Létu drauminn rætast í óbyggðum

Hópurinn sem fór í ævintýraferðina til Grænlands.
Hópurinn sem fór í ævintýraferðina til Grænlands. Ljósmynd/aðsend

Hér eftir fer frásögn Gunnars Inga af ferðinni og myndir úr myndasafni ferðarinnar. Með í för var líka par frá Sviss, Greg og Andrea, og leiðsögumaðurinn John frá hálendi Skotlands.

Grænland er okkar næsti nágranni en ekki verður sagt að straumur Íslendinga þangað sé mikill. Þó er fljótlegt að fljúga þangað frá Reykjavíkurflugvelli með Air Iceland Connect og tekur flugið til Kulusuk innan við tvær klukkustundir. Ég hef verið með vaxandi óbyggða- og fjalladellu frá því að mesta smábarnastússinu lauk og frá 2010 hafa verið farnar margar góðar ferðir í frábærum félagsskap fyrrverandi vinnufélaga úr Marel og félaga í HSSR, m.a. á nokkra tinda Vatnajökuls, yfir Kjöl á gönguskíðum að ógleymdri frábærri ferð yfir S-hluta Vatnajökuls vorið 2017 þegar ekki hreyfði hár á höfði í 3ja daga gönguskíðaferð. 

Hundarnir bíða eigandans í Kulusuk.
Hundarnir bíða eigandans í Kulusuk. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Eftir að hafa lesið margar bækur um heimskautaferðir hinna ýmsu landkönnuða og ævintýrafólks fór ég að renna auga til Grænlands, enda Suðurheimskautslandið afar fjarlægur og dýr draumur. Grænland hefur nánast ótæmandi möguleika til útivistarævintýra af ýmsu tagi, s.s. til siglinga innan um ísjakana, gönguferða, göngu- og fjallaskíðaferða – að ógleymdu nánast óendanlegu úrvali granítfjallstinda sem rísa allt að 3.700 m yfir sjárvarmáli. Þangað sem ferðinni var heitið, norður af Kulusuk, rísa tindarnir þó lægra og hæst fórum við í um 1.100 m hæð en ávallt var lagt af stað frá tjaldbúðum við sjávarmál og reynt að ná aftur í tjaldbúðir fyrir myrkur.

Ég hef verið áhugamaður um landkönnuði og ævintýri frá því að við þrír félagarnir fórum í 4 mánaða útskriftarferð úr HÍ til Afríku, að feta í fótspor Richard Burton og félaga sem brutust alla leið að Viktoríuvatni á landamærum Kenía og Úganda. Nú er auðvitað búið að kanna jörðina þvera og endilanga og skrásetja hana í Google Earth en þó voru hugsanlega einhverjar leiða okkar og tinda á Grænlandi ófarnar og ósnertar af mannverum, og enn má ganga þarna á stöðum sem mögulegt er að engin mannvera hafi áður stigið. Mér finnst þó ekki síður áhugavert að kanna eigin getu og mörk við nýjar aðstæður, og  að kanna hvaða áhrif nýir staðir, ný reynsla og áskoranir hafa á mig, og sé staðurinn ný upplifun fyrir mig nægir það – það er mín landkönnun.

Kyrrðin í Grænlandi er engri annarri lík.
Kyrrðin í Grænlandi er engri annarri lík. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Litrík byggð í Kulusuk

Aðflugið að flugvellinum á Kulusuk-eyju er fallegt, ljós fjöll, ísjakar á floti og snjór í fjöllum. Aðeins um 250 manns búa á þessari eyju sem er í senn falleg og drungaleg. Það er enginn Flybus á Kulusuk, fjórhjól sækir farangurinn okkar og við leggjum af stað gangandi eftir malarveginum. Gangan tekur um 30 mínútur og John, okkar skoski leiðsögumaður með gráu skeggbroddana, heldur á rifflinum. Hér er alltaf möguleiki á að rekast á ísbirni og aðeins eru nokkrir dagar síðan fullvaxið karldýr var á ferð nálægt Kulusuk. Við göngum fram hjá kirkjugarði, ryðguðum olíutunnum og veðruðum dönskum bjórdósum sem liggja víða. Það er ekkert hægt að grafa í granítið hér svo grafir eru bara nafnlausir krossar ofan á grjóthrúgum. Við eitt húsið er grjóthrúgan bara rétt fyrir utan dyrnar, eins og einhver hafi undirbúið að detta bara ofan í lægðina þegar endalokin koma, og samið við nágrannana að hrófla grjótinu svo yfir lægðina og reisa svo við hvítan óáletraðan krossinn. 

Gunnar Ingi á toppi tilverunnar.
Gunnar Ingi á toppi tilverunnar. Ljósmynd/Aðsend

Byggðin er litrík og sum húsanna eru falleg, en allnokkur yfirgefin hús inn á milli. Þau eru veðruð og rúðurnar brotnar. Við bryggjuna eru nokkrir bátar og dauðir selir í kippum í sjónum, líklega er best að geyma þá þannig, sjórinn er saltur kælir. Kulusuk er enn samfélag veiðimanna þótt ferðamenn séu farnir að ramba inn í þorpið. Við erum hér á vegum nokkurra breskra ævintýramanna og -kvenna, en Matt Spenceley hafði komið fyrir 18 árum sem ungur maður hingað til að klifra og tekið ástfóstri við staðinn og byggt upp lítið fyrirtæki (Pirhuk) sem sinnir ævintýraferðum um A-Grænland. Þau deila heimili sínu með okkur og öðrum ferðalöngum, fallegu bláu húsi og því eina í þorpinu með rennandi vatni í krönum. Klósettið er einhvers konar innikamar þó.

Fyrstu tvo dagana í Kulusuk rigndi nokkuð stöðugt og dimm þoka lá yfir. Það er ekki girnilegt að koma upp tjaldbúðum í slíku og því frestuðum við brottför og skoðuðum okkur um í Kulusuk, hittum fleiri leiðsögumenn og ferðalanga frá Pirhuk og keyptum útskorið skart úr hreindýrabeini af gamalli konu sem leitaði okkur uppi. Seinni daginn fórum við í upphitunarhring, gengum um 13 km hring á eyjunni og kíktum upp á nokkra lága tinda. Tókum með okkur litlu blysbyssurnar okkar og skoðuðum þær en þær á að nota ef fæla þarf frá ísbirni ef þeir nálgast um of – sem er í senn ógnvekjandi og spennandi, svona eins og snarbrattar fjallshlíðar geta verið líka.

Voru vör um sig vegna ísbjarna

Þegar stytti upp var lagt af stað til Apusiiak-eyju sem liggur skammt norðan við Kulusuk og sést ágætlega frá þorpinu. Þangað sigldum við með heimamanni, veiðimanni sem nýtur mikillar virðingar í þorpinu og er mikilvægur liðsmaður Pirhuk. Grænlenskir fiskimenn eru lagnir að sigla hratt og örugglega fram hjá litlum ísjökum sem eru um allt. Þeir kunna líka að leggja að landi á ólíklegustu stöðum og á einum slíkum lögðum við að og bárum svo allan farangurinn, ásamt tveimur plasttunnum af mat og búnaði ca. kílómetra inn að fyrsta tjaldstæðinu okkar, „basecamp“. Matt og og John höfðu komið þar einhverjum dögum áður og sett upp viðvörunarkerfi, stálvíra í kringum tjaldstæðið og tengt þá við hvellhettur sem eiga að springa með látum ef bangsi gengur á vírana. Matartjaldið er svo reist ca. 50 metra frá tjaldbúðunum til að minnka líkurnar á að lyktin dragi bangsa að svefnstaðnum. Við erum líka með hreyfiskynjara sem vöktu okkur nokkrum sinnum, líklega vegna fugla og refa, en svo töldum við okkur líka einu sinni sjá einhver skrítin spor en erfitt er að segja til um hvað það var. 

Hópurinn þurfti að vera var um sig vegna ísbjarna.
Hópurinn þurfti að vera var um sig vegna ísbjarna. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Við gengum svo inn að skriðjökli á eyjunni sem fellur svo tilviljanakennt með látum út í sjóinn. Jarðfræðingur myndi ekki komast mikið úr sporunum hér því litadýrðin í grjótinu og fjöllunum í kring er engu lík. Þar ægir saman röndóttu, hvítu, svörtu, rauðu, gráu og gulu bergi og grjóti í litapallettu sem getur algerlega dáleitt ferðalanginn. Við nærumst á daginn á súkkulaði og smákökum, „flapjacks“, að ógleymdum Tesco cheddar-osti með hot dog relish og saltkexi, namm! Bjarnarvakt var sett á fyrstu nóttina því það rigndi og þá er ekki hægt að treysta á vírakerfið. Hver á 1,5 klst. af bjarnarvakt og ég tek bókina mína um heimskautafarann Tom Crean mér til innblásturs. Þegar maður situr á bjarnarvakt hljóma öll náttúruhljóð eins og björn en ég svaf ágætlega bæði fyrir og eftir vaktina.

Næsta dag var var sett í dagpokann og við héldum á tindinn sem gnæfði eins og granítpýramídi yfir skriðjöklinum. Þeir eru nokkrir tindarnir hérna á þessari eyju, 700-1.000 m háir. Það er þó ekkert Esju-rölt að fara á toppinn en það hjálpar að þurrt og hrjúft granítið gefur ótrúlega gott grip og nánast er eins og að vera með franskan rennilás undir skónum. Það er alltaf góð tilfinning að ná nýjum tindi og það gerðum við tvisvar þarna, í seinna skiptið kl. 11 að morgni eftir að hafa vaknað um kl. 4.30 til að geta verið búin að bera farangurinn aftur niður í fjöru fyrir kl. 15 þegar báturinn átti að koma. Tunnuburðurinn seig í og minnti mig á myndir af sherpum bera slíkar tunnur í Nepal, upp í móti og í þunnu súrefni. Hvílíkt fólk. 

Þögli leiðsögumaðurinn

John leiðsögumann okkar er ekki að finna á samfélagsmiðlum, hann er þögull stundum, þrautreyndur fjallamaður um heim allan og úrræðagóður. Hann hefur misst átta vini á Everest og hefur engan áhuga á því, en hefur verið í Himalaya, S-Ameríku og Ölpunum, fyrir utan að hafa alist upp í fjalllendi Skotlands. Þegar búið er að trekkja hann í gang koma sögurnar. 24. ágúst sigldum við svo burt frá eyjunni og héldum í norður, einhverja 80 km inn í Sermiliqaq-fjörðinn og inn að Knud Rasmusen-skriðjöklinum. Siglingin var skemmtileg, smáhveli og ísjakar af ýmsum stærðum verða á vegi okkar ásamt endalausu úrvali fjallstinda. Knud Rasmusen-skriðjökullinn er af stærri gerðinni og skríður inn í fjörðinn þar sem stórfenglegir 70 m háir ísveggirnir hrynja með drunum í sjó fram á nokkurra mínútna fresti. Við tjöldum á lítilli syllu með útsýni yfir ísvegginn og bíðum stormsins og rigningarinnar sem skall á síðdegis og hristi tjöldin okkar fram á nóttina.

Setið í kvöldkyrrðinni við fjörðinn.
Setið í kvöldkyrrðinni við fjörðinn. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Bjarnarvaktin mín milli 02.30 og 4 var ansi hráslagaleg og þau eru mörg hljóðin í grænlensku nóttinni, og öll hljóma þau auðvitað eins og svangur hvítabjörn í myrkrinu þegar maður situr á vaktinni. Nábýlið við hrynjandi jökulinn var magnað og jók rigningin enn á hrunið. Á þriðja degi átti svo að hætta að rigna svo að við pökkuðum í bakpoka og héldum í göngu meðfram skriðjöklinum í austurátt og klifum einn af 800 m háum tindunum sem við blöstu. Hann reyndist okkur Íslendingunum nokkuð krefjandi en það var einmitt tilgangur ferðarinnar, að fara út fyrir þægindarammann og upplifa alvörufjallamennsku í óbyggðum. Mögulega var þetta einn af tindunum sem aldrei hafa séð mannsfætur. Parið frá Ölpunum aðstoðaði við að koma ofuránægðum en pínu titrandi Íslendingum á toppinn. Þessi dagur endaði í 11 tíma göngu og klifri og ekki reyndist erfitt að sofna þá um kvöldið.

Gangan var oft og tíðum mikil áskorun.
Gangan var oft og tíðum mikil áskorun. Ljósmynd/Gunnar Ingi

Næstu dagar voru bjartir og fagrir og næturnar ískaldar undir dansandi norðurljósum. Þvílík forréttindi að fá að upplifa svona. Einn af tindunum sem við náðum á þessum dögum var í 1.100 m hæð og svo oddhvass að aðeins tveir gátu staðið á toppnum í einu. Ganga þurfti langan veg yfir sprunginn jökul til að komast að honum, þar var annar 11 tíma dagur. Útsýnið var algerlega ótrúlegt enda tókum við mörg hundruð myndir þessa fögru og björtu daga, oft algerlega orðlaus yfir dýrðinni. Fjallið hinum megin í firðinum var röndótt og litríkt og skartaði tindi með hvítum löngum rákum, eins og hann hefði verið klóraður af ógnarstórum hvítabirni. Að loknum þremur tindadögum í röð náðum við Íslendingarnir að væla út hvíldardag því læri, hné og fætur voru alveg búin og sumir þurftu að láta blöðrur og bólgur jafna sig. Við nýttum daginn í að fá kennslustund í Alpa-fjallamennsku hjá John, og til að stara á jökulinn ryðjast með drunum og brestum fram í sjóinn, sem ólgaði eins og suðupottur í hvert skipti sem jakarnir hrundu fram. Aftur var lagt í tindaferðir að loknum hvíldardegi og m.a. á tindinn beint fyrir ofan tjaldbúðirnar okkar, en einnig út með firðinum þar sem einn tindurinn reyndist of laus í sér og við snerum við frekar en að fara að renna – það eru engar björgunarsveitir hér.  Þegar þetta er skrifað, kl. 01.56 að morgni 31. ágúst 2017, er Venus að skríða yfir fjallstoppana í austri og það styttist í heimferð. Eftir svona slark er Kulusuk eins og heimsborg, með heitum sturtum og köldum bjór. Hingað kem ég örugglega aftur.

mbl.is