Huga þarf að líkamsstöðu barna

Börn hreyfa sig minna og eru bogin yfir snjalltækjunum. Það …
Börn hreyfa sig minna og eru bogin yfir snjalltækjunum. Það reynir á bakið. Unsplash.com/Diego Pasadori

Sífellt fleiri börn glíma við slaka líkamsstöðu. Þau sitja mikið bogin yfir tölvur, síma og bækur og nú er talið áríðandi að fólk minni börn á að rétta úr sér til þess að forðast slæma heilsu síðar meir. 

„Við kennum börnum að bursta tennurnar dag hvern, við þurfum líka að leggja jafnmikla áherslu á að þau rétti úr sér og beri sig vel. Slæm líkamsstaða getur haft slæm áhrif á bakið. Sífellt fleiri börn greinast með bakvandamál,“ segir Hannah Scott læknir.

„Afhverju eru fleiri börn að greinast bakveik? Það er til dæmis vegna offitu. Fitan dreifist misjafnlega og veldur álagi á stoðkerfið. Maginn ýtist fram og bakið bognar. Börn hreyfa sig minna og eru keyrð hingað og þangað. Þá þurfa þau oft að bera þungar töskur. Svo eru þau bogin fyrir snjallsímanum eða I-padinum.“

„Heilsukvillar sem fylgja slæmri líkamsstöðu eru margvíslegir. Höfuðverkir eru algengir, það hvernig hausinn hangir yfir símanum reynir óvenjumikið á hálsvöðvana og skapar þrýsting. Þá fær líkaminn ekki eins mikið súrefni þegar líkaminn er allur í keng. Að sitja beinn í baki eykur blóðstreymi til höfuðsins um 40% og eykur þar með einbeitinguna til mikilla muna.

Hvernig er hægt að hjálpa börnum að vernda bakið?

  • Reyndu að hvetja barnið til þess að halda á tækjum sínum í augnhæð. Við viljum að börn horfi beint framávið.
  • Passaðu að borð, stólar og tölvur séu í réttri hæð fyrir barnið. Bak þeirra á að vera beint og fæturnir flatir á gólfinu.
  • Fáðu þau til að hreyfa sig. Öll líkamsrækt er betri en engin.
  • Keyptu bakpoka með breiðum og þykkum böndum (amk 4 cm að breidd) og passaðu upp á að þau noti bæði böndin.
  • Hvettu til þess að börnin taki pásu til að teygja úr sér á tuttugu mínútna fresti.
  • Reyndu að fá barnið til þess að gera einfaldar bakæfingar í fimm mínútur á dag. Ein góð æfing er að liggja á maganum, teygja hendur fram og lyfta.
mbl.is