Speglar sig og fjölskyldu sína í útköllum slökkviliðsins

Magnús Stefánsson er mikill fjölskyldumaður.
Magnús Stefánsson er mikill fjölskyldumaður. Samsett mynd

Magnús Stef­áns­son er önn­um kaf­inn ung­um maður. Hann starfar sem slökkviliðs- og sjúkra­flutn­ingamaður sam­hliða föður­hlut­verk­inu. Magnús á von á sínu öðru barni með unn­ustu sinni, Heiðu Sigrún­ar­dótt­ur sjúkraþjálf­ara, með vor­inu, en fyr­ir á parið dótt­ur sem verður þriggja ára göm­ul á kom­andi vik­um.

Margt hefur breyst í lífi Magnúsar á síðastliðnum árum. Hann varð faðir og breytti um stefnu þegar hann sótti um hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, en Magnús er útskrifaður íþróttafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík. Hann segir föðurhlutverkið auka ábyrgðartilfinningu sína og það nýtist honum án nokkurs vafa í heimilis- og atvinnulífinu.

11 ár að finna ástina

Magnús og Heiða kynntust fyrst þegar þau unnu saman sem sumarstarfsmenn hjá Gróðrarstöðinni Þöll. Það var árið 2007, fyrir 17 árum. Þau eyddu fjórum sumrum þar og tókst með þeim góð vinátta. „Á þessum árum varð til góður vinahópur af Þallar-sumarstarfsmönnum sem hélt áfram að hittast og þannig héldum við vinskapnum við,“ segir Magnús, en það tók nokkur ár fyrir hann og Heiðu að finna ástina. „Ég og Heiða höfum alltaf náð mjög vel saman en það var ekki fyrr en árið 2018 sem við ákváðum að troða nýjar slóðir og í dag erum við trúlofuð og eigum von á öðru barni okkar,“ útskýrir hann.

Magnús nýtur hverrar mínútu með fjölskyldu sinni.
Magnús nýtur hverrar mínútu með fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurður segir Magnús að barneignir hafi verið ofarlega á óskalista parsins frá byrjun og sig hafi dreymt um að verða faðir í langan tíma. „Það var langur aðdragandi að því að verða faðir. Við Heiða vorum búin að reyna að eignast barn í þó nokkurn tíma og enduðum á að leita okkur aðstoðar hjá Livio,“ útskýrir hann, en það tók parið ekki langan tíma að verða barnshafandi eftir meðferð hjá fyrirtækinu sem sérhæfir sig í glasafrjóvgunarmeðferðum.

„Livio-ferlið tók ekki langan tíma þegar það loksins byrjaði. Biðin eftir meðferðinni var margir mánuðir og einn erfiðasti parturinn, en í bæði skiptin hefur þetta gengið upp í fyrstu atrennu hjá okkur og teljum við okkur ótrúlega lánsöm,“ segir Magnús. „Maður heyrir reglulega af pörum sem fara í gegnum ótal meðferðir og jafnvel án árangurs, það er erfitt að ímynda sér það.“

Fyrstu vikurnar huldar bleikri slæðu

Dóttir Magnúsar og Heiðu kom í heiminn 16. mars 2021 og lýsir Magnús fæðingunni sem „sannkallaðri rússíbanareið“. „Þetta var stressandi og spennandi,“ segir hann, en þessar fyrstu vikur heima við með nýbura eru huldar bleikri slæðu.

„Ég uppgötvaði þó snemma að erfiðu stundirnar sem fylgja því að fá lítið barn í umsjá sína eiga það til að gleymast jafnóðum. Eftir sitja aðeins minningar um dásamlega rólegheitatíma með konu og barni sem er mjög auðvelt að mæla með,“ segir Magnús.

Bára kom í heiminn hinn 16. mars 2021.
Bára kom í heiminn hinn 16. mars 2021. Ljósmynd/Aðsend

Ertu kominn yfir svefnleysið?

„Við erum afar lánsöm. Báran okkar var og er ansi þægileg varðandi svefn. Hún vaknaði vissulega á nóttunni til að drekka, en hún og móðir hennar sinntu því yfirleitt og sofnuðu svo jafnskjótt aftur og verkefninu lauk. Þannig að hvorki ég né Heiða höfum fengið að kynnast einhverju óbærilegu svefnleysi tengdu barni.“

Magnús leggur mikla áherslu á að kenna dóttur sinni að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig, eða gullnu regluna í mannlegum samskiptum. „Við leyfum henni að prófa sig áfram og reka sig á veggi en við leggjum mikla áherslu á kærleika og heiðarleika. Það skiptir mig líka máli að hvetja hana til að stækka þægindaramma sinn,“ segir Magnús.

„Hún er mjög montin“

Magnús byrjaði að starfa hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu snemma árs 2022. Hann segir dóttur sína mjög montna yfir starfi föður síns, enda eru slökkviliðsmenn vinsælir hjá börnum á öllum aldri og ekki leiðinlegt fyrir ungu stúlkuna að heimsækja pabba á vinnustaðinn og kíkja upp í slökkviliðsbílinn.

Báru finnst ekki leiðin­legt að bjóða vin­um og vanda­mönn­um í …
Báru finnst ekki leiðin­legt að bjóða vin­um og vanda­mönn­um í heim­sókn á vinnustað föður síns. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er að vera faðir og slökkviliðsmaður?

„Það er mjög gaman. Erfiðast er að fylgja ekki hinu hefðbundna vinnu- og leikskólamynstri varðandi viðveru foreldris. Það voru mikil viðbrigði að koma úr fæðingarorlofi þar sem við vorum saman allan daginn yfir í það að hitta ekki dóttur mína vakandi í þrjá sólarhringa þegar ég var á helgardagvöktum.“

Hvernig er að sinna svona starfi með fjölskyldu?

„Maður speglar oft sjálfan sig og fjölskyldu sína í útköllunum sem við sinnum, en ég lít ekki á það sem ókost. Starfið hefur hjálpað mér heima við, en þegar dóttir mín fékk croup-hósta þá var ég nýbúinn að læra um hann í náminu fyrir sjúkraflutningana og það hjálpaði okkur foreldrunum heilmikið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert