Reynir á alla þolinmæðina sem ég á

„Það er búið að vera brjálæðislega gaman að fara með …
„Það er búið að vera brjálæðislega gaman að fara með svona nýkabarettasýningar og sýna fólki sem ekki hefur séð svona áður, fólk bara gapir fyrst en svo á það bágt með andardrátt úr hlátri.“ Ljósmynd/Lilja Draumland

„Það er búið að vera brjálæðislega gaman að fara með svona nýkabarettasýningar og sýna fólki sem ekki hefur séð svona áður, fólk bara gapir fyrst en svo á það bágt með andardrátt úr hlátri. Síðustu tvær helgarnar eru fram undan og verðum við í Tjarnarbíói í Reykjavík, á Vagninum á Flateyri og í Skyrgerðinni í Hveragerði. Það er búið að vera yndislegt að ferðast um landið og gista í frábærum bændagistingum og hjá vinafólki á leiðinni. Ég hef svo nýtt tækifærið og ferðast á staði sem ég hef ekki komið á allt of lengi. Takk mamma og tengdó fyrir endalaus bílalán.“

Um leið og Búkalúinu lýkur fer Margrét svo úr glamúrfötunum og í flutningagallann. „Húsið sem ég hef leigt var selt ofan af okkur og því þurfum við að pakka saman öllu okkar hafurtaski og flytja. Þetta vex mér gríðarlega í augum og ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég verð komin sjö og hálfan mánuð á leið þegar við eigum að afhenda en maðurinn minn heldur því fram að þetta verði algjör snilld fyrir mig - ég sé bara súkkulaði sem geti bent og stjórnað sem hann segir að muni fara mér afar vel. Sem betur fer eru hann og flestir vinirnir naut að afli sem kemur sér vel í flutningum.“

Íslandsmet óléttra í hægsplitti með blöðrum slegið um hverja helgi.
Íslandsmet óléttra í hægsplitti með blöðrum slegið um hverja helgi. Ljósmynd/Vanilla Darling

„Í ágúst eru svo líka svona síðustu gigg fyrir barnsburð, ég verð með á dragsjóvinu Shemanic Trance á Gauknum 16. ágúst, síðustu gæsapartýin eru að koma í tíma og síðustu brúðkaupsplötusnúðavaktirnar eru þarna um miðjan mánuðinn. Á menningarnótt verðum við Hits & Tits með okkar rómaða útikaraoke við útitaflið við Lækjargötu svo endilega byrjið að æfa lögin. Í ágúst verð ég líka með stutt veislustjóranámskeið á Kex, sem eru að fyllast og ég vona að ég nái að setja fleiri á dagskrá áður en fílsunginn okkar kemur í heiminn. Allur frítími í ágúst fer svo í að tala við fæðingarorlofssjóð, sem reynir á alla þolinmæðina sem ég á.“

mbl.is