Ákveðið áfall að fara í keisara

Steinunn Edda með frumburðurðinum Sigga sem kom í heiminn á …
Steinunn Edda með frumburðurðinum Sigga sem kom í heiminn á dramatískan hátt í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Steinunn Edda Steingrímsdóttir býr í Hlíðunum með unnusta sínum Jónasi Elvari Halldórssyni og drengjunum þeirra tveimur, Sigurði Sævari sjö ára og Guðmundi Þór tveggja ára. Synirnir eru hennar lífsins lukka en Steinunn Edda hefur þó ekki bara svifið um á bleiku skýi síðan frumburðurinn kom í heiminn.

Steinunn Edda segir að hún hafi litið lífið allt öðrum augum eftir að hún varð móðir og allt hafi breyst. „Ég upplifði líka nýjar tilfinningar sem ég hafði aldrei fundið áður og vissi hreinlega ekki að ást gæti verið svona rosalega stór og sterk þó svo að ég elskaði allt fólkið mitt fyrir barneignir ofboðslega mikið,“ segir Steinunn Edda.

„Mér fannst það rosalegt stökk að fara úr einu barni yfir í tvö en það er kannski af því að þeir bræður eru svo ofboðslega ólíkir. Minn eldri svaf alltaf alla nóttina, var eins og hugur manns og lét aldrei neitt fara fyrir sér, svo mætti yngri með látum og er ein virkasta manneskja sem að ég hef kynnst. Algjör grallari og orkubolti svo ég hreinlega kunni ekki alveg á þennan persónuleika,“ segir Steinunn Edda. „Ég elska hvað þeir eru ólíkir því þeir eru báðir svo stórkostlegar mannverur, svo skemmtilegir og fyndnir og það er rosalega gaman að fá að prófa að ala upp svona mismunandi týpur.“

Steinunn Edda og Jónas Elvar eiga synina Sigurð Sævarr og …
Steinunn Edda og Jónas Elvar eiga synina Sigurð Sævarr og Guðmund Þór. Ljósmynd/Aðsend

Fæðingarnar mjög ólíkar

„Báðar meðgöngurnar gengu þannig séð mjög vel, ég framleiði frekar stór börn miðað við mína hæð svo að kúlan var í bæði skiptin orðin ansi stór og þung undir lokin. En ég hef sloppið að mestu leyti við ógleði og erfiða löngun og tel mig bara einstaklega heppna með meðgöngur,“ segir Steinunn Edda þegar hún var spurð út í meðgöngurnar. Hún var hins vegar ekki alveg jafn heppin með fyrri fæðinguna.

„Fyrri fæðingin gekk ekki alveg nógu vel, en allt er gott sem endar vel og við sluppum bæði lifandi frá þessu svo ég hef ákveðið að segja að hún hafi endað vel. Ég eignaðist eldri strákinn minn í Kaupmannahöfn þar sem ég lenti í læknamistökum í bráðakeisara og enda í stórri aðgerð eftir keisarann og lá inni á gjörgæslu í um hálfan mánuð. Strákurinn minn var fullkominn og þetta hafði engin líkamleg áhrif á hann og fyrir það er ég alltaf þakklát.

Mér fannst mjög skrítið að fara í keisara og ég held að allir upplifi það. Maður fer held ég alltaf inn í fæðingu haldandi að maður sé bara að fara að fæða í gegnum leggöngin eins og maður sér í bíómyndum. Maður gerir ráð fyrir að þetta verði vont og erfitt en svo verði bara allt í lagi. Svo ég held að það að fara í keisara sé alltaf ákveðið áfall, því það er líka bara lítið talað um það finnst mér, maður fer svolítið týndur inn á þessa skurðstofu. Annars man ég mest lítið eftir þessu ferli ef ég á að vera hreinskilin, sem er held ég bara ágætt,“ segir Steinunn Edda. 

„Yngri minn kom ekki með keisara en kom eftir langan rembing og gangsetningu. Allt gekk mjög vel þó að það hafi gengið hægt fyrir sig og það var ótrúlega gaman að fá að upplifa þetta án þess að það væri hamagangur og hræðsla í gangi. Ég var undirbúin undir það að þurfa mögulega að fara í keisara aftur og ég var í góðum samskiptum við lækna og ljósmæður sem pössuðu að ég væri í rosalegu eftirliti og það yrði gripið snemma inn ef ég þyrfti að fara í keisara aftur til að sleppa við æsinginn,“ segir Steinunn Edda sem upplifði sig mjög örugga í seinni fæðingunni.

Það reyndi á að eignast barn í heimsfaraldri.
Það reyndi á að eignast barn í heimsfaraldri. Ljósmynd/Aðsend

Faraldurinn reyndi á

„Ég er alveg á því að við þurfum að vera miklu duglegri að tala um andlega heilsu og ég fagna því svo innilega hvað mér finnst umræðan vera að opnast rosalega síðustu ár um þessi málefni. Mér leið alveg skelfilega andlega í langan tíma eftir fyrri fæðinguna, það læddist aftan að mér þegar bleika skýið dofnaði aðeins og hversdagsleikinn tók við en ég var greind með áfallastreituröskun og mikinn kvíða. Ég hef verið reglulega hjá sálfræðingum alveg síðan 2016 og hef þurft að fara á kvíðalyf í smá tíma til að ná að koma mér yfir verstu tímabilin. Ég upplifði það svo að þessi kvíði og áfallastreituröskunin hálfhvarf þegar ég átti minn yngri. Það er eins og þessi góða upplifun af fæðingu hafi leyft sárinu eftir hina upplifunina að gróa,“ segir Steinunn Edda.

Þó svo að upplifunin af seinni fæðingunni hafi verið góð voru aðrir þættir sem höfðu slæm áhrif á hana andlega en hún var ólétt í kórónuveirufaldrinum.

„Ég var að vinna hjá Icelandair sem flugfreyja þegar ég varð ólétt að mínum yngri og komin í fæðingarorlof þegar kórónuveirufaraldurinn skall á en maður hættir að fljúga mjög snemma á meðgöngu. Mér var sagt upp ásamt nánast öllum samstarfsfélögum mínum vegna faraldursins, svo óvissan var mjög mikil. Hræðslan við kórónuveiruna alveg í byrjun var rosaleg, sérstaklega þar sem ég var ólétt því það var mikið talað um að það væri ekki vitað hvaða áhrif þetta hefði á óléttar konur, allt í einu var ég atvinnulaus í fæðingarorlofi, í heimsfaraldri.

Mikil röskun varð á leikskólastarfi hjá eldri stráknum mínum og mikil einangrun. Þetta var bara ótrúlega erfitt og ég dáist rosalega að öllum konum sem voru óléttar eða áttu börn í þessum faraldri því þetta var ekkert grín. Það var mikil einvera í öllum skoðunum, spítalaheimsóknum, fæðingunni sjálfri og sængurlegunni, engir mömmuhittingar sem geta gert mikið fyrir andlega heilsu og einmanaleika, ekkert hægt að rölta um og kíkja á kaffihús, ekkert meðgöngujóga eða mömmuleikfimi, svona þessar gulrætur sem fylgja því að vera í orlofi. Lítið um heimsóknir frá fjölskyldu og vinum sem gerði það að verkum að maður var mikið einn. Ég er mikil félagsvera og þetta tók virkilega á mig og ég varð mjög þung andlega. Ég er sem betur fer búin að vera dugleg síðasta árið að vinna í þessu og leita mér aðstoðar og horfi mjög bjart fram á veginn núna,“ segir Steinunn Edda.

Fjölskyldan á góðri stund.
Fjölskyldan á góðri stund. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hika við að biðja um hjálp

Hvað hefur verið mest gefandi í foreldrahlutverkinu?
„Að eiga tvo dásamlega hamingjusama, klára, skemmtilega og fallega drengi með manninum mínum er mín lífsins lukka. Auðvitað getur þetta verið óþolandi og þetta er án efa það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu, pressan og stressið sem fylgir því að ala upp einstakling sem er framlenging af þér og þú þarft að skila af þér í samfélagið er rosaleg. En maður minn hvað það eru mikil forréttindi að fá að eiga þá og verða samferða þeim í lífinu, að sjá þá hlæja og líða vel er besta tilfinning í heimi,“ segir hún.

Steinunn Edda segir ótrúlegt hvað móðurhlutverkið kom eðlilega en viðurkennir að hún hafi verið töluvert öruggari þegar hún fór heim af fæðingardeildinni í annað sinn. „Mér fannst ekkert mál að fara heim með barn númer tvö af fæðingardeildinni, mér fannst ég mjög örugg og lítið sem kom mér á óvart. Ég fann hvað ég náði að njóta betur þessa fyrstu mánuði með barn númer tvö því það er ótrúlegt hvað öryggið hefur mikil áhrif. Maður er auðvitað bara taugahrúga þegar maður er að gera þetta í fyrsta skipti og allt er nýtt og það er svo eðlilegt, en þá er bara um að gera að spyrja og fá hjálp.“

Ertu með einhver ráð fyrir verðandi eða nýbakaðar mæður?

„Ég held að eina ráðið sem ég get gefið sé að fylgja innsæinu alltaf, biðja um hjálp þegar þú þarft á henni að halda án þess að hika, og muna að þetta verður betra, þetta líður hjá, þetta verður auðveldara, þegar maður er að bugast,“ segir Steinunn Edda að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert