Halsey sýnir slitinn maga eftir barnsburð

Söngkonan Halsey er opinská um allt það sem tilheyrir móðurhlutverkinu.
Söngkonan Halsey er opinská um allt það sem tilheyrir móðurhlutverkinu. JOHANNES EISELE

Söngkonan Halsey segist nú snúa vörn í sókn vegna umræðna sem hafa átt sér stað um útlit hennar eftir að hún eignaðist son sinn síðastliðið sumar.

„Ég er að deila þessari færslu vegna þess að það er alveg sama hvað ég geri; fólk vill halda áfram að tala um líkama minn,“ sagði Halsey við myndaalbúm sem hún birti á Instagram og sýndi líkamlega vegferð hennar eftir að hún kom heilbrigðum syni sínum í heiminn. 

„Eins og sjá má á fyrstu myndinni lít ég út fyrir að vera barnshafandi en þarna eru nokkrir dagar liðnir frá því að ég átti. Það vita það kannski ekki margir en þú lítur út fyrir að vera enþá ólétt í marga daga eftir að þú fæðir barn,“ útskýrir Halsey. 

Myndi aldrei vilja fara til baka

Söngkonan segir að sig langi ekki til að fara í ræktina strax til þess að ná af sér þeim aukakílóum sem hún bætti á sig á meðgöngunni. Hún vilji leyfa líkamanum að jafna sig á náttúrulegan hátt. „Líkami minn er að breytast. Þetta er allt að gerast og ég ætla bara að leyfa því að vera þannig.“ Þá segist hún jafnframt vera upptekin við það að sinna syni sínum og reyna að vinna að tónlist og fást við ýmis vinnutengd verkefni þess á milli, hún hafi því hvorki tíma né löngun til þess að fara í ræktina núna.

„Mig langar ekki að þykjast og halda þeirri mýtu á lofti að nýbakaðar mæður líti stórkostlega vel út strax eftir fæðingu því það er ekki alltaf þannig,“ segir Halsey og bendir á að þegar hún kom fram í Saturday Night Live um síðustu helgi hafi öllum brögðum verið beitt til þess að hún liti sem best út.

„Ég mun aldrei fá að sjá sama líkamlega form og áður en ég eignaðist barn vegna þeirrar staðreyndar að ég hef gengið með barn! Það hefur allt breyst. Það hefur breytt mér að eilífu; tilfinningalega, líkamlega og andlega. Ég myndi samt ekki vilja skipta neinu af þessu út.“

View this post on Instagram

A post shared by halsey (@iamhalsey)mbl.is