Kelly Osbourne er ólétt

Kelly Osbourne á von á sínu fyrsta barni.
Kelly Osbourne á von á sínu fyrsta barni. AFP

Kelly Osbourne er ólétt að sínu fyrsta barni þetta tilkynnti hún á Instagram. Barnsfaðir hennar er Sid Wilson en hann er meðal annars meðlimur í rokkhljómsveitinni Slipknot. 

„Það hefur lítið heyrst í mér síðustu mánuði þannig að mig langði að deila með ykkur ástæðu þess. Ég er himinlifandi að tilkynna að ég er að fara að verða mamma. Það er vægt til orða tekið að segja að ég sé ánægð. Ég er í skýjunum!,“ segir Osbourne í tilkynningu sinni á Instagram.

Þetta er fyrsta barn parsins en Osbourne er 37 ára en Wilson 45 ára. Parið hefur þekkst lengi en nýlega orðið ástfangin. Osbourne kallar Wilson sinn besta vin og sálufélaga. 

Osbourne hefur áður tjáð sig um að langa í börn en barátta hennar við fíknisjúkdóm setti strik í reikninginn og rændi hana dýrmætum tíma til að lifa lífinu.

„Mér finnst ég vera mjög eftir á. Sem kona, þá hefði ég viljað vera búin að stofna fjölskyldu. Bróðir minn á þrjár stelpur og ég hefði viljað vera búin að eignast börn núna. En það var ekki í spilunum enn um sinn. Ég hefði verið gagnslaus móðir. Því ég var svo mikill fíkill, ég hélt því alltaf fram að ég myndi hætta í fíkniefnum um leið og ég yrði ólétt, því ég þyrfti þess. Það er galinn hugsunarháttur.“

Leiðin til bata hefur ekki alltaf verið greið hjá Osbourne en eftir fjögur ár edrú þá féll hún í apríl 2021. Hún er nú aftur á beinu brautinni og leggur áherslu á mikilvægi þess að taka einn dag í einu.

Kelly Osbourne og barnsfaðir hennar Sid Wilson.
Kelly Osbourne og barnsfaðir hennar Sid Wilson. Skjáskot/Instagram
mbl.is