Ekki verða fórnarlamb franskra skúrka

Vasaþjófar hópast saman á stöðum þar sem von er á …
Vasaþjófar hópast saman á stöðum þar sem von er á fjölda ferðamanna. Þeir sæta líka færis í neðanjarðarlestinni. AFP

Það er nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að skoða heiminn að verða á einhverjum tímapunkti fórnarlamb svindlara eða vasaþjófa. Jafnvel reyndustu ferðalangar eig það til að láta glepjast, eða gleyma sér eitt augnablik og vita svo ekki fyrr en veskið er á bak og burt, eða bakpokinn horfinn. Óprúttnir aðilar sitja fyrir grunlausum ferðalöngum, beita úthugsuðum brellum og vinna saman í hópum þegar þeir herja á fórnarlömb sín.

En ef fólk veit hvað á að varast, og kann að gæta sín, þá snarminnka líkurnar á að skúrkarnir eigi erindi sem erfiði. Þarf ferðalangurinn ekki að vera taugahrúga í fríinu, og gruna alla í kringum sig um græsku, heldur einfaldlega passa sig ögn betur og þekkja þau brögð sem skúrkarnir beita.


Bandaríski ferðasérfræðingurinn Mark Wolters heldur úti rás á YouTube þar sem hann veitir hagnýt ráð um allt sem viðkemur ferðalögum. Í nýlegu myndbandi fer hann sérstaklega í saumana á þeim gildrum sem þarf að varast í París, en þar hafa vasaþjófar í gegnum aldirnar fullkomnað þá list að plata ferðalanga upp úr skónum.

Fyrst af öllu ráðleggur hann ferðalöngum að sniðganga fólk sem er að safna undirskriftum fyrir góðan málstað. Allar líkur eru á að viðkomandi sé frekar að reyna að mæla ferðalanginn út og sjá hvort hann er t.d. með dýrt úr sem upplagt væri að stela.

Önnur Parísarbrella felst í því að skúrkurinn þykist hafa fundið skartgrip á jörðinni og færir ferðalanginum, en fer svo fram á greiðslu. Lausnin er einfaldlega að fúlsa við skartgripnum, segja nei og ganga í burtu.

Ósvífnustu skúrkarnir beina sjónum sínum að börnunum, færa þeim t.d. fóður til að gefa dúfunum, eða binda lítið vinar- eða friðararmband á úlnlið þeirra. Þvínæst krefja þeir foreldrið um greiðslu eða „gjöf“ fyrir almennilegheitin. Lausnin er að kenna börnunum að þiggja ekki nokkurn skapaðan hlut frá ókunnugum.

Wolters segir líka óþarfa að hafa samúð með betlurunum í París. Þeir séu upp til hópa svikahrappar sem hafi betl að atvinnu. Þá þarf að fara mjög varlega í neðanjarðarlestinni og reyna vasaþjófar oft að leggja til atlögu bæði þegar farið er í gegnum farmiðahliðin, og þegar fólk stígur inn í eða út úr lestinni.

Þjófar reyna líka að plata ferðalanga með því að biðja þá um aðstoð við að rata. Þeir þykjast vera villtir og veifa stóru korti sem þeir segjast hvorki skilja upp né niður í. Á meðan hjálpsamur ferðalangurinn gerir sitt besta til að aðstoða sætir þjófahópurinn færis og stelur því sem stela má, t.d. tösku sem ferðalangurinn lagði frá sér svo hann gæti hjálpað til við að halda kortinu opnu.

mbl.is