„Ég stakk fingrinum þangað upp“

Rumer Willis ásamt nýfæddri dóttur sinni, Louettu Isley.
Rumer Willis ásamt nýfæddri dóttur sinni, Louettu Isley. Samsett mynd

Rumer Willis, elsta dóttir Bruce Willis og Demi Moore, eignaðist fyrsta barn sitt í apríl og sagði hún frá reynslu sinni af heimafæðingu nú á dögunum í hlaðvarpsþættinum Informed Pregnancy. Þar sagði leikkonan meðal annars frá því að hún hefði sjálf rofið belginn til þess að legvatnið færi að leka.

Villtasta augnablikið

Fæðingin gekk snöggt fyrir sig hjá Willis, fæðingarhríðirnar djöfluðust á henni eins og óðar væru og leghálsinn víkkaði hratt en allt gerðist það án þess að belgurinn rofnaði. Eftir að leikkonan færði sig yfir í svokallaða fæðingarlaug og með mikla löngun til að þrýsta barninu út fann ljósmóðirin að belgurinn var enn órofinn og legvatnið því enn á sínum stað og því ekki ráðlagt að svo stöddu. „Hún var að skoða mig og fann strax að belgurinn var ekki búinn að rofna, sem mér fannst skrýtið. Ég svaraði: Jæja, eigum við bara ekki að rífa belginn? Hún segir: Jú, þú getur gert það.

Leikkonan varð heldur slegin við að heyra það en ákvað engu að síður að fara að ráðleggingu ljósmóðurinnar. „Ég stakk fingrinum þangað upp og þetta var algjörlega geggjað. Ég fann fyrir eins og lítilli vatnsblöðru en með örlítið harðari húð.“

Naflastrengurinn vafinn um hálsinn

Willis var sagt að þrýsta við belgnum við næsta samdrátt sem hún svo gerði og við það rofnaði hann. „Ég held að það sé til mynd af mér þar sem ég er bara með þennan undrunarsvip á andlitinu.“

Frá því augnabliki gekk allt ansi hratt fyrir sig og fékk leikkonan dóttur sína, Louettu Isley, nú sjö vikna, í fangið stuttu síðar. „Ljósmóðirin og maki minn tóku á móti henni. Þetta var villtasta augnablik lífs míns. Hún var með naflastrenginn vafinn um hálsinn og niður líkamann. Um leið og þau náðu að leysa hana úr flækjunni var hún komin í fangið á mér og þetta var ánægjulegasta stund lífs míns,“ sagði nýbakaða móðirin.

„Ég byrjaði bara að hágráta af gleði. Ég á fallegustu myndir þar sem ég horfi á hana, horfi á systur mínar, horfi á mömmu bæði á augnablikinu þegar hún varð amma og þegar hún studdi við mig í fæðingunni.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert