Allt hið góða mun verða á vegi mínum

Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með …
Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.

„Það er svo mikið til af góðum málsháttum sem maður notar oft án þess að hugsa mikið út í það. Ég spáði aldrei neitt mikið í þeim en í dag hefur það aldeilis breyst og ég nota þau daglega í minni sjálfsvinnu,“ skrifar Hulda Björk Svansdóttir í sínum nýjasta pistli.

Áður fannst mér þessir málshættir oft hálf klisjukenndir og eitthvað sem maður sagði svona í hálfkæringi. Eftir að við hófum þessa rússíbanareið sem það er að vera foreldri langveiks barns hafa þessi máltæki oft hreinlega komið mér í gegnum daginn. Flestum finnst þetta ef til vill smávægilegt en þetta hefur virkilega hjálpað mér, ótrúlegt en satt.

Eitt af mínum uppáhalds máltækjum er : Allt hið góða mun verða á vegi mínum. Á hverjum morgni þegar ég stíg fram úr rúminu þá er þetta það fyrsta sem ég segi í huganum. Ég gef mér augnablik, teygi úr mér, legg hendur yfir hjartað og hugsa þetta. Ég reyni að ímynda mér yndislegan dag og finna tilfinninguna sem því fylgir. Það er svo gott að byrja daginn á þessu og ég reyni meira að segja að nýta mér þetta yfir daginn ef ég á eitthvað erfitt. Auðvitað tekst þetta ekki alltaf hjá mér því sumir dagar eru bara alveg ómögulegir en það er oftar en ekki sem þetta gefur mér frábæra byrjun inn í daginn.

Svona litlir hlutir skipta í alvörunni máli ef maður tileinkar sér þá og maður á að nýta sér allt sem getur mögulega hjálpað manni að mínu mati. Það að reyna að sjá daginn fyrir sér vera góðan, að allt gangi upp og að manni líði vel er mjög hjálplegt. Ég hef mikið lesið bókina leyndarmálið og mér finnst svo margt gott í henni sem er einmitt á þessum nótum. Þar er mikið talað um hvernig maður getur notað sjónrænar æfingar til að hjálpa sér, sjá fyrir sér t.d. að manni líði vel og reyni að finna þakklætið við þá tilfinningu. Ég hef heyrt ótal sögur hvernig fólk hefur meðal annars náð undraverðum bata með því að nota jákvæðnina og sjónræna þjálfun. Það er jú vitað að við heilinn getur gert stórkostlega hluti og eins og sagt er þá ber hugurinn mann hálfa leið.

Einhverjum kann að finnast þetta hljóma fáránlega en það skiptir engu máli því ef þetta hjálpar mér þá er það í fínu lagi. Af hverju ætti maður ekki að tileinka sér eitthvað ef það gerir gagn þó það sé óhefðbundið. Það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur svo lengi sem það hjálpar. Það er líka alltaf betra að reyna að vera jákvæður í lífinu því þá verður allt miklu betra ekki satt?

Megi allt hið góða verða á vegi ykkar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert