„Ógeðfelld“ auglýsing Balenciaga vekur reiði

Herferð Balenciaga hefur verið harðlega gagnrýnd.
Herferð Balenciaga hefur verið harðlega gagnrýnd. Ljósmynd/Twitter

Franska tískuhúsið Balenciaga hefur verið sakað um að kyngera börn og gera barnaníðsefni hátt undir höfði í auglýsingaherferð fyrir vorlínu tískuhússins. Balenciaga hefur beðist afsökunar á herferðinni og hefur tilkynnt að fyrir dyrum standi málshöfðun gegn framleiðslufyrirtækinu North Six og hönnuði herferðarinnar, Nicholas Des Jardins.

Á myndum fyrir herferðina má sjá börn halda á böngsum sem klæddir eru í netaboli og leðurólar, líkt og notað er í BDSM. Tískuhúsið hefur verið gagnrýnt harðlega en Kim Kardashian hefur meðal annars látið í sér heyra vegna herferðarinnar. 

Herferðin fyrir vorlínuna fór af stað í síðustu viku, en þá strax þurfti Balenciaga að draga til baka nokkrar myndir. Á einni af fyrstu myndinni sást umdeildur dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna um barnaníðsefni, Bandaríkin gegn Williams frá árinu 2008. Úrskurðaði Hæstiréttur þá að rafræn dreifing á barnaníðsefni væri ekki brot gegn fyrsta viðauka bandarísku  stjórnarskrárinnar. Fyrsti viðaukinn tryggir þegnum í Bandaríkjunum m.a. trúfrelsi, tjáningarfrelsi og fundafrelsi.

25 milljónir í skaðabætur

Balenciaga fer fram á 25 milljónir bandaríkjadala í skaðabætur frá North Six og Des Jardins fyrir að birta falska tengingu á milli tískuhússins og hæstaréttardómsins. 

Þá kemur fram í málshöfðun Balenciaga að ákvarðanir um auglýsingar hafi verið teknar án vitundar stjórnenda tískuhússins.

Umboðsmaður Des Jardins vísar ásökunum Balenciaga á bug í viðtali við Washington Post og sagði að útprent af dómnum hafi komið frá aðila sem leigir út leikmuni. „Allir frá Balenciaga voru með í tökunum og unnu myndirnar,“ sagði lögmaðurinn Gabriela Moussaieff.

Börn með vínglös

Herferðin hefur sannarlega valdið Balenciaga miklum vandræðum því fyrr í nóvember dró tískuhúsið aðra auglýsingaherferð til baka. Það var auglýsingaherferðin Toy Stories. 

Ljósmyndarinn Gabriele Galimberti tók myndirnar og sótti innblástur í fyrri verk sín, en hann er hvað þekktastur fyrir að taka myndir af börnum með dótið sitt. Nema í herferð Balenciaga sátu börnin umkringd vínglösum, með leðurklædda bangsa í netabolum. Sú auglýsing var tekin til baka og baðst Balenciaga líka afsökunar á þeim myndum.

Í tilkynningu sagðist Galimberti ekki hafa stjórnað því hvað var á myndunum sem hann tók, hann hafi tekið þær samkvæmt fyrirmælum Balenciaga. Enn fremur tók hann fram að hann hefði ekki tekið myndina þar sem sást í hæstaréttardóminn.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda