Hafdís Hanna Ægisdóttir vísindakona sótti Suðurskautslandið heim í bryjun árs.
Hafdís Hanna Ægisdóttir vísindakona sótti Suðurskautslandið heim í bryjun árs. Ljósmynd/Aðsend

Heillaðist af Suðurskautslandinu

„Að heimsækja Suðurskautslandið og sjá mörgæsir í sínu náttúrulega umhverfi hefur verið draumur minn frá barnæsku. Það var því sterk tilfinning að fá að upplifa þetta magnaða svæði í eigin persónu,“ segir Hafdís Hanna Ægisdóttir líffræðingur sem sótti Suðurskautslandið heim fyrr á árinu.

„Leiðangurinn til Suðurskautslandsins var lokaáfangi í alþjóðlegu leiðtogaprógrammi sem ég var í. Prógrammið heitir Homeward Bound og hefur það að markmiði að þjálfa konur með vísindabakgrunn í leiðtogahæfni, stefnumótun og vísindamiðlun,“ segir Hafdís Hanna. Leiðtoganámið var sett á laggirnar til að auka vægi vísindakvenna til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvörðunartöku, sér í lagi varðandi náttúruverndar- og umhverfismál með sérstakri áherslu á loftslagsbreytingar og sótti Hafdís Hanna um námið vegna áhuga á umhverfis- og jafnréttismálum sem og leiðtogaþjálfun.

Dagskráin um borð var smekkfull af áhugaverðum fyrirlestrum.
Dagskráin um borð var smekkfull af áhugaverðum fyrirlestrum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er líffræðingur með doktorspróf í plöntuvistfræði og hef undanfarinn áratug starfað sem forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er hér á landi.“ Sem fyrr segir er námið ætlað vísindakonum og var Hafdís Hanna ein af 80 konum, víðs vegar að úr heiminum sem tók þátt. „Prógrammið tók um 1 ár og fór aðallega fram í gegnum fjarfund en því lauk með 3 vikna ferð til Suðurskautslandins í byrjun þessa árs.“

Maður á að sýna kjark

Hafdís Hanna segir það hafa vakið upp sterkar tilfinningar að heimsækja svæðið og að reynslan hafi breytt sér til muna. „Náttúran fékk mig til að falla í stafi af lotningu mörgum sinnum á dag. Þegar við sáum risastóra ísjaka við sjóndeildarhringinn eftir langa siglingu yfir úfið haf Drake-sundins vissum við að land væri í augsýn. Spenningurinn magnaðist og fyrr en varði litum við Suðurskautsskagann augum – hvítan töfraheim með háum fjöllum, ísjökum og tærum sjó. Algjörlega magnað.“

Crabeater-selir liggja í makindum á ísjaka.
Crabeater-selir liggja í makindum á ísjaka. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég hugsa um það sem ég tek með mér út í lífið eftir þessa reynslu, þá kemur eftirfarandi efst upp í hugann núna:

- Maður á að sýna kjark og fylgja hugsjónum sínum og draumum í stað þess að velja alltaf þægilegu leiðina.

- Aldrei vera hrædd/hræddur við hið óþekkta - takast á við allt sem fylgir því að vera manneskja (gleði, sorg, áföll) og nota til góðs

- Njóta lífsins; syngja, dansa, leyfa sér að vera kjánalegur og ófullkominn

- Gangast við mistökum og nota til að læra og gera betur næst.

Og - Hvað varðar loftslagsmálin; þá verður að segja sannleikann en án þess að missa nokkurn tímann  móðinn og bjartsýnina. Svartsýni mun leiða okkur til glötunar - staðföst bjartsýni er eina leiðin,“ segir Hafdís Hanna.

Dagarnir pakkfullir

Aðspurð hvað hún hafi verið að fást við þessar þrjár vikur sem hún var um borð í rannsóknarskipinu segir hún að dagarnir hafi verið pakkfullir af áhugaverðri dagskrá. „Við vorum vaktar alla daga kl. 6:30 af leiðangursstjóranum. Eftir morgunmat byrjaði prógramm dagsins; fyrirlestrar, hópavinna og markþjálfun. Nokkuð oft var kennsla eða hópavinna stoppuð þegar einhver kallaði „hvalur“ og þá fórum við allar út á þilfar til að skoða. Á hverjum degi var svo farið í land í ca. 3 klst, oftast til að skoða lífríkið en einnig stundum til að heimsækja vísindamenn á rannsóknarstöðvum á Suðurskautslandinu.

Gentoo-mörgæsir eru óskaplega fallegar og friðsælar.
Gentoo-mörgæsir eru óskaplega fallegar og friðsælar. Ljósmynd/Aðsend

Á kvöldin voru stundum fyrirlestrar, bæði frá kennurunum í leiðtogaprógramminu eða leiðsögumönnum í áhöfn skipsins.“ Að sögn Hafdísar Hönnu voru aðstæður um borð mjög góðar en skipið fer alla jafna með ferðamenn til Suðurskautslandsins. „Við vorum tvær í hverri káetu og nóg pláss til að vinna. Skipinu fylgdu svo nokkrir gúmmíbátar sem við fórum í land á í eyjar nærri Suðurskautslandinu og á meginlandið sjálft.“

Hafdís Hanna ásamt Anabellu Palacios, vinkonu sinni frá Argentínu.
Hafdís Hanna ásamt Anabellu Palacios, vinkonu sinni frá Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Náttúran töfrum líkust

Hafdís Hanna segir náttúruna við Suðurskautsskagann ægifagra og líkt og að vera staddur í miðjum náttúrulífsþætti. „Að vera staddur í mörgæsabyggð með hvali blásandi nálægt landi og seli horfandi syfjulega á mann uppi á ísjaka er náttúrulega bara töfrum líkast.

Hópur af fallegum adelie-mörgæsum.
Hópur af fallegum adelie-mörgæsum. Ljósmynd/Aðsend

Maður tók andköf af lotningu en að sama skapi var maður stundum sorgmæddur af heyra af þeim breytingum sem hafa nú þegar orðið á ísnum, hafinu og lífríkinu við Suðurskautslandið vegna loftslagsbreytinga.“

Þann 8.maí kl. 20 verður Hafdís Hanna með fræðsluerindi um för sína á Suðurskautslandið í fyrirlestrasal Öskju, náttúrufræðihúss Háskóla Íslands. Áhugasamir eru hvattir til að mæta en aðgangur er ókeypis.