Fyrsti hjólatúrinn var í kringum Ísland

Þóra Hrönn og Sigurjón hafa hjólað víða um heim.
Þóra Hrönn og Sigurjón hafa hjólað víða um heim. Ljósmynd/Aðsend

Þetta er þó ekki fyrsta hjólaferð hjónanna til Bandaríkjanna en áður höfðu þau meðal annars hjólað frá Vancouver til San Diego og í fyrra hjóluðu þau frá Key West, í Flórída, til New York. „Þannig höfum við lokið við þrjá fjórðu hluta leiðarinnar hringinn í kringum Bandaríkin. Nú tökum við smá rispu það er að segja frá Chicago til New York,“ segir Þóra Hrönn.

Hjónin hafa hjólað tvo og hálfan hring í kringum Ísland.
Hjónin hafa hjólað tvo og hálfan hring í kringum Ísland. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin byrjuðu fyrir alvöru að leggja fyrir sig hjólaíþróttina fyrir níu árum en þá gaf Þóra Hrönn Sigurjóni hjól í afmælisgjöf. „Ég keypti mér auðvitað líka hjól og bauð honum í hjólatúr í kringum Ísland. Það var okkar fyrsta hjólaferð í kringum landið en síðan þá hafa tveir og hálfur hringur bæst við en eftir hálfa hringinn þá hjóluðum við frá Hafnarfirði til Seyðisfjarðar og tókum ferjuna yfir til Danmerkur. Þaðan hjóluðum við til Stokkhólms í heimsókn til Péturs sonar okkar sem býr þar.“ Hjónin fóru alla leið í ævintýramennskunni þegar þau hjóluðu hringina í kringum landið og gistu að mestu í tjaldi þar sem þau vildu geta staldrað við hvar sem þeim datt í hug að gera það. „Þar sem við ljósmyndum mikið erum við mjög oft að stoppa og mynda og erum í raun ekkert að flýta okkur. En við förum líka og fáum okkur gistingu á leiðinni ef það rignir á okkur eða eitthvað annað.“

Ævintýri víða um veröld

Hugmyndin um að hjóla í Bandaríkjunum kom frá Þóru Hrönn en henni fannst það aðlaðandi tilhugsun að hjóla meðfram einhverri fallegri strönd þar í landi. „Það er nú þannig að ég fæ oftar en ekki alls konar hugmyndir sem Sigurjón er svo fljótur að koma í framkvæmd, ég þarf stundum aðeins að passa mig,“ segir Þóra Hrönn og hlær sínum smitandi gleðihlátri.

Hjónin ásamt Báru dóttur sinni og Ásgeiri tengdasyni í Víetnam.
Hjónin ásamt Báru dóttur sinni og Ásgeiri tengdasyni í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin hafa lent í ýmsum ævintýrum á sínum ferðalögum og alls staðar sé fólk sem sé tilbúið að rétta fram hjálparhönd ef eitthvað bjátar á. „Fólkið fær yfirleitt norðurljósamynd senda heim til sín nokkrum vikum síðar. En kannski mesta ævintýrið var þegar við fórum á eldgömlum 125 rúmsentimetra mótorhjólum frá Hanoi til Ho Chi Minh City í Víetnam. Þá ferð fórum við með dóttur okkar og tengdasyni, Báru og Ásgeiri. Það var svo sannarlega ævintýri.“


Hægt er að fylgjast með ferðalagi Þóru Hrannar og Sigurjóns á Facebook-síðu þeirra sem og sameiginlegri ljósmyndasíðu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert