Tilbúin að eignast börn

Brooklyn Beckham og Nicola Peltz Beckham eru tilbúin að stofna …
Brooklyn Beckham og Nicola Peltz Beckham eru tilbúin að stofna fjölskyldu saman. AFP

Leikkonan Nicola Peltz Beckham er sögð vera tilbúin að eignast börn með eiginmanni sínum, Brooklyn Beckham.

Hinn 9. apríl næstkomandi munu hjónin fagna eins árs brúðkaupsafmæli, en þau gengu í það heilaga við glæsilega athöfn á síðasta ári sem kostaði hvorki meira né minna en hálfan milljarð króna. Hjónin virðast nú vera farin að huga að barneignum.

„Þegar þú ert tilbúin, þá er ég tilbúinn“

Brooklyn hefur talað opinskátt um að vilja verða faðir frá því þau giftu sig. „Foreldrar mínir eignuðust mig þegar þau voru 23 ára. Ég er 23 ára núna. Mig hefur alltaf langað til að giftast ungur, mig hefur alltaf langað til að eignast börn ungur og ala upp börnin mín þegar ég er enn ungur,“ sagði hann í viðtali á síðasta ári. 

Hann bætti við að honum fyndist Nicola þurfa aðeins meiri tíma. „Ég segi alltaf: „Þegar þú ert tilbúin, þá er ég tilbúinn“.“

Heimildir Daily Mail herma að nú séu þau hins vegar bæði tilbúin að stofna fjölskyldu þar sem Nicola hafi ákveðið að hún vilji líka eignast börn ung. 

mbl.is