Systkinakærleikurinn skein í gegn af svölunum

Georg, Vilhjálmur, Karlotta og Katrín.
Georg, Vilhjálmur, Karlotta og Katrín. AFP

Börn bresku konungsfjölskyldunnar stálu algerlega senunni um liðna helgi þegar haldið var hátíðlega upp á 70 ára krýningarafmæli Elísabetar II. Bretadrottningar. Lúðvík prins, sonur hertogahjónanna af Cambridge, fangaði athygli og hjörtu heimsbyggðarinnar með einlægri og barnslegri hegðun sinni. Fór hann vart framhjá neinum sem fylgdist með afmælishátíðinni.

Lúðvík var þó ekki sá eini sem vakti athygli heldur var því einnig veitt eftirtekt hversu mikill systkinakærleikur ríkti á milli systkina hans, þeirra Georgs prins og Karlottu prinsessu. 

Systkinin mættu prúðbúin á svalir bresku konungshallarinnar ásamt foreldrum sínum, föðurafa og eiginkonu hans; Karli Bretaprins og Kamillu, og langömmu sinni, Elísabetu Bretadrottningu. Börnin voru viðstödd hátíðarhöldin ásamt stórfjölskyldu sinni og starfandi konungsmeðlimum en það verður ekki annað sagt en að þau kunni svo sannarlega að koma fram og standa fyrir framan múg og margmenni. Fréttamiðillinn The Sun greindi frá.

Þegar „konfettísprengjum“ í bresku fánalitunum var svo hleypt af hrökk Karlotta, sjö ára, alveg í kút. Georg, eldri bróðir hennar, tók eftir því að henni varð brugðið og brást við því með því að huga að systur sinni.

„Þetta fékk þig til að hoppa,“ á Georg, níu ára, að hafa sagt við systur sína en sérþjálfaðir varalesarar hafa rýnt í hvert eitt og einasta orð sem meðlimir konungsfjölskyldunnar létu falla uppi á svölum Buckingham-hallar.

„Þetta fékk mig til að hoppa!“ vilja varalesarar meina að hafi verið svar Karlottu til bróður síns en látbragð þeirra talar sínu máli og leikur enginn vafi á að kærleikurinn er mikill á milli þeirra tveggja.

mbl.is