Langar helst í kettling eða hvolp

Tíbrá og Magnús njóta þess meðal annars að stunda útivist …
Tíbrá og Magnús njóta þess meðal annars að stunda útivist saman. Ljósmynd/Aðsend

Tíbrá Magnúsdóttir, nemandi í 8. bekk í Álftanesskóla, ætlar að fermast hjá Siðmennt í apríl. Faðir Tíbrár, Magnús Baldursson sálfræðingur, segir veturinn hafa farið í það að velta fyrir sér fermingunni og er niðurstaðan að bjóða til persónulegrar veislu heima hjá Magnúsi.

„Ég fermist borgaralega í Háskólabíói 15. apríl,“ segir Tíbrá um ferminguna. Hún segir borgaralegu fermingarfræðsluna ólíka hinni hefðbundnu fermingarfræðslu hjá þjóðkirkjunni. „Ég fer í fermingarbúðir á Úlfljótsvatni í mars, þar fæ ég fræðsluna fyrir ferminguna.“

Ætlar þú að halda veislu?

„Ég held veislu heima hjá pabba mínum og ætla að bjóða fjölskyldu og vinum í veisluna. Ég ætla að bjóða upp á smárétti, eins og kjúklingaspjót og tacos, sætindi eins fermingarköku og makkarónur.“

Ætlar þú að fara í hárgreiðslu?

„Já, ég fer í hárgreiðslu. Ég hef ekki alveg ákveðið hverskonar greiðslu en allavega að hárið verður hálfvegis upp og með krullur.“

Ertu búin að finna föt fyrir ferminguna?

„Já, ég fann hvítan kjól sem er passlega þröngur og nær næstum niður að hnjám. Ég fann hvítar ermar í stíl yfir kjólinn, og síðan hælaskó sem eru í ljóskremuðum lit.“

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Ég er með opinn huga, það er alltaf gaman að fá peninga eða pakka, en ef ég ætti að velja eitthvað sérstakt myndi ég segja að mig langi í kettling eða hvolp.“

Hvaða áhugamál ert þú með?

„Ég hef haft gaman af myndlist og að skrifa sögur síðan ég man eftir mér. En mér finnst líka gaman að æfa crossfit og leiklist, eða koma fram á sviði.“

Enn verið að skipta um skoðun

Magnús sem á einnig dótturina Kolku segir að við ferminguna renni það sterkt upp fyrir foreldrinu að barnið sé að fullorðnast. „Þetta eru tímamót, kannski smá eftirsjá og tregi yfir tímunum sem koma ekki aftur, en líka stolt og tilhlökkun fyrir öllu því sem er framundan og er svo spennandi.“

Hvernig hefur fermingarundirbúningurinn verið í vetur?

„Við byrjuðum að ræða málin í haust, hvar við myndum halda veisluna, hverjum yrði boðið, veitingar, skreytingar og fleira. Síðan þróast þetta hægt og bítandi, nýjar hugmyndir fæðast og það er enn verið að skipta um skoðun og breyta plani.“

Hvernig verður fermingardagurinn?

„Við höldum veisluna heima, okkur finnst við hafa ágæta aðstöðu til þess og erum sammála um að það sé á einhvern hátt persónulegra. Þetta verður svona passlega stór veisla, okkar nánasta fólk en alveg heilmikið stúss og stór hátíðahöld á okkar mælikvarða, en bara gaman.“

Feðginin Tíbrá Magnúsdóttir og Magnús Baldursson er hress en Tíbrá …
Feðginin Tíbrá Magnúsdóttir og Magnús Baldursson er hress en Tíbrá fermist í apríl. Ljósmynd/Aðsend

Mikið rætt um gæludýr

Hvernig er feðginasambandið ykkar?

„Mjög gott myndi ég segja. Okkur finnst báðum mjög gaman að hanga saman, og það hefur ekkert breyst við unglingsárin. Við stundum útivist, göngum mikið – of mikið segja sumir, höfum ferðast víða bæði hér heima og erlendis, förum á söfn, í leikhús og bíó, og ræðum mikið þessa dagana hvernig gæludýr við ættum að fá okkur, það er stóra málið.“

Þú ert sálfræðingur, hvað eru börn á fermingaraldri að ganga í gegnum?

„Ég held að það sé alveg rétt að þau fullorðnist oft um þetta leyti. Stundum er talað um hvað barn hafi tekið stórt þroskastökk yfir eitt sumar. Við ferminguna gerist líka á einhvern hátt eitthvað stórt. Ég upplifi til dæmis talsverðan þroskamun á börnum sem eru í 8. bekk og þeim í 9. bekk sem hafa gengið í gegnum fermingarárið. Þá finnst mér börn núorðið sterkari á þann hátt að þau ákveða þetta meira á sínum eigin forsendum, það er minna um þessa gömlu leiðinlegu hjarðhegðun. Þau velta þessu fyrir sér og vilja fermast á sinn trúarlega hátt, eða hjá Siðmennt, eða ákveða að fermast alls ekki en halda samt mögulega upp á þetta með öðrum hætti eins og til dæmis með ferð út í heim.

Unglingarnir í dag eru almennt flottir, víðsýnir og umburðarlyndir. Það má alveg segja að við séum ekki síður að læra af þeim en þeir af okkur. En þau lifa í breyttum og flóknum heimi með mörgum áskorunum. Ef maður ætti að nefna einhver áhyggjuefni, þá væri það helst tækniumbyltingin og snjalltækjavæðing mannshugans. Þegar horft er til baka um 15 til 20 ár og til stöðunnar núna, þá myndi maður óska að næstu 15 til 20 árin yrðu framfarirnar á einhvern hátt hægari, og við og unga fólkið okkar fengjum meira andrými til að aðlagast næstu tæknibyltingu, ég held að það yrði mannvænlegra,“ segir Magnús að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »