Fékk loks drauminn uppfylltan

Greipur fékk loksins draum sinn uppfylltan þegar hann skíðaði niður …
Greipur fékk loksins draum sinn uppfylltan þegar hann skíðaði niður Snæfellsjökul með fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Greipur sem hefur verið á skíðum frá því að hann fór að ganga og æft skíði með skíðadeild Ármanns síðastliðinn 5 ár var ákveðinn í því að ná að fara á toppinn á jöklinum áður en hann yrði 12 ára. Foreldrarnir, Harpa Þórðardóttir sálfræðiráðgjafi og Ásmundur Þórðarson, markaðsstjóri Fjallakofans, eru mikið skíðafólk og hafa stundað fjallaskíðun í nokkur ár. Dóra Sóldís, 23 ára eldri dóttir þeirra hjóna sem er mikill útivistagarpur var einnig með í ferðinni.

Greipur ásamt Hörpu móður sinni, Ásmundi föður sínum og Dóru …
Greipur ásamt Hörpu móður sinni, Ásmundi föður sínum og Dóru Sóldísi, stóru systur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lagt var af stað úr Hafnarfiðri að morgni hvítasunnudags og keyrt á Arnarstapa. Eftir að hafa komið sér fyrir á gistihúsi á Arnarstapa og farið í gönguferð á Hellna meðan að beðið var eftir að jökullinn hreinsaði sig af skýjahulu sem lúrði yfir tindinum var lagt af stað. Greipur fékk að prófa búnaðinn og reyna sig í að ganga upp með skinn undir skíðunum og hælinn lausan í skíðabindingunum. Frumraunin gekk vel og gengið var upp í miðjan jökul og inn í þokuna þar sem ákveðið var að láta gott heita og reyna á uppgöngu daginn eftir. Skíðaferðin niður gekk vel í blautu sumarfæri og þá var gott að vera á breiðum fjallaskíðum frá Völkl sem flutu vel á snjónum. Það stóðst á endum að um leið og búið var að setja skíðin á toppinn á bílnum þá birti til og jökullinn blasti við okkur í allri sinni dýrð. Þó var ákveðið að halda aftur niður á Arnarstapa og borða kvöldmat og njóta kvöldsins en halda á jökulinn í bítið morguninn eftir. Um kvöldið fékk Dóra Sóldís símtal frá hópi ungra fjallaskíðara sem var að fara í miðnæturgöngu á jökulinn. Hún skellti sér því af stað um tíuleytið og hópurinn var á toppnum laust eftir miðnætti. Þau fengu frábært veður og útsýni í kvöldsólinni en erfiðara færi þar sem það myndaðist hörð skel yfir mjúkan sumarsnjóinn um nóttina.

Greipur rauk upp jökulinn og blés ekki úr nös.
Greipur rauk upp jökulinn og blés ekki úr nös. Ljósmynd/Úr einkasafni

Að morgni annars í hvítasunnu var Dóra Sóldís vakin upp eftir að hafa sofið í 5 tíma eftir miðnæturgönguna. Það var glampandi sól og ekkert að vanbúnaði að leggja af stað á toppinn. Greipur sagðist vera svo spenntur að hann væri með fiðrildi í maganum en ljómaði af tilhlökkun. Lagt var af stað frá staðnum þar sem áður stóð skíðalyfta og gengið sem leið lá upp og stefnt á toppinn. Greipur fékk að ganga fyrstur og stjórna hraðanum. Í glampandi sól og sumarhita var ekkert verið að flýta sér heldur lögð áhersla á að njóta ferðarinnar upp á topp. Þegar upp var komið blasti við stórkostlegt útsýni og þess var notið meðan borðað var nesti og undirbúið að skíða niður sem er auðvitað alltaf það sem er mest spennandi. Brekkan niður sem er um fjórir kílómetrar var frábær og eins og alltaf í fjallaskíðaferðum það sem fólk hlakkar til eftir erfiða uppgöngu sem gerir brekkuna enn skemmtilegri.

Dásamleg útsýn í kvöldsólinni.
Dásamleg útsýn í kvöldsólinni. Ljósmynd/Úr einkasafni

Eftir fjallaskíðaferðina var haldið að Arnarstapa til að fá sér fisk og franskar sem algjörlega er hægt að mæla með. Ungi maðurinn sem var að prófa fjallaskíði í fyrsta sinn getur ekki beðið eftir að prófa aftur og stefnt er í Kerlingarfjöll síðar í sumar en næsta sumar er hann ákveðinn í að skinna á Hvannadalshnjúk.

mbl.is