Vill börn frekar en peninga

Paris Hilton langar að verða móðir.
Paris Hilton langar að verða móðir. AFP

Hótelerfingjann og athafnakonuna Paris Hilton langar til að eignast börn. Ekki eru mörg ár síðan helsta ósk hennar var að verða rík en eftir að hún varð fertug og fann ástina eru börn efst á óskalistanum. 

Í heimildarmyndinni This is Paris sem tekin var upp fyrir tveimur árum sagði Hilton að peningar drifu sig áfram. Í hlaðvarpsþætti vefmiðilsins Variety í vikunni sagði Hilton hins vegar að peningar væru ekki allt. 

„Það var markmið mitt af því ég var ekki ánægð í einkalífinu,“ sagði Hilton í hlaðvarpsþættinum. Hún viðurkenndi að áður fyrr hefði hún séð peninga sem ákveðið frelsi og sjálfstæði, að ekki væri hægt að stjórna henni ef hún ætti peninga. „Ég held að þess vegna hafi ég einbeitt mér að því. Og núna þegar ég er svona ótrúlega ástfangin og hamingjusöm í einkalífinu skipta milljarðar mig ekki máli. Ég hef meiri áhuga á börnum.“

Hilton hefur greint frá því að hún sé byrjuð í tæknifrjóvgunarferli. Hún vill eignast tvíbura fyrst en samtals vill hún eiga þrjú eða fjögur börn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert