Bangsaspítalinn haldinn á morgun

Bangsaspítalinn verður haldinn á morgun, laugardag frá 10 til 16 …
Bangsaspítalinn verður haldinn á morgun, laugardag frá 10 til 16 í þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Börn og veikir eða slasaðir bangsar geta leitað læknisþjónustu á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu á morgun, laugardag. Lýðheilsufélag stendur að baki bangsaspítalans en hlutverk hans er tvíþætt, að fyrirbyggja hræðslu hjá börnum við lækna og hins vegar að gefa læknanemum á yngri árum tækifæri til að æfa samskipti við börn og aðstandendur. 

Bangsaspítalinn verður opinn frá 10 til 16 á heilsugæslunni í Efstaleiti, Höfða og Sólvangi á morgun. Þar að auki munu Íþróttaálfurinn og Solla stirða mæta og verða í Efstaleiti klukkan 14:30, Höfða klukkan 15 og í Sólvangi klukkan 15:30.

Bangsalæknir skoðar bangsa

Heimsóknin fer þannig fram að hvert barn kemur með sinneigin bangsa. Gott er að ræða fyrirfram við barnið um það hvernig bangsinn er veikur, hvort hann sé t.d. með hálsbólgu, magapest eða brotinn fót.

Bangsalæknar taka á móti veikum eða slösuðum böngsum.
Bangsalæknar taka á móti veikum eða slösuðum böngsum. mbl.is/Hari

Þegar á heilsugæsluna er komið fær barnið að innrita bangsann og að því loknu kemur bangsalæknir og vísar barninu inn á læknastofu þar sem læknirinn skoðar bangsann og veitir honum þá aðhlynningu sem hann þarf á að halda. Óþarfi er að panta tíma, bara mæta með góða skapið og bangsa.

Börn, bangsar og foreldrar geta kynnt sér dagskrá bangsaspítalans nánar á Facebook.

Bangsaspítalinn verður ekki bara á höfuðborgarsvæðinu í haust heldur líka á Akureyri, en þar verður hann um næstu helgi, laugardaginn 17. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert