„Upphaf meðgöngunnar varð mánuði eftir alvarlegt slys“

Berglind vildi láta taka fallegar myndir af sér á meðgöngunni …
Berglind vildi láta taka fallegar myndir af sér á meðgöngunni til að sýna dóttur sinni þegar hún yrði eldri. mbl.is/Tinna Magg

Fyrirsætan Berglind Ólafsdótttir eignaðist barn á dögunum sem hana hafði dreymt um lengi. Hún lenti í alvarlegu slysi rétt áður en hún upplifði það sem hana hafði dreymt um lengi. Að verða ólétt. 

„Já, það er mikilvægt að njóta hverrar stundar. Það er eitthvað sem maður lærir með reynslunni. Ég hálsbrotnaði í nóvember og fór alveg úr hálslið þar sem ég lenti í bílslysi. Sú reynsla hefur gert mig jafnvel ennþá þakklátari fyrir lífið. Sérstaklega að geta gengið, ekki lamast og að geta gengið með dóttur mína. Ég hélt mínu striki og varð ólétt mánuð eftir slysið,“ segir Berglind Ólafsdóttir sem eignaðist litla dóttur á dögunum.

„Meðgangan var ekkert nema yndisleg. Undir niðri var ég alltaf smá smeyk þar sem ég var búin að missa ítrekað fóstur og fara í gegnum margar tæknifrjóvganir síðastliðin tvö til þrjú ár. Svo ég fagnaði hverjum degi sem leið og í raun hef ég aldrei fundið betri tilfinningu en að hafa barn í maganum.

Mér finnst í raun svo ótrúlegt að hafa verið ólétt og að líða svona vel á meðgöngunni. Ég hélt áfram að hreyfa mig alla meðgönguna, fór í spinning, meðgöngujóga og fór jafnvel í veiðiferð á síðasta hluta meðgöngunnar.

Mér fannst ekkert yndislegra en að líkaminn minn hefði þennan tilgang að vera með líf inni í mér. Á meðgöngunni talaði ég mikið um að mig langaði bara að hafa hana þarna. Mér finnst ekkert fallegra.“

Hefur alltaf vitað að hún ætti eftir að verða móðir

Berglind hefur ferðast út um allan heim og upplifað það sem hana langar.

„Ég vissi að það jafnast ekkert á við að upplifa að verða móðir.

Ég hef alltaf fundið fyrir því að ég væri með það mikla ást að gefa að það væri ekki nóg að hugsa bara um mig sjálfa. Fyrir mér var viss tómleiki að lifa lífinu og verða ekki móðir.“

Hvað er góð mamma í þínum huga?

„Kona sem er virkilega tilbúin að elska skilyrðislaust og veita öryggi, vera alltaf til staðar og ala upp það líf sem hún kemur með í heiminn.

Í mínum huga endar móðurhlutverkið í raun aldrei, sama hversu gömul börnin okkar verða.“

Berglindi leið einstaklega vel á meðgöngunni.
Berglindi leið einstaklega vel á meðgöngunni. mbl.is/Tinna Magg

Langar að vera með barn á brjósti í eitt ár

Hvernig gekk fæðingin?

„Fæðingin tók sinn tíma þar sem litla daman lét bíða eftir sér. Þar sem ég er eldri en fertug vildu þau passa að ég færi ekki yfir 40 vikur og fór ég því í gangsetningu. Það gekk mjög hægt fyrir sig og alls voru þetta um fjórir dagar frá byrjun þangað til hún ákvað að láta sjá sig! Starfsfólkið á fæðingardeild LSH var einstaklega faglegt og yndislegt og vil ég koma því til skila hversu þakklát ég er fyrir það. Einnig er svo sérstakt að upplifa þessa eftirfylgni þegar heim er komið. Það eru frábærar ljósmæður sem fylgja barninu eftir allt frá fyrsta degi.“

Hvernig verður árið?

„Ég er búin að ákveða að njóta þess að vera heima með dóttur minni fyrsta árið og einnig að reyna að vera með hana á brjósti eins lengi og ég get. Helst í eitt ár. Ég er búin að bíða aðeins of lengi eftir henni til að flýta mér á næsta stig. Þessi tími kemur ekki aftur og það gerist svo margt fyrsta árið í lífi barns. Við erum svo lánsöm að vera komin á þann aldur og þann stað í lífinu að okkur finnst við ekki vera að missa af neinu og getum leyft okkur það að njóta augnabliksins með henni.

Við höfum síðan í huga að ferðast með hana á næsta ári og njóta þess að vera í smá hlýju og sól og hitta fjölskyldur vina okkar erlendis ef kórónuveirufaraldurinn leyfir.

Hér áður var svo mikið „do's and dont's“ sem eru ekki í gangi núna. Mér finnst foreldrar meira taka ákvörðun sjálfir og gera hlutina eins og þeim líður best með.“

Berglind og Örn eignuðust litla stúlku nýverið. Hún er að …
Berglind og Örn eignuðust litla stúlku nýverið. Hún er að sögn foreldranna einstaklega vær og góð.

Karlmannlegt að taka þátt í fæðingunni

Hvernig undirbjóstu þig fyrir fæðinguna?

„Ég myndi segja að meðgöngujóga hjá Auði Bjarnadóttur í Jógasetrinu hafi hjálpað mjög mikið. Ég las talsvert af bókum, til dæmis Fæðinguna ykkar, sem var mjög góð bók. Einnig var ég að fylgjast með ljósmæðrum á netinu sem voru með mikið af fróðlegu efni. Ég var inni í spjallhóp á Facebook sem heitir ágústbumbur 2021 og þar voru verðandi mæður að skiptast á upplýsingum og velta hlutunum fyrir sér enda við allar að ganga í gegnum það sama. Ég bjó til fæðingaróskalista sem ég lét ljósmóðurina fá uppi á fæðingardeild. Þetta var svona nokkurs konar leiðarvísir um það sem mér þætti vænt um að reyna áður en inngrip yrði gert í fæðingarferlinu. Mikilvægt er að hafa opinn huga fyrir öllu inngripi sem getur átt sér stað þar sem velferð barns og móður er alltaf númer eitt.“

Hvað ertu ánægð með?

„Ég er svo ánægð að sjá þessa auknu umræðu sem er í gangi gagnvart tæknifrjóvgunum, fósturmissi og ófrjósemi karla og kvenna. Það er svo mikilvægt að ræða hlutina með opnum hætti og að við lærum hvert af öðru.“

Berglind er vön að sitja fyrir en kunni ákaflega vel …
Berglind er vön að sitja fyrir en kunni ákaflega vel við að þurfa ekki að halda maganum inni í þessari myndatöku af henni á meðgöngunni. mbl.is/Tinna Magg

Þótti gaman að sjá myndir af mömmu sinni ófrískri

„Einnig finnst mér svo fallegt að sjá hversu mikið feður eru farnir að taka þátt í meðgöngunni og í fæðingunni. Það er í raun karlmannlegt og flott að sjá þá vera virka í fæðingunni og hjálpa þar sem þeir geta hjálpað. Við fórum til dæmis á paranámskeið hjá jógasetrinu þar sem farið var yfir með hvaða hætti makinn geti aðstoðað í fæðingarferlinu.“

Hvaðan sækir þú fyrirmyndir þínar þegar kemur að móðurhlutverkinu?

„Ég er svo lánsöm að eiga yndislega móður sem hefur verið mín fyrirmynd og er enn, ásamt ömmum mínum og sterkum konum sem ég hef kynnst úti í heimi.“

Berglind fór í nokkrar ljósmyndatökur á meðgöngunni. Hún vildi gera það vegna þess að hún var ekki viss um að hún myndi ganga aftur með barn.

„Þar sem þetta er mitt fyrsta og líklega eina barn sem ég geng með, þá ákvað ég að láta taka nokkrar myndir til að eiga fyrir dóttur mína. Ég man hversu áhugavert það var fyrir mig að sjá myndir af mömmu þegar hún var ólétt að mér. Mig langaði ekki í þessar klassísku óléttumyndir þannig að ég hafði samband við ljósmyndara sem er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Eftir að hafa verið fyrirsæta í mörg ár var svolítið skemmtilegt að njóta þess að vera með stóran maga og ýta honum út í staðinn fyrir að halda honum inni eins og maður gerir svo oft í fyrirsætutökum.“

Berglind lenti í alvarlegu bílslysi í nóvember þar sem hún …
Berglind lenti í alvarlegu bílslysi í nóvember þar sem hún hálsbrotnaði. Mánuði seinna rættist stóri draumurinn hennar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »