Akureyrar og Skátafélagsins Klakks af stað frá Hamarskotstúni, suður Byggðaveg að Álfabyggð og þaðan fram hjá Hjúkrunarheimilinu Hlíð niður á Þórunnarstræti og inn í Lystigarðinn. Sjá nánar um dagskrána hér.

Á Egilstöðum verður hátíðar- og fjölskyldumessa í Egilsstaðakirkju klukkan 10.30. Þá verður barnadagskrá í Tjarnargarðinum á milli klukkan 11.00 og 14.00 þar sem hoppkastalar, hjólaþrautir og fleira spennandi verður í boði. Sjá meira um dagskrána hér.

Barnavefur mbl.is vonar að fjölskyldur landsins muni njóta dagsins saman og búa til fallegar upplifanir fyrir börnin.

mbl.is