Hvatti foreldra til að kaupa ræstivörur í stað leikfanga

Julia Fox.
Julia Fox. AFP

Leikkonan Julia Fox hætti sér út á hálan ís fyrr í vikunni þegar hún ráðlagði foreldrum að efla vinnufærni og verkvit hjá börnum sínum. Mælti Fox með því að foreldrar myndu frekar fjárfesta í ræstiverkfærum á borð við tuskur, skúringafötur, moppur og sópa í stað hefðbundinna leikfanga. Hvatti hún foreldra til að láta börn sín „vinna“ og kenna þeim lífsleikni í leiðinni. 

Allt ætlaði um koll að keyra á TikTok þegar Fox, sem deilir eins og hálfs árs gömlum einkasyni sínum, Valentino, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Peter Artemiev, sagði að flest leikföng sem seld eru í leikfangaverslunum séu glórulaus fyrir börn þó þau séu ætluð þeim.

„Hugmyndin er sú að láta foreldra eyða miklum peningum í drasl sem í raun kenna börnum þeirra ekki neitt,“ sagði Fox.

Femínísk nálgun lykilatriði í barnauppeldinu

Fox fann sig knúna til að útskýra ummæli sín betur fyrir aðdáendum sínum á TikTok eftir að viðbrögð þeirra voru ekki með þeim hætti sem Fox hafði gert ráð fyrir.

„Guð minn góður. Þið haldið þó ekki að ég hafi sagt að börn ættu bókstaflega að vinna. Það er ekki það sem ég sagði. Ég sagði að börn þyrftu að læra verklagni,“ útskýrði Fox sem sagði að efla þyrfti iðn-, verk- og markaðsfærni í börnum frá upphafi til að leggja þeim línurnar fyrir framtíðina.

Fox sagði að móðurhlutverkið hafi gert það að verkum að hún sjái nú hlutina í nýju ljósi og nálgast hún uppeldið á syni sínum út frá femínískri hugsjón.

„Ég vil ekki að sonur minn búist við því að konur komi til með að þrífa upp eftir hann,“ sagði Fox og minntist þess að þannig hafi það verið í hennar fjölskyldu á æskuárum hennar sjálfrar.

mbl.is