Upplifði mikið fæðingarþunglyndi

Meghan McCain upplifði mikið fæðingarþunglyndi eftir að hún eignaðist dóttur …
Meghan McCain upplifði mikið fæðingarþunglyndi eftir að hún eignaðist dóttur sína Liberty. Skjáskot/Instagram

Sjónvarpskonan Meghan McCain glímdi við mikið fæðingarþunglyndi fyrstu sex mánuðina eftir að hún fæddi frumburð sinn, dótturina Liberty, í heiminn. McCain, sem er dóttir öldungardeildarþingmannsins John McCain heitins, segist ekki hafa getað farið að heiman vegna áhyggja og kvíða. 

„Þetta er það næst erfiðasta sem ég hef upplifað, það erfiðasta var að missa pabba minn,“ sagði McCain í viðtali við People. Faðir hennar lést úr krabbameini árið 2018. 

McCain hafði miklar áhyggjur af því að einhver reyndi að nema dóttur hennar á brott og bað eiginmann sinn, Ben Domenech, um að ráða öryggisverði til að vera fyrir utan húsið þeirra. 

Hún átti erfiða fæðingu og veiktist mikið eftir fæðinguna. Hún segir að samt sem áður hafi verið svo undursamlegt að fá dóttur þeirra í fæðingu. Þegar þau hjónin fóru með dóttur sína í eins mánaðarskoðun tók barnalæknirinn eftir ákveðnum einkennum hjá McCain og ráðlagði henni að fylla út spurningalista.

Eftir að hafa fyllt út spurningalistann kom í ljós að hún var með mikið fæðingarþunglyndi og fékk hún meðferð við því. 

McCain hefur nú sagt sögu sína í nýrri hljóðbók, Bad Republican, sem kemur út í þessari viku. „Mér leið eins og fólk þyrfti að deila sögum um þá erfiðleika sem fylgir því að verða nýbökuð móðir. Ekki bara fullkomnu myndinni,“ sagði McCain og bætti við að henni þætti erfitt að gera þetta en að hana langaði til að hjálpa konum sem lenda í því sama og hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert