Uppáhaldsgræjan mín er frussa

Kolbrún í góðum félagsskap á fjöllum.
Kolbrún í góðum félagsskap á fjöllum. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Það sem ég hef alltaf í pokanum er vatnsbrúsi, orka, snýtipappír, varasalvi og verkjalyf. Já og lítill skyndihjálparpoki og álteppi. Ég geng líka næstum alltaf með gleraugu, hvort sem það er sól eða ekki til að hlífa augunum fyrir vindi og foki. Ég tek alltaf með mér úlpu, buff og vettlinga og svo er skelin nánast undantekningarlaust með í pokanum, bæði buxur og jakki, enda getur veðrið breyst á fimm mínútum. Einhverjum gæti þótt þetta svolítið vel í lagt en ég fer alltaf með því hugarfari að ég geti haldið á mér hita og átt einhvern bita ef eitthvað kemur upp á. Ég er fljót að kólna ef ég þarf að stoppa af einhverjum ástæðum, ég tala nú ekki um ef það er í dálítinn tíma. Það kom líka að góðum notum fyrir nokkrum árum þegar við gengum nokkrar vinkonur fram á ungan mann sem þarfnaðist hjálpar. Það eina sem okkur vantaði þá var neyðarskýli sem ég keypti eftir það en tek það aðallega með í vetrargöngur.“

Kolbrún er skipulögð þegar kemur að því að pakka fyrir …
Kolbrún er skipulögð þegar kemur að því að pakka fyrir ferðalög. Ljósmynd/Úr einkasafni

Um liðna helgi fór Kolbrún í ferðalag á vegum Ferðfélags Íslands þar sem gengið var á Herðubreið og Kverkfjallajökul en fyrir slík ferðalög er búnaðurinn aðeins meiri. „Ég bæti við góðri úlpu í pokann ásamt jöklabroddum, ísexi, göngubelti og hjálmi. Já og húfu, þykkara buffi og lúffum. Nestisboxið stækkar auðvitað í samræmi við það. Já og svo sólarvörnin, hún er nauðsynleg, sérstaklega á jöklum.

Aðspurð hvort hún lumi á einhverju leynitrixi segir Kolbrún eina græju vera ómissandi. „Ein uppáhaldsgræjan mín er frussa en ég held að enginn nema við vinkonurnar köllum þetta þarfaþing þessu nafni. Þetta er framlenging á þvagrás kvenna sem gerir okkur kleift að pissa standandi. Það er þvílíkt frelsi að geta pissað hvar sem er án þess að særa blygðunarkennd fólks auk þess sem þetta einfaldar mjög að pissa bundin í línu á jökli. Hennar rétta nafn er Freshette og hægt er að panta hana að utan. Ég mæli með að vinkonur taki sig saman og panti eina pöntun til að spara sendingarkostnaðinn. Og fari svo helst og pissi saman, ég hef sjaldan hlegið jafn hátt og innilega á fjöllum.“

mbl.is