Ekki ráðlagt að eignast bestu vini

Karlotta prinsessa og Georg prins á fyrsta skóladegi Karlottu árið …
Karlotta prinsessa og Georg prins á fyrsta skóladegi Karlottu árið 2019. AFP

Eldri börn Vilhjálms og Katrínar hertogaynja, þau Goerg prins og Karlotta prinsessa, ganga í dýran einkaskóla, Thomas's Battersea, í London. Skólinn leggur mikla áherslu á vináttu og börnin eru ekki hvött til þess að eignast besta vin í skólanum. 

Blaðamaðurinn Jane Moore sagði frá skólanum í þættinum Loose Women að því er fram kemur á vef The Sun. „Þetta er mjög góður lítill skóli vegna þess að hann leggur áherslu á góðvild, það skiptir miklu miklu máli,“ sagði Moore meðal annars. 

„Það er regla að ef barn heldur veislu þá útdeilir það ekki boðskortum í tíma nema það bjóði öllum bekknum,“ sagði Moore. Henni finnst reglan sniðug og kemur hún í veg fyrir að börnum líði eins og það sé verið að skilja þau út undan. 

„Það eru skilti alls staðar sem segja börnunum að vera góð, það er stefna skólans. Þau hvetja ekki börnin til þess að eignast bestu vini.“

Karlotta prinsessa, Katrín hertogaynja, Georg prins og Vilhjálmur Bretaprins.
Karlotta prinsessa, Katrín hertogaynja, Georg prins og Vilhjálmur Bretaprins. AFP
mbl.is