Réði píanóleikara til að vekja börnin

Í desembermánuði vaknar fjölskylda Kim Kardashian við ljúft undirspil píanóleikarans …
Í desembermánuði vaknar fjölskylda Kim Kardashian við ljúft undirspil píanóleikarans Philips Cornish. Samsett mynd

Svo virðist sem vekjaraklukkan á heimili athafnakonunnar Kim Kardashian hljómi aðeins öðruvísi en á flestum heimilum, en Kim hefur nú ráðið píanóleikara til þess að vekja fjölskylduna með ljúfum jólatónum yfir hátíðirnar. 

Á fyrsta degi desembermánaðar vöknuðu Kim og börnin hennar fjögur, þau North, Saint, Chicago og Psalm, við undirspil píanóleikarans og Grammy-verðlaunahafans Philip Cornish. 

Kim birti myndskeið á Instagram-reikningi sínum þar sem Cornish sat við hvítan flygil og spilaði jólalög. „Phil Conish kemur á hverjum morgni til að vekja börnin mín með því að spila á píanó á annasömum morgnum til að róa litlu sálir þeirra og fylla þær með fallegum jólalögum,“ skrifaði Kim við myndskeiðið. 

Skjáskot/Instagram

Notar ríka fólkið ekki Spotify?

Kim er ekki óvön því að fá bæði mikla athygli og gagnrýni frá netverjum, en mörgum þótti hún nú vera algjörlega komin úr sambandi við raunveruleikann. 

„Jæja, er það ekki æðislegt að Kim Kardashian borgi einhverjum fyrir að spila á píanó og vekja börnin sín á morgnanna. Hvað er að því að segja börnum bara að fara fram úr rúminu?!,“ skrifaði einn netverji á Twitter. „Ég býst við því að ríkt fólk noti ekki Spotify,“ skrifaði annar. 

Þó margir hafi séð kímna hlið málsins voru aðrir sem gagnrýndu Kim harðlega og sökuðu hana um að reyna að beina athygli fólks frá nýlegum skandal tískuhússins Balenciaga, en Kim hefur verið í samstarfi við tískurisann í nokkur ár. 

mbl.is