„Ég er ansi þakklát börnunum mínum“

Það er mikið líf og fjör á heimili Hlífar en …
Það er mikið líf og fjör á heimili Hlífar en hér má sjá Jökul þriggja ára á fullu og dótturina Anítu níu ára við hlið móður sinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlín Magnúsdóttir Njarðvík á þrjá fjöruga og skemmtilega krakka sem hafa kennt henni ótal margt sem nýtist í starfinu. Á milli þess sem Hlín sinnir fjölskyldunni og starfi deildarstjóra stoðþjónustu í Helgafellsskóla deilir hún fjölbreyttum kennsluaðferðum á netinu.

Þegar Hlín var yngri vann hún mikið með börnum svo það kom ekki á óvart að hún hefði valið sér starfsferil á því sviði. „Kennaradraumurinn sjálfur kviknaði ekki fyrr en í háskólanáminu. Ég var í sálfræði og ég vissi að mig langaði ekkert rosalega mikið að starfa sem sálfræðingur. Á síðasta árinu í náminu fór ég í námssálfræði og þá small eitthvað. Þarna átti ég heima, svo tek ég kennsluréttindin ári seinna og meistaragráðu eftir það,“ segir Hlín.

Hlín er ein af þessum kennurum sem eru með óbilandi áhuga á kennslunni og þróa kennsluhættina. Hún segir að neistinn fyrir starfinu hafi kviknað í fyrsta kennarastarfinu. „Ég starfaði sem kennari á meðferðarheimilinu Stuðlum, þar lærði ég hversu mikilvægt er að vera sveigjanleg sem kennari. Hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að grípa áhuga barnanna, nýta umræðuna í samfélaginu hverju sinni og flétta námið inn. En á sama tíma taka tillit til aðstæðna barnanna, hlusta á þau, ekki ýta á þau að óþörfu og leyfa þeim að ráða ferðinni að einhverju leyti. Það verður að huga að sálartetri barnanna líka, börn læra ekki þegar þeim líður illa og þau læra ekki af kennara sem þeim líður ekki vel hjá, svo að það verður alltaf að skapa virðingu, traust, sýna væntumþykju og virðingu og þá er eftirleikurinn mun auðveldari.“

Fyrir hverju brennur þú í skólastarfinu?

„Skemmtilegu námi, sem kveikir áhuga og forvitni, því sjálfsprottið nám er árangursríkasta námið. Einnig skiptir mig öllu máli að börn upplifi jákvætt námsumhverfi. Nemendur vilja námsumhverfi sem ýtir við þeim – þeir vilja áskoranir, en þeir vilja og þeir þurfa áhugahvetjandi áskoranir. Þeir vilja sjá tilgang í því sem þeir læra og það skiptir þau máli að þau séu að gera eitthvað sem nýtist þeim eða gæti mögulega nýst þeim í framtíðinni,“ segir Hlín.

Kennsla á hug og hjarta Hlínar.
Kennsla á hug og hjarta Hlínar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Börnin öll ólík

Hlín leggur áherslu á að börn séu ólík og það þurfi að vinna út frá þeirra þörfum. Hlín á sjálf þrjú börn á aldrinum þriggja til 12 ára með eiginmanni sínum Gunnari Lár Gunnarssyni. Hún bendir á að hún sé heppin hversu ólík þau eru.

„Þau hafa sína styrkleika og sína veikleika og það hefur gert mig að betri kennara að takast á við allskonar heima með krökkunum, til dæmis þolinmæði og skilning gagnvart börnum með taugaraskanir, mikilvægi áhugasviðsins, berjast við heimalesturinn, þessa reynslu fer ég svo með í skólann og get að miklu leyti tengt við foreldrana sem ég spjalla við daglega. Á sama tíma þá held ég að það hafi gert mig að betri mömmu að vera í skólakerfinu. Ég hef innsýn í kerfið sem börnin mín hrærast í alla daga. Ég hef reynslu og þekkingu sem ég hef aflað mér í gegnum nám og starf og börnin mín græða á því alla daga og ég græði á því að læra af börnunum mínum.

Svo eru tilviljanir lífsins svo ótrúlega skemmtilegar. Áður en ég eignaðist börnin mín þá hafði ég mikinn áhuga á þroska barna, taugaröskunum og sérkennslu. Ég sérhæfði mig í málþroska barna í náminu og málþroskaraskanir vöktu sérstakan áhuga hjá mér. Svo fyrir þremur árum eignaðist ég lítinn dreng sem síðan greinist með málþroskaröskun. Ég vil trúa því að ég hafi nú aldeilis verið að undirbúa komu þessa drengs í mörg ár þar sem málörvun og málþroskaraskanir toguðu svo rosalega fast í mig löngu áður en hann fæddist. Að auki á ég barn með ADHD sem hefur gefið mér innsýn í heim sem ég þekkti einungis í gegnum skólakerfið. Mér finnst það gefa mér einstaka innsýn að eiga börn með raskanir og sú reynsla er mér dýrmæt. Ég er ansi þakklát börnunum mínum.“

Þurfum við að breyta aðferðum okkar í lestrarkennslu og í málþroskaörvun?

„Þegar kemur að námi almennt þá þurfum við alltaf að hugsa um hvernig besta námsumhverfið er fyrir nemendur og í hvaða aðstæðum læra börnin best – og þetta á við um lestrarkennslu eins og aðra kennslu. Bæði foreldrar og fagfólk verða að hugsa hverjar eru forsendur barnanna til náms? Það þarf að prófa sig áfram, vera bara dugleg við að vera gagnrýnin á aðferðirnar sínar, ekki hika við að skipta út aðferðum ef þær eru ekki að virka. Gott að hafa í huga, ef það er fókusað á áhuga – getu – þroska barns þá er hægt að koma ansi vel til móts við barnið.

Sérstaklega þegar kemur að lestrarkennslunni þá er svo mikilvægt að til dæmis efla hljóðkerfisvitund, lestrarkennsla er svo mikið meira en tengja bókstafi saman. Við þurfum líka að hafa í huga hvernig hægt er að ýta undir áhuga barna á lestri og mikilvægi þess að taka tillit til þess hvar þau eru stödd í lestrarferli sínu. Við verðum að aðstoða börnin við að finna þær lestraraðferðir sem henta þeim, lestrarefni sem þau hafa áhuga á og lestrarefni sem þau vilja meira af,“ segir hún.

Kennsluaðferðirnar hafa þróast með börnunum.
Kennsluaðferðirnar hafa þróast með börnunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vissi ekki að hún væri skapandi

Hlín heldur úti vefsíðunni Fjolbreyttkennsla.is og samfélagsmiðlunum Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka, bæði á Facebook og Instagram. Hún segir að verkefnið hafi kviknað við eldhúsborðið eins og margar hugmyndir á heimili hjónanna. „Ég var búin að vera með þá hugmynd í kollinum að deila námsefni sem ég var að gera með fleiri kennurum, svona ef einhver hefði áhuga,“ segir Hlín sem segir að hægt og rólega hafi verkefnið sprungið út og orðið að samfélagi sem hafi gefið henni ótal tækifæri, hún hefur kynnst nýju fólk, haldið fyrirlestra og búið til eigið námsefni. Hún er einnig einn af stofnendum Leiksamfélagsins á Istagram.

Hlín bendir á að það sé minni þörf á gamla páfagaukalærdómnum og þá sérstaklega þar sem auðvelt er að nálgast upplýsingar í dag. Þó svo að ekki sé hægt að læra allt með hjálp tölvu og bendir á félagsfærni. Þegar Hlín var í skóla fékk hún töluvert öðruvísi kennslu en hún sinnir.

„Ég var óttalega bókamiðað barn þegar ég sjálf var í skóla. Ég vildi hafa mikla stýringu í náminu og var smeyk við að fara út fyrir kassann en það getur vel verið því skólaumhverfið sem ég var í bauð ekki upp á það. Ég vildi að ég hefði haft tækifæri til að þróa aðra þætti á grunnskólaaldrinum heldur en einungis bókleg fög, en það er svona það sem stendur mest upp úr hjá mér,“ segir Hlín spurð hvort hún hefði viljað fjölbreyttari kennsluaðferðir þegar hún var yngri.

„Ég hefði haft svo gott af því að fá að kynnast til dæmis tilfinningalæsi, félagsfærni, fá tækifæri til að efla sjálfstraustið og prófa mig áfram til að sjá hverjir mínir helstu styrkleikar voru. Enda var ég alveg steinhissa þegar ég áttaði mig á því að ég get verið ansi skapandi, hugmyndarík og hvað þá þegar ég áttaði mig á því að ég get talað fyrir framan fólk án þess að fara alveg í flækju. Ég hefði örugglega grætt ansi vel á því að átta mig á þessum eiginleikum mínum þegar ég var mun yngri. En það er aldrei of seint að læra á sjálfan sig.“

Hlín á fjöruga krakka en hún segir börn þurfa að …
Hlín á fjöruga krakka en hún segir börn þurfa að læra á sinn hátt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Námsefnið þróast með börnunum

Hvernig fer það saman að ala upp börn, vinna í skóla og deila fjölbreyttum kennslu- og uppeldisaðferðum með fólki á netinu?

„Ég segi nú oft að nám og kennsla sé eina sem ég kann, svo það passar bara vel að gera það sama heima og í vinnunni, hvetja börn áfram í gegnum forvitni þeirra og áhuga. Mér finnst ég svo heppin að fá að vinna við það sem mér finnst langskemmtilegast að gera og börnin mín hafa svo gaman af því sem ég er að gera. Það hjálpar auðvitað líka. Svo á maðurinn minn viðburðafyrirtæki og við höfum verið að draga hesta okkar saman og halda kennslutengda viðburði og allir krakkarnir okkar eru alveg hoppandi kátir með allt sem við gerum – svo það má nú segja að ég hafi náð að tengja vinnuna og fjölskylduna ansi nánum böndum. Það er fátt skemmtilegra en þegar dóttir mín kemur heim úr skólanum og segir að þau voru að vinna verkefni sem mamma gerði, jafnvel verkefni sem hún hjálpaði mér að gera.

Ég býst alltaf við að hugmyndirnar klárist á endanum, en tankurinn hefur ekki klárast enn. Ég byrjaði í þessari námsefnisgerð að miklu leyti þegar elsti strákurinn minn var í 1. bekk, þá var ég mikið að gera námsefni fyrir yngsta stig. Eftir því sem hann eldist þá eykst áhugi minn á námsefni fyrir eldri börn. Hann er í 7. bekk núna og ég er farin að horfa meira til námsefnis sem hentar eldri börnum. Það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar hann fer í menntaskóla, ætli ég fari ekki að gera menntaskólaefni „fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga framhaldsskólanema“,“ segir Hlín létt í bragði.

Gerið þið fjölskyldan eitthvað markvisst til þess að hægja á í öllum hraðanum til þess að verja meiri tíma saman og eiga betri stundir sem fjölskylda?

„Við fjölskyldan erum ansi heimakær, okkar bestu stundir eru rólegheit heima fyrir, horfa á góða bíómynd og borða snakk. Við foreldrarnir erum mjög meðvituð um það að við eigum auðvelt með að gleyma okkur í vinnunni, þar sem við höfum bæði svo rosalegan áhuga á því sem við vinnum við – og eigum auðvelt með að vinna heima fyrir, þannig að oft verða skilin milli vinnu og heimilis ansi óskýr. Við leggjum okkur fram við að loka tölvunni og „fara úr vinnugallanum“ til að eiga gæðastundir með börnunum,“ segir Hlín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »