„Móðurhlutverkið er jafnyndislegt og það er krefjandi“

Nadia Margrét Jamchi og frumburðurinn Metta.
Nadia Margrét Jamchi og frumburðurinn Metta. mbl.is/Árni Sæberg

Nadia Margrét Jamchi sjúkraþjálfari eignaðist sitt fyrsta barn í fyrra með sambýlismanni sínum Pétri Andreasi Maack. Hún hefur mikinn áhuga á kvenlíkamanum og jókst sá áhugi þegar hún gekk með dóttur sína. Nadia Margrét sótti mömmutíma eftir fæðinguna og nú kennir hún slíka tíma.

„Lífið breyttist ótrúlega mikið en á sama tíma fannst mér svo náttúrulegt ferli að verða móðir, skrítið að hugsa til þess að Metta hafi ekki alltaf verið hluti af lífi okkar. Ég hef alltaf verið með marga bolta á lofti, verið dugleg í félagslífi og haft gaman af því að hreyfa mig – að sleppa tökum á því öllu og fá barn í fangið voru að sjálfsögðu mikil viðbrigði. Allt í einu sit ég við brjóstagjöf og er orðin móðir í fullu starfi en á sama tíma saknar maður þess að vera úti um allt með heilmikið í gangi. Sérstaklega þegar lífið heldur áfram hjá öllum öðrum í kringum mann. Það dregur mann klárlega niður á jörðina að eignast barn og minnir mann á hvað er mikilvægt í lífinu. Stundum verður maður þungur andlega, meðal annars vegna svefnleysis, hormónabreytinga, krefjandi aðstæðna, einmanaleika og svo framvegis. Ég fann það fljótt að það hjálpaði mér andlega að hafa eitthvert verkefni yfir daginn, komast á æfingu, hitta eða hringja í vini og fjölskyldu þó að það væri ekki alltaf orka til þess,“ segir Nadia Margrét.

Meðgöngujóga var góður undirbúningur

Hvernig gekk meðgangan?

„Meðgangan gekk vel. Fyrsti þriðjungurinn einkenndist af mikilli þreytu og ógleði en mér fannst ég sleppa ágætlega. Strax á 11. viku var mér farið að líða betur og orkan komin aftur. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa getað haldið áfram að hreyfa mig á meðgöngunni eins og áður ásamt því að vinna sem sjúkraþjálfari og halda áfram að kenna hóptíma í Hreyfingu. Þegar leið á meðgönguna byrjaði ég í meðgöngujóga hjá Jógasetrinu sem var æðislegt og góður undirbúningur fyrir fæðinguna, fyrst og fremst andlega. Síðasta þriðjunginn fór ég smám saman að minnka meira við mig. Ég fékk grindarverki á 35. viku og hætti þá fljótlega að vinna.“

Dóttir Nadiu Margrétar fór að gera vart við sig rétt fyrir settan dag. Nadia Margrét segir að fæðingin hafi tekið mun lengri tíma en hún hefði getað ímyndað sér og hlær.

„Ég byrjaði með hríðir klukkan fimm um morguninn fyrir settan dag. Allur dagurinn fór í það að hvíla mig og reyna að horfa á eitthvað þó að ég næði lítið að fylgjast með neinu almennilega. Mamma kom og veitti mér félagsskap þangað til Pétur var búinn í vinnunni. Hríðirnar jukust mikið um kvöldið og við fórum upp á spítala um klukkan átta um kvöldið. Ég var með þrjár yndislegar ljósmæður á Landspítalanum og eftir 30 klukkustundir í hríðum gekk allt vel. Litla daman kom í heiminn morguninn eftir, á settum degi. Ég hef stundum grínast með að hún verði jafn skipulögð og mamma hennar,“ segir hún og brosir.

Nadia Margrét hefur mikinn áhuga á kvenlíkamanum og hefur áhuginn …
Nadia Margrét hefur mikinn áhuga á kvenlíkamanum og hefur áhuginn bara aukist eftir að hún varð móðir. mbl.is/Árni Sæberg

Hreyfing er langoftast örugg

Hvað þurfa konur að hugsa um á meðgöngunni og eftir fæðinguna?

„Bæði meðganga og fæðing getur verið svo ótrúlega misjöfn á milli kvenna og mikilvægt að hver og ein hugi að því hvaða hreyfing henti henni best,“ segir Nadia. Hún segir að konum sé ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti í 150 mínútur á viku af miðlungsákefð en það þýðir að fá púlsinn upp og svitna en geta samt spjallað á meðan. „Þær sem hafa verið að æfa fyrir meðgöngu geta yfirleitt haldið sömu hreyfingu áfram en aðlagað þegar líður á meðgönguna. Konur sem hafa ekki stundað hreyfingu fyrir meðgöngu ættu að huga að stigvaxandi þjálfun. Hreyfing á meðgöngu er langoftast örugg og æskileg og mikilvægt að konur viðhaldi reglulegri hreyfingu nema um fylgikvilla, sjúkdóma eða frábendingar séu að ræða. Þá er gott að ráðfæra sig við lækni, ljósmóður eða sjúkraþjálfara og mögulega nýta sér hópþjálfun eins og meðgöngusund, meðgöngujóga og meðgönguleikfimi.“

Nadia Margrét segir æskilegt að konur viðhaldi heilbrigðum lífstíl eftir fæðingu og hafi einstaklingsbundna og stigvaxandi þjálfun í huga. „Það skiptir meðal annars máli hvernig fæðingar konur áttu varðandi hvenær er æskilegt að hefja þjálfun. Almennt er mælt með að hefja þjálfun sex vikum eftir fæðingu ef þú áttir leggangafæðingu en 10-12 vikum síðar ef þú áttir keisarafæðingu. Það er þó mjög misjafnt milli kvenna og ýmislegt hægt að gera fljótlega eftir fæðingu, um leið og konur treysta sér til. Fyrstu vikurnar snúast fyrst og fremst um að jafna sig eftir fæðinguna, taka stöðuna á grindarbotnsspennu og slökun, tengjast kviðvöðvum aftur og byrja á stuttum göngutúrum. Það er rosalega misjafnt hvernig konum gengur að jafna sig eftir fæðingu og mikilvægt að hlusta á sinn líkama.“

Byrjaði á mjög stuttum göngutúr

Hvernig hreyfðir þú þig á meðgöngunni?

„Ég hélt áfram með mína rútínu eftir að ég varð ólétt sem er mjög fjölbreytt. Kenndi og fór sjálf í mismunandi hóptíma ásamt því að fara í fjallgöngur og út að skokka. Ég fór svo að draga úr ákefðinni eftir því sem leið á meðgönguna, hætti til dæmis að hoppa og hlaupa þegar ég fór að finna fyrir þrýstingi eða óþægindum í grindinni. Síðustu vikurnar æfði ég sjálf, aðallega styrktaræfingar jafnfætis þar sem ég var komin með grindarverki og erfiðara að vinna á öðrum fæti.“

Hvernig gekk að koma þér af stað eftir fæðingunni?

„Ég var mjög þreytt eftir fæðinguna og orkan fór aðallega í að hugsa um ungbarnið mitt. Ég fór í fyrsta göngutúrinn fimm dögum eftir fæðingu. Hann var mjög stuttur og ég var alveg búin á því eftir hann. En orkan fór svo fljótlega að koma aftur og göngutúrarnir fóru að lengjast og hraðinn að aukast. Þremur til fjórum vikum eftir fæðingu var ég orðin þreytt og stundum verkjuð í mjóbakinu og fann að það var mikilvægt fyrir mig að huga að því að styrkja mig. Ég byrjaði á léttum hreyfiteygjum og styrktaræfingum með eigin líkamsþyngd. Æfingarnar voru stuttar og endurtekningarnar fáar. Rúmlega fimm vikum eftir fæðingu fór ég að mæta í mömmutíma hjá sjúkraþjálfara tvisvar sinnum í viku. Það var mjög gott að komast á æfingu hjá einhverjum sem maður treystir og veitir góða fræðslu þar sem maður er svolítið annars hugar á þessum tíma og ég hefði auðveldlega getað farið mjög geyst af stað. Mér fannst einnig mikilvægt að komast aðeins út úr húsi og geta tekið Mettu með mér á æfingar ásamt því að hitta aðrar konur á svipuðum stað og ég.“

Lengi haft áhuga á kvenlíkamanum

„Ég hef haft áhuga á því að vinna með konum á og eftir meðgöngu síðan ég var í náminu en áhuginn jókst klárlega eftir að ég fór sjálf í gegnum þetta ferli. Ég er einnig skautaþjálfari þannig að ég hef unnið mikið með skauturum. Þar eru kvenkyns iðkendur í meirihluta og þar tengjast stoðkerfisvandamál oft mjaðmagrindinni. Mér finnst kvenlíkaminn alveg magnaður og mikilvægt að við fáum viðeigandi fræðslu um líkamlega og andlega heilsu til að hjálpa okkur í gegnum þetta tímabil.“

Er eitthvað eitt sem heillar þig sérstaklega við hvernig líkaminn breytist við meðgöngu og fæðingu?

„Það er náttúrlega alveg magnað að konur geti gengið með börn og fætt þau, mér hefur aldrei liðið eins og jafnmikilli ofurhetju og þegar ég eignaðist barnið mitt. Ég held að það sé líka viðhorfið sem maður hefur gagnvart líkama sínum, þegar ég deildi líkamanum með öðrum einstaklingi fékk það mig til að bera meiri virðingu fyrir því hvernig mér leið. Svefn, næring, hreyfing og andleg heilsa skiptir ekki aðeins máli fyrir okkur sjálfar, heldur líka barnið og líkaminn segir okkur fyrr hvenær þarf að stoppa og aðlaga hlutina. Sem er auðvitað líka pínu galið en ég held að margar konur kannast við pressuna að vera með allt á hreinu alltaf en leyfa sér að stoppa, líta inn á við og hugsa betur um sig á meðgöngunni. Mér finnst svo fallegt þegar konur tala vel um líkamann sinn.“

Blanda af gleði og sorg að fara að vinna

Hvað er það skemmtilegasta við það að vera mamma?

„Vá, það er svo margt. Það fyrsta sem kemur í hugann er að fylgjast með barninu sínu vaxa og þroskast. Maður er svo stoltur af hverju einasta smáatriði sem hún nær að framkvæma. Síðan er það líka bara viðbrögðin hennar og gleðin sem fylgir henni og smitast til allra í kringum hana – bros, knús, klapp, dans sem fer alltaf beint í mömmuhjartað. Það er ólýsanlegt að eignast barn og elska það strax skilyrðislaust.“

En það erfiðasta?

„Móðurhlutverkið er jafn yndislegt og það er krefjandi. Það reynir gríðarlega á þolinmæðina þegar lítill einstaklingur fer að stýra sólarhringnum manns. Svefnlausu næturnar hafa verið erfiðar og hafa áhrif á andlega líðan. Ég held að það sé líka það að mann langar að standa sig 150% í þessu hlutverki alltaf sem er bara mjög óraunhæft. Mæður eru langoftast að reyna sitt besta og við þekkjum börnin best. Að mínu mati getur verið erfitt að sleppa tökum á þessari fullkomnunaráráttu og muna að njóta augnabliksins. Ég ætla mér stundum aðeins of mikið, til dæmis í lúrunum hennar Mettu, þá ætla ég að taka til, setja í þvottavél, taka æfingu, senda tölvupóst og fá mér að borða og áður en ég er búin með helminginn er hún vöknuð og ég svaka fúl yfir því hvað ég náði að gera lítið. Ég er orðin betri í því og meðvitaðri um það að vera á staðnum en ekki alltaf að þjóta í næsta verkefni þó að það komi enn þá fyrir. Kannski líka að sleppa tökunum á því að lífið verði ekki nákvæmlega eins og það var áður en ég eignaðist barn. Það þarf að forgangsraða verkefnum og maður nær ekki alltaf að gera allt sem mann langar til.“

Hvernig er tilfinningin að fara að vinna aftur?

„Blendin, það er ótrúlega gott að komast aftur í rútínu og vinna við það sem maður hefur gaman af. Ég held að margar tengi við það að það sé gott að fá smá pásu og fá sér kaffi í ró og næði! En auðvitað langar mig líka að eyða öllum stundum með þessari litlu mannveru sem vex og dafnar svo hratt. Ég held að það sé oft pínu blanda af gleði og sorg þegar kemur að svona tímamótum. Það er yndislegt að fá að vera einstaklingurinn sem maður var fyrir móðurhlutverkið en móðurhlutverkið er líka best í heimi. Ég hef náð að byrja vinna smám saman aftur eftir fæðingarorlof og það hefur verið mjög þægilegt ferli. Það er líka ótrúlega gefandi að fá að vinna núna með mæðrum, bæði í sjúkraþjálfun og mömmutímum hjá Sjúkraþjálfun Íslands, heyra um reynslu þeirra og aðstoða þær.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert