„Ég held það hafi alltaf blundað í mér pabbi“

Guðmundur Felixson og sonur hans Arnaldur Snær.
Guðmundur Felixson og sonur hans Arnaldur Snær.

Guðmundur Felixson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir eignuðust sitt fyrsta barn, soninn Arnald Snæ, fyrir tveimur árum. Guðmundur segist fyrst hafa óttast að hann myndi einangrast félagslega þegar hann eignaðist barn, en segir það hafa komið á óvart hversu tilefnislaus þessi ótti var. 

Guðmundur er sviðshöfundur, spunaleikari, sketsahöfundur, leikari og leikstjóri og hefur sýnt spunasýningar hjá Improv Ísland í mörg ár. Út frá því myndaðist sketsahópurinn Kanarí sem er að taka upp sína aðra seríu fyrir RÚV um þessar mundir. Í haust leikstýrir hann fjölskyldusýningunni Hvíta tígrisdýrið í Borgarleikhúsinu. Blær er líka leikkona og er rappari í Reykjavíkurdætrum.

„Ég held að það hafi alltaf blundað í mér pabbi. Ég á margar yngri systur, þar á meðal eina sem fæddist þegar ég var 13 ára, þannig að ég lærði snemma að skipta á bleyjum og svoleiðis. Ég held ég hafi alltaf vitað að einhvern tímann yrði ég pabbi en óttaðist frelsissviptinguna sem fylgir því. Ég er mikil félagsvera og óttaðist að ég myndi algjörlega hætta að hitta vini mína eftir að ég eignaðist barn. Vissulega fylgir þessu ákveðin frelsissvipting en félagslífið er samt sem áður ennþá til staðar, bara í breyttri mynd. Nú hitti ég vini mína meira á barnvænum kaffihúsum heldur en óbarnvænum skemmtistöðum,“ segir Guðmundur.

Góð samskipti það mikilvægasta

Spurður á hvað hann leggi áherslu í uppeldinu segir Guðmundur að honum finnist hann auðvitað ekki kunna að ala upp barn en að þau reyni að vera góðar manneskjur og trúa því að það muni hafa áhrif á Arnald.

„Ef ég ætti að nefna eitthvað held ég að góð samskipti séu eitt það mikilvægasta sem við leggjum upp með. Við pössum okkur að segja aldrei neitt við hann sem við getum ekki staðið við og þegar við höfum tekið einhverja ákvörðun þá reynum við að bregða ekki út frá henni. Við leggjum mikið upp úr því að tala við Arnald og útskýra fyrir honum hvað er í gangi. Í stað þess að troða honum bara í úlpuna útskýrum við fyrir honum að nú séum við að fara út og þess vegna þurfi hann að fara í úlpu,“ segir Guðmundur.

Guðmundur og Þuríður Blær Jóhannsdóttir ásamt syni sínum.
Guðmundur og Þuríður Blær Jóhannsdóttir ásamt syni sínum.

„Þetta gerum við aldrei aftur“

Guðmundur segir það hafa verið stórmerkilega upplifun að hafa fylgt Blævi í gegnum fæðinguna. „Ég mun aldrei gleyma augnablikinu þegar ég horfði í augun á Arnaldi og fylgdist með honum byrja að anda. En ferlið var langt og erfitt og í raun áfall fyrir Blævi. Hvernig hún fór að þessu skil ég ekki, enda sagði hún beint eftir fæðinguna: „Þetta gerum við aldrei aftur“ og við dáumst bæði að fólki sem hefur eignast fullt af börnum,“ segir Guðmundur.

Hann segir það hafa líka verið skrítið að vera á hliðarlínunni og geta lítið hjálpa til. Hann gerði sitt besta til að sjá um Arnald á meðan Blær jafnaði sig eftir fæðinguna.

Guðmundur einangraðist svo sannarlega ekki félagslega eftir að hann varð pabbi, eins og hann óttaðist fyrst. Það kom honum á óvart hversu tilefnislaus sá ótti var.

„Með því að eignast barn stígur maður inn í risastórt samfélag foreldra sem öll hafa upplifað svipaða hluti. Ég get spjallað við hvaða foreldri sem er, hvort sem það er kunningi í matvörubúð eða ókunnug mamma á róló. Það er alltaf hægt að tala um börnin og uppeldi og ótrúlegt en satt finnst mér sjúklega gaman að tala um hvernig ókunnugum börnum gengur að læra á kopp eða hversu gömul þau voru þegar þau fengu leikskólapláss. Samfélag foreldra tekur manni opnum örmum og allir hafa gaman af því að hjálpa öðrum ráðþrota foreldrum. Þannig verða til ný og mun dýpri vinasambönd en þau sem mynduð eru á skemmtistöðum,“ segir Guðmundur.

Sonurinn kennt honum margt

Föðurhlutverkið er margslungið en það besta við að vera pabbi segir Guðmundur vera að fá að vera persónulegur leiðsögumaður sonar síns um þennan flókna heim.

Arnaldur Snær er tveggja ára og elskar gröfur.
Arnaldur Snær er tveggja ára og elskar gröfur.

„Upplifun hans á tilverunni, uppfull af undrun og uppgötvunum, hefur kennt mér að horfa öðruvísi á heiminn í kring um mig. Það mikilvægasta sem hann hefur kennt mér (enn sem komið er) er að njóta augnabliksins. Í stað þess að strunsa með kerruna um bæinn leyfi ég mér að setjast niður og horfa á endurnar á Tjörninni í nokkrar mínútur áður en við höldum göngu okkar áfram í leit að nýjum og spennandi upplifunum. Eins og til dæmis gröfum. Hann elskar nefnilega gröfur,“ segir Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »