Hljóp í fangið á nýjum sveitarstjóra

Ægir Þór sprengdi krúttskalann á Höfn í Hornafirði í gær þegar hann hljóp í fangið á nýjum sveitarstjóra bæjarins, Sigurjóni Andréssyni, er hann flutti ræðu þegar fyrsti rampurinn á Höfn var vígður. 

Var þetta á meðal fyrstu opinberra verka nýráðins sveitarstjóra en Ægir Þór, sem er með sjúkdóminn Duchenne, fékk þann heiður að klippa borðann við fyrsta rampinn. Rampurinn er hluti af verkefninu Römpum upp Ísland sem Haraldur Þorleifsson ýtti úr vör en verkefnið er hugsað til þess að bæta aðgengi fyrir fatlaða um allt Ísland. 

Hulda Björk Svansdóttir, móðir Ægis Þórs, var á svæðinu og segir augnablikið hafa verið ofboðslega fallegt. Þar að auki fengu þau Ægir Þór alla viðstadda til að dansa með sér til að vekja athygli á sjúkdóminum sem Ægir Þór er með. Dansa þau mæðgin alla föstudaga til þess að vekja athygli á sjúkdóminum.

„Dagurinn hefði bara ekki getað verið betri og ég er svo innilega þakklát,“ segir Hulda.

Myndbandið af Ægi Þór þakka Sigurjóni fyrir sig má sjá hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert