Sorgmædd yfir skilnaði foreldra sinna

Kelly Clarkson.
Kelly Clarkson. AFP/Ethan Miller

Tónlistarkonan Kelly Clarkson segir að börnin hennar tvö, þau River og Remington, hafi verið og séu enn mjög sorgmædd yfir að foreldrar þeirra hafi skilið. Clarkson og Brandon Blackstock skildu árið 2020. 

„Ég bókstaflega spyr börnin mín á hverju kvöldi hvort þau séu hamingjusöm. Ef ekki þá spyr ég hvað myndi gera þau hamingjusamari,“ sagði Clarkson í hlaðvarpsþáttunum Angie Martinez IRL. 

„Það „drepur“ mig, og ég vil að þau séu heiðarleg, þannig ég segi aldrei að þau eigi ekki að segja mér. En mjög oft segja þau: „Veistu ég er bara voða leið. Ég vildi að mamma og pabbi væru í sama húsi,“ sagði Clarkson. 

River er átta ára og Remington litli sex ára. 

„Þau eru mjög heiðarleg með þetta. Ég vil ala upp þannig einstaklinga. Ég vil að þau geti talað við mig af heiðarleika,“ sagði Clarkson. 

Hún sjálf er skilnaðarbarn og segist skilja börnin sín vel, það sé glatað þegar mamma og pabbi geta ekki látið hlutina virka. 

„Ég held að mestu máli skipti sé að tala við þau, koma samt ekki fram við þau eins og fullorðin, en ekki heldur eins og börn. Þetta eru ekki litlar tilfinningar. Þessar tilfinningar taka mikið pláss og það tekur mikið á að finna fyrir þeim öllum,“ sagði Clarkson. 

Hún segir börnin bæði spyrja hana hvort hún elski enn pabba. Hún sagðist svara þeirri spurningu að sú ást myndi sannarlega aldrei hverfa.

mbl.is