Velti ekki hörundslit Archies fyrir sér

Karl Bretaprins.
Karl Bretaprins. AFP

Karl Bretaprins tekur fyrir að hann hafi spurt spurninga um hörundslit Archies, sonar Harry Bretaprins og Meghan hertogaynju. Talsmaður prinsins svaraði spurningum blaðamanna á  Barbados í morgun. 

Í bókinni Brothers and Wives: Inside the Private Lifes of William, Kate, Harry and Meghan eftir Christopher Andersen er sagt að Karl hafi verið sá meðlimur konungsfjölskyldunnar sem hafði velt fyrir sér hvaða hörundslit ófætt barn þeirra Harrys og Meghan. 

Harry og Meghan höfðu áður greint frá því í viðtali við Opruh Winfrey að háttsettur meðlimur konungsfjölskyldunnar hafi velt fyrir sér hörundslit barnsins.

„Þetta er skáldskapur og ekki þess virði að fleiri spurningar verði spurðar,“ sagði talsmaðurinn að því er fram kemur í frétt Reuters

Í bókinni er sagt frá samtali sem Karl á að hafa átt við eiginkonu sína Kamillu hertogaynju morguninn sem greint var frá trúlofun Harrys og Meghan. „Ég velti því fyrir mér hvernig börnin munu líta út?“ á Karl að hafa sagt. Þá svaraði Kamilla hissa: „Þau verða algjörlega gullfalleg, það er ég viss um“.

Karl á þá að hafa útskýrt betur hvað hann meinti. „Ég meina, hvernig heldurðu að hörundslitur þeirra verði“.

Meghan með Archie á sínum tíma.
Meghan með Archie á sínum tíma. AFP
mbl.is