Vill friðhelgi vegna faðernismáls

Albert hefur notið nokkurrar kvenhylli í gegnum tíðina og feðrað …
Albert hefur notið nokkurrar kvenhylli í gegnum tíðina og feðrað að minnsta kosti tvö börn utan hjónabands. AFP

Albert fursti af Mónakó sótti um friðhelgi í faðernismáli sem höfðað hefur verið á hendur honum. Hann á að vera faðir barns sem fæddist árið 2005 og móðirin fer fram á DNA-próf. Málið er einstaklega viðkvæmt því á þeim tíma var prinsinn tekinn saman við Charlene, sem síðar átti eftir að verða eiginkona hans. 

Réttarhöld í faðernismálinu áttu að fara fram í febrúar á þessu ári í Mílanó en var frestað vegna óskar hans um friðhelgi (sovereign immunity).

Lögmaður móðurinnar vonast til þess að Albert fái ekki friðhelgi. „Í mínum augum skiptir engu máli hvort gagnaðilinn er prins, kóngur, forseti, pólitíkus eða viðskiptamaður.“

Lögmaður Alberts, Thierry Lacoste, segir að enginn fótur sé fyrir ásökununum og að þessi krafa um friðhelgi sé eðlileg fyrir höfuð ríkis sem varnarleið.

Albert á nú þegar tvö börn utan hjónabands sem hann heldur uppi en þau voru getin áður en Charlene kom til sögunnar. Sagt er að mikill þrýstingur hafi verið á Charlene að fæða honum löggilda erfingja og eftir langt og strangt ferli varð hún ólétt að tvíburum sem eru nú sjö ára.

Miklar sögusagnir hafa verið um erfiðleika í hjónabandi Alberts prins og Charlene prinsessu en Charlene hefur dvalið ein í Suður-Afríku svo mánuðum skiptir. Upp á síðkastið hefur Albert verið afar iðinn við að neita þeim orðrómi. 

Fjölskyldan fyrir tveimur árum.
Fjölskyldan fyrir tveimur árum. AFP
mbl.is