Telur óléttuna hafa hjálpað sér

Meghan Trainor verður í auglýsingu Pringles fyrir Ofurskálina 2023.
Meghan Trainor verður í auglýsingu Pringles fyrir Ofurskálina 2023. Skjáskot/Instagram

Söngkonan Meghan Trainor telur að sú staðreynd að hún ber barn undir belti hafi hjálpað henni að fá hlutverk í Pringles-auglýsingu fyrir Ofurskálina 2023. Trainor gengur nú með sitt annað barn, en fyrir á hún soninn Riley með eiginmanni sínum Daryl Sabara leikara.

„Ég held að börn færi manni lukku. Ég held það klárlega því tveimur vikum eftir að ég komst að því að ég væri ólétt fengum við upphringinu. Pringles hringdi og spurði hvort ég vildi vera í stóru auglýsingunni þeirra fyrir leikinn. Og ég sagði bara „Ég? Eruði viss?“. Ég fór að gráta,“ sagði Trainor í viðtali við People.

Ofurskálin í NFL-deildinni fer fram á sunnudag og er alltaf mikil lagt í auglýsingar í kringum leikinn.

„Ég fór að gráta og hringdi í fjölskylduna mína. Bræður mínir eru miklir íþróttaáhugamenn og þeir voru mjög spenntir. Það er eins og ég hafi unnið Grammy-verðlaun aftur. Þetta var eitt besta símtal lífs míns,“ sagði Trainor.

mbl.is