Áhættan við Heklugöngu

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættunni sem felst …
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættunni sem felst í því að ganga á Heklu. Mynd/RagnarAxelsson

Í ofanálag er mjög víðsýnt ofan af Heklu og gangan upp á fjallið er ekki tæknilega erfið. Hverjum manni er frjálst að fara á fjallið og margir hópar fóru á síðasta ári en ég hef grun um að þeir geri sér ekki allir grein fyrir áhættunni af að fara upp á topp. Hekla gýs oft og þá sérstaklega á 20. öld, en hún gaus 1947, 1970, 1980, 1991 og 2000. Hún er sérstök að því leyti að gosin hafa skamman aðdraganda eða innan við klukkustund og í upphafi er sprengigos í toppnum, sem breytist síðar í flæðigos.

Vegna hins skamma aðdraganda og sprengigossins í upphafi má telja þó nokkrar líkur á því að fólk sem er statt við toppinn þegar fyrstu merki um gos berast muni ekki ná til byggða heilt á húfi. Hættur geta verið af ólíku tagi. Gjóskufallið í upphafi er mikið og hætta á að fá glóandi heita molana á sig sem þeytast úr gígnum. Einnig hafa myndast brennandi heit gjósku- og vatnsflóð í upphafi gosa í Heklu sem fara niður hlíðarnar á nokkrum mínútum og má til dæmis nefna að í gosinu árið 1980 fór slíkt flóð niður norðvesturhlíðarnar á svipuðum slóðum og flestir ganga upp. Þá getur gasútstreymi samfara gosi orðið fólki og fénaði að fjörtjóni og erfitt er að meta slíka hættu á vettvangi nema vera með sérstaka mæla. 

Mælingar sýna að þrýstingur úr kvikuhólfi Heklu er orðinn meiri en hann var árið 2000 þannig að út frá þeim mælikvörðum er hún tilbúin til að gjósa en enginn veit hvenær það verður. Eina sem við vitum er að hún mun gjósa með innan við klukkustundar fyrirvara. Það gæti gerst á morgun eða eftir fimmtíu ár, enginn veit. Þess vegna er umferð fólks á Heklu ekki bönnuð, en þó er mikilvægt að sem flestir geri sér grein fyrir áhættunni við að fara á Heklu við þessar aðstæður.

Almannavarnir hafa látið útbúa skilti við rætur Heklu til þess að varpa ljósi á áhættuna og auk þess er til staðar viðbúnaðarkerfi sem gerir ráð fyrir að senda SMS á alla þá sem eru í grennd við eldstöðina þegar ljóst er að gos er í aðsigi. Ég veit ekki hvað boð eru lengi að skila sér í símana og auðvitað er erfitt að segja til um hvenær fólk verður vart við slík boð á símanum sínum og hvað tíminn er mikill sem það mun hafa til að forða sér, en vonandi mun það nægja til að allir komist heilir heim og vonandi hegðar eldstöðin sér á sem bestan hátt fyrir fólk á vettvangi. Best væri samt ef enginn væri á fjallinu þegar gýs næst.

mbl.is