„Ég vil vera kletturinn sem börnin geta reitt sig á“

Ásta og Bolli ásamt börnum sínum tveimur.
Ásta og Bolli ásamt börnum sínum tveimur.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, er tveggja barna móðir og veit fátt skemmtilegra en að vera með börnunum sínum. Hún trúir því að börnin læri það sem fyrir þeim er haft og því sé foreldrahlutverkið ágætis sjálfsskoðun. 

Ásta er fædd og uppalin í Breiðholti. Hún gekk í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifaðist sem vélaverkfræðingur frá Danska tækniháskólanum, DTU. Hún bjó og starfaði erlendis í 14 ár, meðal annars í Japan, Frakklandi og Danmörku. Hún hefur gert þrjár tilraunir til að halda brúðkaup og giftast barnsföður sínum og sambýlismanni, Bolla Thoroddsen, en heimsfaraldur hefur alltaf sett þær áætlanir úr skorðum. Hún er þakklát fyrir að vera komin aftur heim til Íslands – enda besti staðurinn til að ala upp börn að hennar mati. Hún segir að það hafi verið mikil áskorun að byrja í nýju starfi í miðjum heimsfaraldri.

Hvernig er nýja starfið?

„Ég hóf störf fyrir ári í miðri kórónuveirubylgju og mín fyrstu kynni af mörgu starfsfólki voru því í gegnum fjarfundabúnað. Frekar glatað að geta ekki hitt alla í eigin persónu á fyrstu vikunum en svo kom þetta smám saman og nú þekkir maður orðið Krónuteymið ansi vel. Það er engin venjuleg blanda af góðu fólki sem starfar í Krónunni. Fjölbreytileiki er þar allsráðandi: fólk á mismunandi aldri, með mismunandi reynslu og af mismunandi þjóðerni. Kokteill sem ég held að megi mixa betur og oftar á fleiri stöðum í þjóðfélaginu.

Starfið er krefjandi, enda margt nýtt að læra frá því ég var síðast starfsmaður hjá dagvöruverslun og sat á kassa í Þín verslun á Seljabraut, Breiðholti. Ábyrgðin er mikil í þessu öfluga fyrirtæki sem sér um það bil einum þriðja landsmanna fyrir dagvöru og hefur þannig óbeint áhrif á innkaup og neyslu margra. Við í Krónunni leggjum gríðarlega mikla áherslu á umhverfismál, lýðheilsu og hringrásarhagkerfið í öllu okkar starfi því ein lítil ákvörðun innanhúss hjá okkur getur haft töluverð áhrif út í samfélagið. Við elskum litlu vinina okkar sem mæta með foreldrum sínum að versla og tryggjum að fremst í verslunum sé alltaf hollur „biti fyrir börnin“ sem hefur notið mikilla vinsælda hjá fjölskyldum.“

Ásta vill vera kletturinn í lífi barna sinna.
Ásta vill vera kletturinn í lífi barna sinna.

Að vera mamma ábyrgðarmesta hlutverkið

Þótt Ásta sé í krefjandi starfi þá segir hún móðurhlutverkið vera ábyrgðarmesta hlutverk sem hún hefur tekið að sér á ævinni. „Ég horfi á hlutverk mitt sem móðir að vera kletturinn sem börnin geta reitt sig á – alltaf, en á sama tíma að gefa þeim rými til að reka sig á og þroskast. Ég held að lykillinn sé að veita frelsi innan ákveðins ramma og horfi ég þar til aðferðafræði sem ég tel að mömmu og pabba hafi tekist ágætlega til með. Ég vona að maður nái að rækta opið og kærleiksríkt samband sem eigi eftir að vara alla ævi og þau verði alltaf tilbúin að leita til mín með hvað sem er. Ég held að mikilvægt sé að halda eigin kröfum og metnaði fyrir hönd barna sinna í hófi en veita stuðning í því sem þau taka sér fyrir hendur í von um að þau finni farveg þar sem þau blómstra. Í þessu sambandi er gott að betri helmingurinn er öllu slakari í lífinu almennt – en Bolli er einstakur pabbi og kann þetta jafnvægi betur en flestir.“

Hvað er mikilvægast fyrir þig í því hlutverki?

„Til að sinna þessu stærsta hlutverki lífsins vel tel ég mikilvægast að manni líði vel í eigin skinni. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Mín hegðun og lífsviðhorf smitast til barnanna og því er mikilvægt að vera góð fyrirmynd. Það er auðvelt að predika um að ekki megi horfa á sjónvarpið eða leika í símanum en detta svo sjálfur með hausinn á bólakaf í tækin. Það er líka mikilvægt að ná að kúpla sig út úr vinnunni áður en maður mætir heim til sín til að vera með hausinn á réttum stað þegar heim er komið. Við reynum að halda í heilagan fjölskyldutíma frá því að við sækjum á leikskólann þangað til börnin sofna. Oftar en ekki náum við að hoppa öll saman í bað rétt fyrir svefninn og það er að mínu mati einn besti siður sem við höfum tekið upp; róar alla inn í nóttina.“

Áttu góða fyrirmynd þegar kemur að foreldrahlutverkinu?

„Ég á margar fyrirmyndir. Fyrir utan þær sem tengjast mér fjölskylduböndum þá eru það æskuvinkonur og samstarfsfélagar sem oft eru með svo góða nálgun í þessu krefjandi hlutverki. Ég kem af öguðu heimili og er frekar gamaldags held ég í uppeldisaðferðum – en yfirleitt tilbúin að endurskoða og endurhugsa minn ramma – enda er uppeldi barnanna ein mesta lærdómsvegferð sem ég hef lagt í. Maður lærir ekki síður mikið um sjálfan sig. Það sem hefur sömuleiðis reynst vel og er okkur Bolla svo dýrmætt er að geta rætt opinskátt við þaulreynt og reynsluríkt starfsfólk Laufásborgar sem tekur á móti börnunum okkar opnum örmum alla virka daga. Uppbyggjandi og jákvæðar tillögur þaðan hafa oft hjálpað okkur, ungum og óreyndum foreldrum.“

Börnin hennar Ástu eru einstaklega samrýmd.
Börnin hennar Ástu eru einstaklega samrýmd.

Börn eru sjálfstæðir persónuleikar

Hvernig er að ala upp dóttur og son?

„Það er mikil gæfa að eiga heilbrigð börn og ekki skemmir fyrir að fá að kynnast sitt hvoru genamixinu í formi stelpu og stráks. Ég hugsa yfirleitt ekki mikið út í hvernig það er að ala upp dóttur og son – en það sem ég reyni að vera vakandi fyrir er að gera ekki ráð fyrir að dóttirin sé alveg eins og ég og sonurinn alveg eins og pabbinn í einu og öllu. Þarna eru á ferð splunkunýir karakterar sem þurfa að fá pláss til að blómstra á sinn hátt og má ekki setja í eitthvert fyrirfram ákveðið form.“

Er mikill munur á þeim?

„Stelpan er að verða fimm ára í nóvember og strákurinn er tveggja og hálfs. Hún er fíngerð og lipur, frekar hörð af sér og mikill spekingur á meðan drengurinn er stór eftir aldri og svolítill gaur, rosalega stríðinn við systur sína en algjör mömmustrákur. Stelpan lætur eiginlega ekkert hafa fyrir sér og er mikill dundari, en drengurinn þarf meiri athygli og prógramm. Þau eru oftast miklir vinir og farin að leika sér saman. Svo maður krossar bara fingurna um að þau verði góðir vinir áfram og eigi þetta dýrmæta systkinasamband út ævina.“

Þakklát fyrir að fá að vera mamma

Nú hefur þú alltaf unnið mikið, hvernig er að vera mamma á besta aldri með góða vinnu og frábær börn, heimili, mann og fleira?

„Ég þakka fyrir það oft að við Bolli skyldum vera svo heppin að geta eignast börn saman. Án þeirra held ég að við værum bara í vinnunni allan sólarhringinn. Við elskum vinnuna okkar og erum mjög markmiðadrifin bæði tvö. Ræðum mikið um vinnuna saman á heimilinu og fengum einmitt hláturskast í vikunni þegar ég kom heim úr vinnuferð til Kaupmannahafnar og stelpan spyr mig mjög einlægt: „Og hvernig gekk úti?“ Bara eins og hún væri fullorðinn einstaklingur eða samstarfsmaður í vinnunni. Þrátt fyrir vinnugleðina þá er auðvitað mjög krefjandi að láta þetta allt ganga upp, ekki síst vegna þess að Bolli er líka í mjög kröfuhörðu starfi sem forstjóri Takanawa sem starfar bæði á Íslandi og í Japan. Við endum yfirleitt bæði í tölvunni eftir að börnin eru sofnuð eða að við rífum okkur upp eldsnemma til að klára áríðandi verkefni.“

Kom móðurhlutverkið þér á óvart?

„Ég viðurkenni að ég hafði lítið velt móðurhlutverkinu fyrir mér áður en til þess kom. Ég átti aldrei lítið systkini og tók aldrei að mér að passa börn. Áhugamálin leiddu mig alltaf í aðrar áttir svo það var eiginlega ekki fyrr en ég stóð á fæðingardeildinni í Tókýó með nýfædda Margréti Ragnheiði að ég hugsaði hversu mikil ábyrgð það væri að bjóða nýjum einstaklingi í þennan heim. Ætli ég hafi ekki eins og eflaust margir algjörlega horft fram hjá og vanmetið alla þá alúð og vinnu sem móðir mín hefur lagt í uppeldið og heimilishaldið í öll þessi ár. Þegar maður loks finnur á eigin skinni hversu stórt og mikið hlutverk þetta er, þá fer maður að horfa með þakklæti til baka. Ég held að það sem mér þyki áhugaverðast sé hversu þolinmóður maður lærir að vera sem foreldri. Dyggð sem hefur ekki verið mín sterkasta hlið í gegnum árin.“

Fjölskyldan hafði það notalegt saman í sumarleyfinu sínu.
Fjölskyldan hafði það notalegt saman í sumarleyfinu sínu.

Áhugaverð skilaboð frá japanskri ljósmóður

Áttu skilaboð til kvenna sem vilja vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín – þær sem eru með samviskubit að vera að eltast við framadrauminn?

„Ég veit nú ekki hvort ég sé einhver fyrirmynd í þessum efnum. Ég hef oft látið eins og það séu fleiri klukkutímar í sólarhringnum hjá mér en öðrum og troðið allt of miklu inn á dagskrána. Það gengur auðvitað ekki til lengdar og nú horfi ég meira til lengri tíma: Ég vil endast í starfi og leik. Til að geta það þarf maður fyrst og fremst að huga að sjálfum sér, heilsunni og orkustiginu. Svefn og hreyfing eru lykilatriði. Því meira af því – því betra. En það er ekki hægt að ná öllu og ég forgangsraða mjög stíft til að keyra mig ekki út. Það þýðir því miður oft færri vinkonu- og fjölskyldufundi, og annað sem væri gaman að gera meira af. Til þess gefast vonandi fleiri tækifæri þegar börnin eru orðin eldri.“

Lærðir þú eitthvað í Japan og Evrópu sem þú tekur með þér inn í móðurhlutverkið?

„Okkur Bolla finnst stundum gaman að vitna í eina ágæta sögu frá Japan þegar við erum spurð að því hvort börnin okkar hafi notað snuð. Við áttum nefnilega eftirminnilegt samtal við japanska ljósmóður rétt eftir að dóttir okkar kom í heiminn í Tókýó, sem hnussaði yfir þeirri hugmynd okkar að kaupa snuð og prófa að gefa henni fljótlega eftir heimkomu. Hún sagði að snuð væru ekkert annað en tæki fyrir fullorðna fólkið sem nennti ekki að hlusta á börnin sín. Við vorum í nettu sjokki yfir þessum skýru svörum en þorðum ekki annað en jánka þessu. Í laumi hófum við hins vegar verið að prófa okkur áfram með alls kyns tegundir af snuðum en allt kom fyrir ekki, barnið vildi þau ekki. Svona gekk þetta sömuleiðis með seinna barnið og því höfum við Bolli haldið okkur við þá sögu að börnin hafi aldrei fengið snuð vegna vinsamlegrar ráðleggingar frá japanskri ljósmóður.“

Gaman að fá að gera matinn sjálf

Hver er uppáhaldsmatur barnanna?

„Ég held að börnin borði alltaf best og mest þegar pabbi Bolli grillar eitthvað gott. Lambakjöt er mjög vinsælt hjá krökkunum og svo er alltaf fjör þegar við eldum mexíkanskan mat þar sem þau mega sjálf fylla skeljar eða pönnukökur, skreyta og matreiða eftir sínu höfði. Ekki má gleyma vöfflunum á Mokka – en þær þykja öllum á heimilinu bestar!“

Er öðruvísi að elda og kaupa í matinn nú en áður?

„Krakkarnir eru algjörir mjólkurkálfar svo ég held að ég hafi aldrei keypt eins mikla mjólk á ævinni og nú. Smjörið fer fljótt sem og hnetusmjörið. Annars eldum við ekkert svo ólíkt því sem áður var. Börnin borða bara það sem við borðum.

Það er kannski helst að maður sé orðinn meðvitaðri um uppruna varanna, gæði þeirra og innihald. Mér finnst mikil vakning að verða í þessum efnum og áhersla á lífrænt loksins að ná til landsins. Þetta er eitthvað sem ég vil beita mér fyrir í gegnum Krónuna og erum við nú þegar að taka mikilvæg skref í þá átt.“

Börnin elska að fara í sund

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir með börnunum?

„Að fara í sund og ferðast. Sundið er sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar og eftir að við Bolli fluttum heim getum við ekki hætt að hrósa þeirri frábæru flóru sundlauga sem er að finna hér á landi. Algjör lúxus að eiga svo auðvelt aðgengi að góðum laugum um land allt. Krakkarnir elska að fara í sund og við líka. Ferðalög eru líka í miklu uppáhaldi hjá okkur. Í sumar kíktum við sem dæmi í Flatey í tvær nætur og það var eins og að ganga inn í einhvern ævintýraheim. Kindur á vappi, kríur í árásargír, flóð og fjara, slökun og óvænt æskuvinamót gerði ferðina enn eftirminnilegri.“

Ásta hefur lært að hlutirnir þurfa ekki að vera flóknir til að vera skemmtilegir.

„Að hoppa upp í strætó í stað þess að skutlast alltaf á heimilisbílnum gerir ferðina út í búð að ævintýralegu ferðalagi fyrir börn á þessum aldri. Að búa til og halda í venjur eins og að fara og fá okkur vöfflur á Mokka-kaffi eftir klippingu, en það er orðið að föstum sið hjá okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert